Aðalsteinn Guðjohnsen fæddist á Húsavík 23. desember 1931. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 15. október 2023.

Foreldrar Aðalsteins voru hjónin Einar Oddur Guðjohnsen, f. 1895, d. 1954, kaupmaður á Húsavík og í Reykjavík, og Guðrún Snjólaug Aðalsteinsdóttir, f. 1905, d. 1982, húsfreyja. Systkini Aðalsteins eru Stefán Þórður, f. 1926, d. 1969; Sigríður Guðrún, f. 1928, d. 2022; Kristín, f. 1930, d. 1990, og Elísabet, f. 1933.

Eftirlifandi kona Aðalsteins er Ragna Sigurðardóttir Guðjohnsen, f. 25. október 1941, fv. tölvukennari. Þau giftust 24. maí 1974. Foreldrar Rögnu voru hjónin Sigurður Kristjánsson, f. 1885, d. 1968, fyrrverandi alþingismaður, og Ragna Pétursdóttir, f. 1904, d. 1955, húsfreyja. Dóttir Aðalsteins og Rögnu er Auður, f. 20.9. 1975, söngkona og tónskáld, gift Elís Þorgeiri Friðrikssyni. Börn þeirra eru tvö og Elís á einn son af fyrra hjónabandi. Börn Aðalsteins frá fyrra hjónabandi eru Einar Pétur Guðjohnsen, f. 23.3. 1956, rafeindaverkfræðingur í Connecticut í Bandaríkjunum, kvæntur Jane Alice Frey Guðjohnsen, synir þeirra eru tveir; María Kristín Guðjohnsen Miller, f. 12.10. 1959, íþróttafræðingur í New Jersey í Bandaríkjunum, gift Gene John Miller, börn þeirra eru þrjú; Davíð Steinn Guðjohnsen, f. 28.5. 1961, iðnaðarverkfræðingur í New Jersey. Dætur Rögnu frá fyrra hjónabandi og uppeldisdætur Aðalsteins eru Elín Helgadóttir, f. 24.10. 1964, lögfræðingur, gift Kristjáni Þ. Vilhjálmssyni, börn þeirra eru tvö; Sigrún Ragna Helgadóttir, f. 28.6. 1968, rafmagnsverkfræðingur, gift Sigurði Einarssyni, börn þeirra eru fjögur. Samtals eru barnabarnabörnin ellefu.

Aðalsteinn ólst upp á Húsavík til 12 ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, fyrst á Laugaveg og síðan í Vesturbæinn. Aðalsteinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951, B.Sc.-prófi í rafmagnsverkfræði frá University of Pennsylvania 1954 og M.Sc.-prófi frá Stanford University í Kaliforníu 1955. Aðalsteinn var verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur frá 1955 og rafmagnsstjóri í Reykjavík 1969-99.

Aðalsteinn var formaður Ljóstæknifélags Íslands, formaður Sambands íslenskra rafveitna og sat í ýmsum opinberum nefndum varðandi orkumál. Hann var Paul Harris-félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur.

Aðalsteinn var stundakennari og samdi kennslubókina Góð lýsing, þýddi bókina Rafmagnið og Handbók um lýsingartækni. Viðurkenningar: Heiðursfélög í háskóla ETA KAPPA NU og TAU BETA PI 1952, 1953. Heiðursverðlaun að loknu námi: Atwater Kent Prize 1954; og Philadelphia Chamber of Commerce Award 1954. Hann hlaut gullmerki Stúdentafélags Reykjavíkur 1971. Hann var heiðursfélagi Ljóstæknifélags Íslands frá 1994.

Aðalsteinn var mikill listunnandi og eftir hann liggur fjöldi myndverka.

Útför Aðalsteins fer fram frá Langholtskirkju í dag, 26. október 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi okkar Aðalsteinn Guðjohnsen er fallinn frá.

Pabbi var mjög hæfileikaríkur maður, hann var vel gefinn, talaði mörg tungumál, var listamaður sem spilaði á píanó og málaði náttúrumyndir jafn vel og sem fallegustu ljósmyndir væru. Pabbi var ljúfur, jákvæður og brosmildur og sá alltaf góðu hliðina á öllu. Hann var mikill fjölskyldumaður og samverustundir með börnum og barnabörnum voru honum mikils virði og dýrmætar. Pabbi stundaði badminton og sund í áratugi og hafði mikinn áhuga á stangveiði.

Minningin um það þegar við fórum með pabba á aðfangadag að keyra jólagjafir til fjölskyldu og vina er mjög sterk, þetta gerðum við í fjölda ára og fannst okkur þetta ómissandi hluti af jólunum. Einnig spiluðum við oft á spil og hann sagði okkur skemmtilegar sögur eins og um „Jón í fjallinu“ sem fleiri í fjölskyldunni kannast við. Við ræddum oft um íþróttir, sérstaklega fótbolta, íslenskan sem enskan.

Minning þín mun lifa með okkur og fjölskyldum okkar um ókomna tíð.

Við kveðjum þig, elsku pabbi, með ást og þakklæti og sendum Rögnu og fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðju.

