Kirkjuþing Drífa Hjartardóttir er forseti kirkjuþings.
Kirkjuþing Drífa Hjartardóttir er forseti kirkjuþings. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kirkjuþingi, sem staðið hefur yfir í heilt ár, verður slitið á föstudaginn, en nýtt þing sett á laugardagsmorgun. Venjulega stendur kirkjuþing yfir frá hausti og fram á vor, en ástæða þess að þingið hefur staðið lengur yfir að þessu sinni er sá fjöldi mála sem komið hefur til kasta þess á árinu

Kirkjuþingi, sem staðið hefur yfir í heilt ár, verður slitið á föstudaginn, en nýtt þing sett á laugardagsmorgun. Venjulega stendur kirkjuþing yfir frá hausti og fram á vor, en ástæða þess að þingið hefur staðið lengur yfir að þessu sinni er sá fjöldi mála sem komið hefur til kasta þess á árinu.

Alls hafa 53 þingmál komið fyrir yfirstandandi þing og er nokkrum þeirra ólokið, en gert ráð fyrir að málaskráin tæmist á þingfundi á föstudaginn. Um helmingi færri mál bíða nýs kirkjuþings sem hefst á laugardag, en þau eru 26 talsins.

Meðal mála sem bíða þingsins á föstudaginn er skýrsla starfshóps um endurskoðun framtíðarskipunar þjóðkirkjunnar. Þar er m.a. að finna mál sem nýverið var greint frá í Morgunblaðinu, en þar er lagt til að fjársýsla þjóðkirkjunnar verði tekin af biskupi og skipuð verði fimm manna stjórn þjóðkirkjunnar sem hafi yfirsýn yfir rekstur og þjónustu kirkjunnar sem er á ábyrgð kirkjuþings. Stjórnin muni hafa skýrt umboð til eftirlits og ákvarðana, bera ábyrgð á að framfylgja ákvörðunum kirkjuþings, hafa eftirlit með daglegri starfsemi, starfa á ábyrgð kirkjuþings og lúta boðvaldi þess. Ástæða þess að tillagan er komin fram er m.a. sú að ýmislegt þykir óskýrt í stjórnskipulagi kirkjunnar, hlutverk og valdmörk einstakra eininga og embætta í stjórnkerfinu mjög á reiki og samstarf lykilaðila í starfsemi og þjónustu kirkjunnar er stirt eða jafnvel ekki fyrir hendi.

Aðspurð sagði Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings að hún ætti ekki von á að tekist yrði á á þinginu.

„Ég er mjög bjartsýn og á ekki von á að þetta verði mikið átakaþing. Það hafa eðlilega allir sínar skoðanir en ég held að það verði engin læti á kirkjuþingi,“ segir Drífa. oej@mbl.is