Ávani Notkun nikótínpúða þykir varasöm fyrir ungt fólk og getur leitt til aukinnar neyslu áfengis. Aðgengi að púðunum er nánast óheft.
Ávani Notkun nikótínpúða þykir varasöm fyrir ungt fólk og getur leitt til aukinnar neyslu áfengis. Aðgengi að púðunum er nánast óheft. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Vilberg hordur@mbl.is

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Þetta hefur verið svo gott í mörg ár,” segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins Vogs og læknir, um drykkju ungs fólks sem virðist vera vaxandi í efri bekkjum grunnskóla eins og hefur komið fram í umfjöllun Morgunblaðsins. „Við höfum áhyggjur af því,“ segir hún en neysla áfengis í grunnskólum var nær horfin. Íslenska módelið svokallaða hefur verið kynnt erlendis til marks um góðan árangur í forvörnum en nú horfir til verri vegar. „Árangurinn sem hafði náðst var orðinn heimsþekktur og það er slæmt ef það er að koma bakslag.“

Nikótín skaðvaldur

Forstjóri Vogs segir sjónir beinast að aukinni neyslu ungmenna á nikótíni. „Sem er mikið áhyggjuefni en hún kemur fram bæði í könnunum embættis Landlæknis og Rannsókna og greiningar.“ Nikótínneyslan hefur slæm áhrif á ungmennin. „Aðgengi að nikótínpúðum er nánast óheft,“ segir Valgerður og vísar m.a. til auglýsinga sem eru notaðar við markvissa markaðssetningu púðanna.

„Dregið hefur úr þörf fyrir innlagnir ungs fólks á Vog allt frá aldamótum, sérstaklega þeirra sem eru yngri en 20 ára, og vonandi verður ekki breyting á því. Neysla fíkniefnis á unga aldri er alltaf áhyggjuefni. Þegar búið er að setja fíkniefni í heilann, hvort sem er áfengi, nikótín, kannabis eða annað, þá getur það útsett fólk fyrir vanda og sumir þróa fíkn, og enn frekar ef neyslan byrjar snemma. Ef krakkar eru farnir að drekka í auknum mæli í grunnskólum þá er það mjög slæm þróun. Það er betra fyrir heilann að bíða með að nota hugbreytandi efni.“

En hvað skyldi skýra þessa breyttu þróun? „Það er búið að rýna í það hvers vegna það gekk svona vel að draga úr neyslu í grunnskólum,“ segir Valgerður en foreldrar skipta þar höfuðmáli sem fyrirmyndir. „Hvernig það voru samantekin ráð að halda betur utan um börnin. Dæmi sem má nefna eru foreldrarölt og niðurgreidd íþróttagjöld. Það var mjög margt sem lagði lóð á vogarskálarnar. Ég veit ekki hvort það er afturför í því en svo getur verið að þetta sé áhugavert fyrir einhvern hóp. Það verða alltaf smitáhrif í því hvenær þú byrjar að prófa. Svo hefur almennt viðhorf til áfengisdrykkju, til áfengra drykkja, hvenær er „í lagi“ að drekka og hvar, mikil áhrif á neyslu. Ef efnið er ekki álitið skaðlegt má einnig búast við aukinni drykkju. Aðgengi hefur aukist í samfélaginu og enn bætir í það. Það eykur neyslu, gerir hana meinleysislegri og það hefur líka áhrif á unga fólkið í samfélaginu, beint og óbeint.“

Vaxandi vandamál

Skólastjóri Hagaskóla, Ómar Örn Magnússon, hefur bent á að vandamálið sé vaxandi. „Af hverju er þetta spennandi núna en var það ekki fyrir fimm árum? Ég veit ekki svarið við því,“ segir Valgerður. Reykingar hjá nemendum grunnskóla voru til dæmis orðnar nánast hverfandi og fóru niður í 2% af fjölda nemenda. „Þetta var ekki neitt neitt,“ segir hún en notkun nikótínpúða meðal fólks aldrinum 15-20 ára er orðin nokkuð algeng. Fjórir af hverjum tíu innan þess hóps nota púðana. „Sem er alveg rosalega mikið. Þetta er dramatísk breyting hjá ungu fólki.“ Það hefur haft neikvæð áhrif og breytt hegðun ungdómsins.

Forstjóri Vogs segir það slæmar fréttir að vart hafi orðið breytinga á neyslu ávanabindandi efna í grunnskólum landisns. „Auðvitað geta hlutirnir ekki alltaf gengið í góðu áttina en vonandi er hægt að grípa inn í ef þetta er að snúast okkur í óhag fyrir unga fólkið okkar.“