María, Einar og Davíð.

Elsku pabbi okkar hefur nú fengið hvíldina og það er margs að minnast.

Pabbi hélt ýmsar skemmtilegar venjur og kunni vel við að hafa hlutina í föstum skorðum. Hann hafði mikinn metnað til að gera vel og var stoltur af störfum sínum hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Orkumál voru honum hjartans mál og hann gat farið á flug við að ræða þau. Það var notalegt að horfa á hann og mömmu ræða vinnudaginn sinn á meðan mamma útbjó kvöldmatinn og hann lagði á borð.

Um helgar sátu þau gjarnan með morgunkaffið og blöðin við eldhúsborðið eða úti á svölum. Á konudaginn færði hann mömmu 12 rauðar rósir og fengum við líka eina rós hver. Eftir utanlandsferðir færði hann okkur litlar dúkkur í þjóðbúningum. Það var oft mikið fjör, sérstaklega á sumrin þegar öll börnin voru samankomin með vinum því vinir voru alltaf velkomnir. Þá var í mörg horn að líta á stóru heimili. Fyrir jólin var farið út að velja jólatré, jólaljós sett í glugga og jólakúlur hengdar í tré úti í garði. Pabbi var alltaf til í að taka þátt í ævintýrum okkar, hvort sem það var að mæta inn í herbergi í hárgreiðslu eða í búð með litlum fyrirvara, koma niður í kjallara að skoða draugahús eða að horfa á leikrit í miðjum fréttatíma, mála jólaseríur bleikar eða koma út í fótbolta á kvöldin eftir langan vinnudag.

Pabbi var einstaklega þolinmóður leiðbeinandi. Þegar stærðfræðibókin var rifin í bræði yfir heimalærdómi, beið hann rólegur þangað til ró var komin á og hélt þá áfram að leiðbeina af sinni einstöku yfirvegun. Hann var vanur kvennaríkinu og gerði stundum góðlátlegt grín að okkur þegar við sátum við eldhúsborðið og mösuðum hver upp í aðra.

Hann sýndi alltaf áhuga á því sem við vorum að fást við, til í að fræða okkur og upplýsa og hvatti okkur til dáða að sækja okkur menntun, okkur væru allir vegir færir. Þó að maður hringdi á miðjum vinnudegi svaraði hann alltaf í símann og gaf sér tíma til að hlusta og gefa ráð þegar við leituðum til hans. Alltaf skein hlýjan úr augunum hans.

Pabbi var mjög listrænn og málaði margar fallegar vatnslitamyndir. Eftir starfslok gat hann sinnt þessari iðju betur og það var notalegt að heimsækja hann og mömmu í Sóltúnið á laugardegi þar sem fótboltinn var í sjónvarpinu, búið að leggja á borð fyrir kaffið og ný mynd á trönunum uppi í litlu skrifstofunni. Hann var mjög getspakur þegar kom að ensku knattspyrnunni og veðjaði oft á rétt úrslit. Hann var einstakur afi og góður við barnabörnin sín, gaukaði að þeim góðgæti, grínaðist og lék við þau og sagði þeim sögur af Jóni í Fjallinu en þær sögur sagði pabbi hans honum þegar hann var lítill.

Síðustu tvö árin dvaldi pabbi á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og þar áttum við margar góðar stundir, þar var mikið sungið og teiknað. Hann var tónelskur og lék oft á munnhörpuna sína sem hann bar iðulega á sér í vasanum. Þegar við sungum saman söng hann gjarnan bassaröddina enda afar músíkalskur.

Við kveðjum pabba með söknuð í hjarta en fyrst og fremst þakklæti fyrir allt sem hann kenndi okkur.

Elsku pabbi, hvíl í friði.

þínar dætur,

Auður, Sigrún og Elín.

Afi var svo hlýr og kærleiksríkur, brosti alltaf og tók svo vel á móti manni.

Því var alltaf fagnað þegar maður fékk að gista hjá ömmu og afa, amma tók ekki annað í mál en að taka gestarúmið sjálf og leyfa manni að sofa á hennar helmingi við hliðina á afa. Sögurnar fyrir svefninn klikkuðu aldrei þrátt fyrir að þær væru oft skáldaðar jafnóðum, alltaf um Jón í fjallinu í því samhengi sem maður fékk að stinga upp á – sama hversu kjánalegar þær áttu til að vera.

Þegar hann sótti mann í skólann var farin leynileiðin heim, en þá stytti hann sér leið til að forðast rauðu ljósin. Hann var alltaf til í að koma út í garð að spila fótbolta.

Hlýjar minningar frá Sóltúni og Þingvöllum eru óteljandi, þar sem hann kenndi manni að flagga, badminton og mannganginn í skák – leikinn sem var ómögulegt að sigra hann í, göngutúrar að Peningagjá, Öxará og Drekkingarhyl ásamt því að fá einstöku sinnum að stýra Toyota-bílnum í fanginu hans í kringum lóðina á Þingvöllum.

Hvíldu í friði, elsku afi.

Kristján Andri,
Sölvi og Ingvi.