Hagnaður Festi nam á þriðja ársfjórðungi þessa árs um 1,8 mö.kr., og jókst um rúmar 250 m.kr. á milli ára. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins sem birt var í gær. Framlegð félagsins var um 21%

Hagnaður Festi nam á þriðja ársfjórðungi þessa árs um 1,8 mö.kr., og jókst um rúmar 250 m.kr. á milli ára.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins sem birt var í gær. Framlegð félagsins var um 21%. Vörusala nam 37,3 mö.kr. og jókst um 2,2 ma.kr. á milli ára, eða 6,2%. Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 8,6 mö.kr. og jókst um 1,5 ma.kr., eða 21,4% á milli ára. Eigið fé nam 35,1 ma.kr. í lok tímabilsins og er eiginfjárhlutfallið 36,1%. Handbært fé frá rekstri nam 3,4 mö.kr., sem er 39,5% af framlegð félagsins, samanborið við 1,3 ma.kr. árið áður.

Hagnaður Festi fyrstu níu mánuði ársins nemur um 2,5 mö.kr. og hefur dregist saman um rúmar 900 m.kr. á milli ára. Aftur á móti hefur sala félagsins aukist um 11,4 ma.kr. á milli ára. Samhliða birtingu uppgjörsins hefur afkomuspá félagsins verið hækkuð um 600 m.kr. og er nú 10,4-10,8 ma.kr. fyrir árið í heild.

„Aðgerðir til að bæta framlegð og lækka rekstrarkostnað eru að skila árangri,“ segir Ásta S. Fjeldsted forstjóri Festi í uppgjörinu. Hún segir framlegð af dagvöru aukast vegna aukinnar veltu í verslunum Krónunnar og N1. Þá segist hún vonast til þess að álit Samkeppniseftirlitsins liggi fyrir á fyrri hluta næsta árs vegna kaupa Festi á Lyfju frá því fyrr í sumar. Hún segir horfur í rekstrinum góðar þótt óvíssa ríki vegna stríðsátaka og verðsveiflna á hrávörumörkuðum auk hárrar verðbólgu og vaxta.