Viðar Guðmundsson fæddist á Akureyri 18. mars 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 12. október 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Kristín Guðbjörg Magnúsdóttir, f. 11.10. 1913, d. 21.10. 2011, og Guðmundur Magnússon, f. 14.11. 1910, d. 30.10. 1972. Systkini hans: Magni, f. 19.12. 1933, Halla Soffía, f. 21.2. 1936, d. 12.11. 2020, Margrét Heiðdís, f. 23.2. 1945, Oddný Guðfinna, f. 8.12. 1947, og Sigurgeir, f. 25.1. 1952. Samfeðra bróðir hans var Björgvin Hlíðar, f. 4.6. 1933, d. 30.1. 1962.

Árið 1955 kynntist Viðar eiginkonu sinni, Stellu Berglindi Hálfdánardóttur, f. 16.3. 1943, d. 24.12. 2016. Viðar og Stella giftu sig 26. ágúst 1961 og eignuðust fimm börn, þau eru: 1) Sólrún, f. 17.1. 1962, eignmaður hennar Jón Wendel, fjögur börn frá fyrra sambandi og hjónabandi: a) Aðalheiður Rós, f. 30.6. 1980, d. 30.6. 1980. b) Andrea Ösp, eiginmaður hennar Stefán Benedikt Vilhelmsson og börn hans Embla Steinvör og Iðunn Eldey. c) Berglind Ýr, eiginmaður hennar Eiríkur Nilsson og börn þeirra Alexander Orri, Mikael Darri og Ísabella Emma. d) Birkir Örn, unnusta hans Hildur Ólafsdóttir. 2) Brynjar, f. 25.4. 1964, eiginkona hans Gyða Björnsdóttir, dætur Gyðu: a) Elín Anna, eiginmaður hennar Yves Dumont, búsett í Brussel í Belgíu. b) Anna Margrét, sonur hennar Brimir Þór. Saman eiga Gyða og Brynjar dótturina Birnu, eiginmaður hennar er Eysteinn Gunnlaugsson og sonur þeirra Bragi. 3) Agnes, f. 28.6. 1966, eiginmaður hennar Þórir Magnússon, þrjú börn þeirra: a) Kolbeinn Viðar, eiginkona hans Svanhvít Hekla Ólafsdóttir, eiga þau tvö börn, Anítu Nótt og Núma Tý. b) Svanur, sambýliskona Tinna Bjarnadóttir, börn hans frá fyrra sambandi Salka Cecili, Jökull Hrafn og Ugla Rán. c) Anníe Mist, sambýlismaður hennar Frederik Ægidius, barn þeirra Freyja Mist. 4) Hilmar, f. 29.12. 1970, eiginkona hans Erla Björgvinsdóttir, hann á fjögur börn af fyrra hjónabandi, þau eru: a) Hildur Sif, eiginmaður hennar Alexander Abenius og börn þeirra Gabriel Týr og Benjamín Ýmir. b) Daníel Kristinn, eiginkona hans Hrafnhildur Gunnarsdóttir og börn þeirra Sunneva, Sólbjört og stúlka. c) Sóley Ósk, sambýlismaður hennar Ástþór Óskar. d) Viðar Snær. Erla á tvö börn af fyrra hjónabandi: a) Gunnar Dan og b) Apríl Unni. 5) Heiða, f. 26.10. 1972, eiginmaður hennar Kristján Kristjánsson, tvö börn þeirra: a) Aron Bjarki og b) Birta Maren, af fyrra sambandi á Heiða dótturina Karen Ósk, eiginmaður hennar er Guðmundur Þór Guðmundsson, synir þeirra eru Gunnar Zakarías og Ernir Þór.

Viðar var múrari og útskrifaðist sem múrarameistari 10.3. 1964. Hann vann alla tíð við múrverk og frá árinu 1996 og þar til hann fór á eftirlaun átti hann fyrirtækið Múrlínu ásamt tengdasyni sínum og dóttur.

Útför Viðars fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 26. október 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi kvaddi okkur 12. október sl. Hann var 84 ára gamall og búinn að glíma við veikindi svo segja má að hans tími hafi verið kominn. Það er samt mikil sorg og söknuður að sjá á eftir svona góðum ástvini en ég er þakklát fyrir það því það lýsir svo vel þeirri ómetanlega góðu æsku og þeirri frábæru fjölskyldu sem ég hef fengið að njóta alla tíð.

Ég er elst fimm systkina. Fyrstu tvö árin bjuggum við hjá móðurömmu minni í litlu húsi sem hét Heiðvangur við Sogaveg en í dag heitir sú gata Háaleitisbraut. Eftir það fluttum við í blokk á Háaleitisbraut og síðar í Fossvoginn árið 1969.

