Sigþór Pálsson fæddist á Gilsá í Breiðdal Suður-Múlasýslu 24. júlí 1945.

Sigþór slasaðist árið 2018 og dvaldi eftir það á Hrafnistu í Laugarási þar sem hann lést 1. október 2023.

Foreldrar hans voru Páll Lárusson og Jóhanna Petra Björgvinsdóttir.

Hann var yngstur þriggja albræðra, hinir eru Sigurður Pálmi, f. 1943, og Stefán Lárus, f. 1940. Petra átti einn eldri son úr fyrra sambandi, Björgvin Hlíðar Guðmundsson, sem fórst ungur í sjóslysi frá konu og ungum börnum.

Hálfbræður samfeðra eru Sigurður, f. 1950, Þórhallur, f. 1952, Ari Már, f. 1956, og Guðmundur, f. 1962.

Sambúð Petru og Páls lauk þegar Sigþór var á þriðja ári. Flutti hún þá með syni sína til bróður síns á Fellsási í Breiðdal.

Sigþór fór ungur á vertíðir, til Seyðisfjarðar, Hornafjarðar og Vestmannaeyja.

Hann fór í Stýrimannaskólann í Eyjum en lauk svo stýrimannaprófi við Stýrimannaskólann í Reykjavík eftir að hann flutti til Reykjavíkur.

Sigþór eignaðist soninn Arnar, f. 1965, með Sigríði Pálsdóttur. Arnar er kvæntur Þorgerði Karlsdóttur og eiga þau þrjá syni.

Sigþór kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Þóreyju Þórarinsdóttur, f. 4. ágúst 1945, í Vestmannaeyjum. Þórey á þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Dóru Kristínu, f. 1962, gift Pétri Péturssyni, Þóri Grétar, f. 1965, og Hönnu Birnu, f. 1966, gift Ingólfi Helgasyni.

Barnabörnin eru átta og langafabörnin fjögur.

Gekk hann börnum Þóreyjar í föðurstað og sá um þau sem sín eigin börn.

Sigþór og Þórey bjuggu í Eyjum fyrst um sinn en fluttu til Reykjavíkur eftir eldgosið 1973. Sigþór vann mestalla sína tíð á sjó en síðustu starfsárin vann hann við skipaafgreiðslu hjá Samskipum og hjá Reykjavíkurborg.

Útför Sigþórs hefur þegar farið fram í kyrrþey.

Sigþór Pálsson fæddist 24. júlí 1945 á Gilsá í Breiðdal, Suður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Páll Lárusson bústjóri og kona hans Jóhanna Petra Björgvinsdóttir. Hann var yngstur þriggja sona þeirra. Hinir eru Sigurður Pálmi og Stefán Lárus. Petra átti fyrir son, Björgvin Hlíðar Guðmundsson, sem fórst ungur í sjóslysi, frá konu og tveimur ungum börnum.

Þegar Sigþór var á þriðja ári slitnaði upp úr sambúð foreldranna, heimilið leysist upp, faðirinn flytur til Keflavíkur, en móðirin, með þrjá unga syni, á heimili móður sinnar og Gísla bróður síns á næsta bæ, Hlíðarenda. Við komu okkar þangað fjölgaði heimilisfólkinu þar úr 11 í 15! Þarna var heimili okkar bræðra næstu níu ár og vistin var góð. Við flytjum svo í nýbýlið Fellsás í sömu sveit, sem Erlendur bróðir Petru hafði þá fest kaup á, og hún gerist bústýra þar.

Við bræður ólumst því upp við sveitastörf, uns við hurfum til starfa á öðrum vettvangi, en sjómennska varð ævistarf okkar allra. Fórum allir í stýrimannaskóla og lukum skipstjórnarprófi. Sigþór stundaði sjó á skipum frá Hornafirði, Vestmannaeyjum, Grindavík, Sandgerði og Reykjavík, en þar var hann á togurum, um árabil, seinni hluta starfsævinnar á sjó. Hann var eftirsóttur til starfa á sjó vegna dugnaðar, verkkunnáttu og áreiðanleika, og ekki spillti létt hugarfar og næmt skopskyn samskiptum. Hann var vinmargur, og á þeim tíma sem við sigldum saman og komum að bryggju hérlendis, þá brást það varla að einhver kæmi og spyrði eftir Sigþóri! Meðan heilsan leyfði vann hann svo við skipaafgreiðslu hjá Samskipum og við húsvörslu hjá Reykjavíkurborg.

Í Vestmannaeyjum kynntist hann fráskilinni konu með þrjú börn. Þau felldu hugi saman og það samband entist til æviloka hans. Þau fluttu frá Eyjum á gosnótt og sneru ekki aftur þangað. Heilsa hans gaf sig og hann var rúmfastur síðustu æviárin og naut umhyggju konu sinnar til hinstu stundar.

Við bræður sigldum stundum saman og þaðan koma ljúfar minningar. Sigþór eignaðist snemma soninn Arnar, með Sigríði Pálsdóttur. Ég óska þér, bróðir, góðs leiðis á siglingu þinni til Sumarlandsins. Sá er okkar ferðamáti, þú ert með strikið á kompásnum þangað, far vel!

Stefán Lárus
Pálsson.