María Jóna Magnúsdóttir
María Jóna Magnúsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Brynjar Elefsen Óskarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá BL, telur að draga muni úr sölu rafbíla á næsta ári þegar nýtt kerfi ívilnana tekur gildi. Bílar séu enda verðteygin vara.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Brynjar Elefsen Óskarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá BL, telur að draga muni úr sölu rafbíla á næsta ári þegar nýtt kerfi ívilnana tekur gildi. Bílar séu enda verðteygin vara.

Til stendur að afnema endurgreiðslu á virðisaukaskatti á rafbíla, allt að 1.320 þúsundum, en bjóða í staðinn allt að 900 þúsund króna styrk til einstaklinga við kaup á rafbílum. Máli sínu til stuðnings bendir Brynjar á samdrátt í sölu tengiltvinnbíla eftir að ívilnun virðisaukaskatts féll úr gildi í fyrra og 5% vörugjöld voru lögð á í byrjun árs.

Helmingi minni sala

Alls seldust 5.100 tengiltvinnbílar í fyrra en í ár hafa selst ríflega 2.100 slíkir bílar. Stefnir því í helmingi minni sölu. „Það jákvæða er að salan fór yfir í rafbíla. Samanlögð hlutdeild rafbíla og tengiltvinnbíla hefur þó staðið í stað síðustu tvö ár en þeir eru tveir bestu kostirnir til að ná umhverfismarkmiðum.“

Spurður hvort markaðurinn með rafbíla sé því brothættur, og næmur fyrir verðhækkunum, segist Brynjar telja svo vera. Kannanir bendi enda til að hagkvæmni í rekstri sé efst í huga fólks. Því næst lægri bilanatíðni og umhverfisþátturinn.

Nú kosti 2-3 krónur á hvern kílómetra að aka rafbíl miðað við orkukostnað. Ef lagt verði á 6 krónu kílómetragjald muni sá kostnaður því aukast um allt að 200%.

„Það verður þá kannski farið að kosta 9 krónur að keyra rafbílinn en til samanburðar kostar um 10 krónur að keyra bensínbíl á hvern kílómetra. Þessi hækkun bætist ofan á dýrari fjárfestingu í rafbíl í upphafi [vegna minni ívilnana]. Það er því ekki lengur sami hagur í rafbílnum fyrir heimilisbókhaldið. Rafbíllinn er kannski 1 til 1,5 milljónum dýrari og það sparast ein króna á kílómetra í akstri en áður spöruðust 7 krónur,“ segir hann.

Verða senn ráðandi

Hlutfall rafbíla í sölu nýrra fólksbíla til einstaklinga á Íslandi sé komið í 70% og í 45% hjá fyrirtækjum en lengra sé í land hjá bílaleigum.

„Það væri ekki óeðlileg niðurstaða ef 70% hlutfallið hjá einstaklingum lækki í 50% á næsta ári. Hins vegar munu rafbílar örugglega verða ráðandi hér innan nokkurra ára en mjög líklegt er að skammtímaáhrifin verði frekar neikvæð en jákvæð. Það er erfitt að lesa öðruvísi í stöðuna. Þá er ég að vísa í talsvert minni ívilnun fyrir rafbíla og að hún verði jafnvel ekki gjaldgeng fyrir bíla sem kosta yfir 10 milljónum. Margir rafbílar kosta meira og hækka því um 1.320 þúsund krónur um áramótin.“

Spurður hvernig verð rafbíla hafi þróast bendir Brynjar á að innkaupsverð Nissan Leaf sé nú svipað og þegar bíllinn kom á markað í Evrópu 2013. Hins vegar sé rafhlaðan nú nærri þrefalt aflmeiri.

„Það kemur að því að rafhlöðurnar hætta að stækka og framleiðslukostnaður lækkar. Allar spár gera ráð fyrir að árin 2027/28 kosti álíka mikið að framleiða rafbíla og dísilbíla. Undir þeim kringumstæðum er engin ástæða til að rafbílar njóti ívilnana heldur séu skattlagðir eins og aðrir bílar. Spurningin er hversu mikið við viljum sem samfélag flýta þeirri þróun að fara í orkuskipti og til þess þarf að styðja við þessar tegundir bíla.“

Þá bendir Brynjar á sífellt hertar kröfur um minni losun koldíoxíðs á bensín- og dísilbíla. Fyrirhugaður Euro 7-staðall í Evrópu árið 2025 verði mjög strangur og vandséð hvernig hægt verði að framleiða dísilvél sem uppfyllir þann staðal.

Rétt að fresta gildistöku

María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins segir sambandið telja æskilegt að fyrirhuguðum breytingum á kílómetragjaldi rafbíla verði frestað um eitt ár. Með því gefist stjórnvöldum betri tími til undibúnings og geti þá kynnt fyrirætlanir fyrir alla orkugjafa í flokki fólksbíla í einu, þe. bæði hreinorku- og jarðefnaeldsneytisbíla, og til að kynna breytingarnar fyrir almenningi með mun betri fyrirvara en nú sé ráðgert. „Það er stöðugt verið að skapa óvissu um skattlagningu á rafbíla sem hægir á orkuskiptunum,“ segir María Jóna.

Samtökin taki hins vegar undir áform um að miða gjaldtöku við akstur með kílómetragjaldi. „Við erum því alls ekki að segja að þetta sé ekki rétta leiðin heldur aðeins að segja að þetta þarf að vinna betur og fyrirsjáanleikinn þarf að vera meiri.“