Fyrstu minningar mínar um pabba snúast mest um jól og sumarfrí sem kannski er eðlilegt þar sem pabbi vann alltaf gríðarlega mikið. Jólin voru alltaf svo dásamlegur tími. Þegar ég var lítil og við bjuggum á Háaleitisbraut var lokað inn í stofu þegar jólin nálguðust. En kl. 18 á aðfangadag var opnað þangað inn og öll jólahátíðin birtist okkur krökkunum eins og ævintýraland. Allir fengu bók í jólagjöf og á þessum árum var pabbi mikið fyrir að lesa um jólin og ég man yndislegu kyrrðina yfir öllu þegar búið var að opna pakkana og koma yngstu krökkunum í bólið. Þá fékk pabbi sér sínalcó og konfektmola og lagðist svo upp í sófa að lesa bók. Þá fékk ég líka sinalcó og fór inn í rúm að lesa mína bók.

Pabbi elskaði áramótin og hann elskaði að sprengja sem mest. Það var alltaf gaman að fara með honum að kaupa flugelda og enn skemmtilegra að festa hurðasprengjur hér og þar um húsið og reyna að bregða honum sem tókst nú misvel hjá okkur krökkunum. Þá var mikið spilað og oft langt fram á nótt. Pabbi kenndi okkur krökkunum fljótt að spila alls konar spil enda var hann mikill spilamaður. Það var oft mikil gleði og gaman að spila tíu eða berja í borðið en seinna komu svo borðspilin og alltaf þótti pabba gaman að fara í spilabúð fyrir jólin og kaupa eitt nýtt spil.

Pabbi hafði einnig gaman af að tefla og þegar heimsmeistaramótið í skák var haldið á Íslandi 1972 var mikið teflt heima hjá okkur og þá kenndi pabbi mér að tefla.

Sumarfríin eru mér mjög minnisstæð. Þegar ég hugsa til baka er alveg ótrúlegt hvað foreldrar mínir nenntu að þvælast með okkur krakkana í tjaldútilegur og veiðitúra, með allan farangurinn á toppnum á bílnum og koma okkur öllum fyrir í tjaldi og elda á litlum prímus jafnvel í grenjandi rigningu. En mikið var það alltaf gaman.

Við fórum einnig a.m.k. þrisvar á hverju sumri upp í Múlakot í Borgarfirði en þar átti móðuramma mín jörð með bróður sínum þar sem við höfðum aðgang að gömlum torfbæ. Við sváfum öll í baðstofunni, það var hitað upp og eldað á kolaeldavél og sótt vatn í lækinn. Pabbi sló í kringum bæinn með orfi og ljá, kenndi okkur að setja heyið i baggabönd og bera upp í hlöðu. Þetta voru alveg dásamlegir tímar.

Já, æskuárin voru dásamleg, full af umhyggju, væntumþykju og kærleika.

Nú þegar ég kveð pabba er mér efst í huga mikið þakklæti fyrir yndislegan föður, afa og langafa sem ég á endalaust góðar minningar um.

Takk elsku pabbi, ég bið að heilsa mömmu.

Sólrún.

Yndislegi Viddi afi og langafi.

Þegar ég hugsa til baka minnist ég allra stundanna í Brúnalandi, við stelpurnar að leika okkur saman, alltaf glaumur og gleði, aldrei var sussað á mann eða dregið úr því. Ég elskaði það þegar ég fékk að gista hjá ömmu og afa, þá sat maður með afa að horfa á sjónvarpið og alltaf voru bornar fram saltstangir og suðusúkkulaði.

Eins voru ferðirnar í sumarbústaðinn í Öndverðarnesi alltaf jafn skemmtilegar, þar kenndi afi okkur Mæju og aldrei leyfði hann manni að vinna.

Gamlárskvöld voru alltaf með ömmu og afa og enginn hafði meira gaman af því að sprengja en hann afi. Hann kenndi okkur stelpunum nauðsynlega stríðni og gleði í litlum saklausum hrekkjum, eftirminnilegt er síðasta gamlárskvöld með afa þar sem hann sat úti og gladdist yfir öllum sprengjunum.

Hann var allra manna vinur og alltaf jafn notalegt að heimsækja hann, það fannst Freyju litlu líka enda myndaðist einstakt samband á milli þeirra. Alltaf er sungið á leið í leikskólann í bílnum og er langafi með í öllum lögum sem hægt er.

Sól er úti

Sól er inni

Sól í hjarta

Sól í sinni

Sól hjá Vidda langafa mínum.

Ég kveð þig með ást og þakklæti, elsku afi minn.

Þín

Annie Mist.

hinsta kveðja

Elsku afi.

Ég skrifaði minningargrein til þín en hún var of löng fyrir blaðið. Ég reyndi að stytta hana en það tók hjartað úr henni fyrir mér svo ég ákvað að hafa hana bara langa og þar af leiðandi eingöngu á netinu.

Hér kemur styttri útgáfa:

Jól.

Áramót.

Prakkari.

Sumarbústaður.

Spil.

Prakkari.

Ég elska þig og mun aldrei spila Mæju án þess að hugsa til þín.

Lengri minningargreinina má finna á www.mbl.is/andlat/.

Kveðja,

Andrea Ösp
Karlsdóttir.