Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Stöðvun skuldasöfnunar myndi bæta vaxtakjör borgarinnar og hafa góð áhrif í baráttunni við verðbólguna. Slíkt kæmi öllum til góða

Kjartan Magnússon

Lítill áhugi er á markaði fyrir skuldabréfum Reykjavíkurborgar og neyðist hún því til að fjármagna sig á afarkjörum. Borgin er orðin mjög berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Langvarandi skuldasöfnun og há verðbólga hafa gert það að verkum að fjármagnsgjöld eru orðin ein helsta stærðin í bókhaldi borgarinnar.

Við svo búið má ekki standa. Ná þarf tökum á rekstrinum og hefja niðurgreiðslu skulda.

Reykjavíkurborg seldi skuldabréf fyrir 2.155 milljónir króna að nafnvirði nú í vikunni eftir að hafa tekið tilboðum í verðtryggðan skuldabréfaflokk með lokagjalddaga árið 2048, á ávöxtunarkröfunni 4,30%.

Jafnframt var ákveðið að hafna öllum tilboðum í óverðtryggðan skuldabréfaflokk með lokagjalddaga árið 2040. Heildartilboð í þann flokk voru samtals 1.500 milljónir króna að nafnvirði með 9,32% ávöxtunarkröfu.

Eru þetta heldur skárri kjör en borgin fékk í skuldabréfaútboði í september. En þá tók borgin tilboðum í verðtryggðan skuldabréfaflokk fyrir 1.840 milljónir króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 4,68% (lokagjalddagi 2032). Þá tók hún einnig tilboðum í óverðtryggðan skuldabréfaflokk fyrir 2.040 milljónir króna að nafnvirði, á ávöxtunarkröfunni 9,78%. (lokagjalddagi 2035).

Lántökuheimild nánast fullnýtt

Skuldabréfaútboð og bankalán eru sem fyrr mikilvirkasta úrræði Reykjavíkurborgar til að fjármagna hallarekstur sinn. Ávöxtunarkrafan endurspeglar lánskjörin. Þrátt fyrir að lánskjör borgarinnar hafi batnað á milli mánaða hafa þau sjaldan verið verri.

Fjárþörfin er rík enda borgarsjóður rekinn með miklum halla. Samkvæmt fjárhagsáætlun er áætlað að borgarsjóður taki lán fyrir allt að 21 milljarð króna á árinu. Samtals hafa nú verið tekin lán fyrir 20.923 milljónir og vantar því einungis nokkra tugi milljóna upp á að sú heimild hafi verið nýtt að fullu. Enn eru tvö skuldabréfaútboð eftir á árinu samkvæmt áætlun borgarinnar, þ.e. í nóvember og desember. Verði ráðist í þau mun borgin auka enn við skuldir sínar og fara þannig fram yfir áðurnefnda lántökuheimild fjárhagsáætlunar.

Óviðunandi fjárhagsstaða

Þegar verðbólga er 8% verður ekki horft fram hjá því að Reykjavíkurborg er nú að fjármagna sig á rúmlega 12% vöxtum þar sem um verðtryggð skuldabréf er að ræða. Það eru afarkjör fyrir stóran aðila eins og Reykjavíkurborg.

Ört versnandi lánskjör borgarinnar eru skýrt merki um óviðunandi fjárhagsstöðu hennar. Vandinn verður ekki leystur með áframhaldandi taprekstri og skuldasöfnun. Eina færa leiðin er að ná tökum á rekstrinum, koma honum í jafnvægi og hefja niðurgreiðslu skulda.

Fjárhagsáætlun 2024

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 verður væntanlega kynnt á næsta fundi borgarstjórnar. Brýnt er að sú áætlun feli í sér víðtæka hagræðingu og að langþráð jafnvægi náist í rekstri borgarinnar. Afar slæmt væri ef meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar kysi að stefna rekstri borgarinnar í enn frekara óefni með áframhaldandi taprekstri og skuldasöfnun.

Stöðvun skuldasöfnunar myndi bæta vaxtakjör borgarinnar og styrkja mjög stöðu hennar á lánsfjármarkaði. Síðast en ekki síst myndi slík breyting einnig hafa góð áhrif í baráttunni við verðbólguna, sem kæmi öllum til góða.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.