Verkefni ríkisstjórnarinnar eru augljós en það vantar skýra verkáætlun

Nú er hálfnað annað kjörtímabil ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, en undanfarið ár hefur gætt ýmissa þreytumerkja á því og ýmsir samstarfsörðugleikar flokkanna opinberast hvað eftir annað, svo jafnvel hefur legið við stjórnarslitum.

Leiðtogar stjórnarflokkanna áttu fundi í fyrri viku til að stilla saman strengina og ræða hvernig bæta mætti vinnubrögð og samskipti til þess að komast hjá taugatitringi á stjórnarheimilinu og verða meira úr verki.

Endurnýja heitin, sögðu sumir; endurnýja erindið, sögðu markþjálfarnir Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi.

Þetta ræddu oddvitar ríkisstjórnarinnar opinskátt þegar þeir komu saman í viðtal Dagmála Morgunblaðsins, sem birt var í gær. Viðtalið má kalla eins konar milliuppgjör, þar sem farið var yfir hvernig til hefur tekist, stöðuna nú og stefnuna næstu misseri.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, viðurkenndi að það hefði verið veikleikamerki fyrir stjórnina að ljúka liðnum þingvetri eins og raunin varð, þar sem fjölmörgum málum var slegið á frest og þingið sent heim áður en upp úr syði milli stjórnarliða.

„Þess vegna fórum við til Þingvalla,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins. Til þess að afstýra öðru eins í vetur.

Það er enda meira í húfi, verðbólgudraugurinn hefur ekki verið kveðinn niður, vextir eru í hæstu hæðum og harður kjaravetur fram undan. Þau verkefni eru mun viðameiri og veigameiri en þær áskoranir sem stjórninni auðnaðist ekki að ljúka „með stæl“ í vor, eins og Bjarni orðaði það.

Það er lofsvert að leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafi gengist við vandanum – bæði sín á milli og út á við – og sest niður til þess að leysa hann. Ekki einstök ágreiningsefni, enda eru þau fleiri og flóknari en samið verði um í snatri, heldur frekar um það hvernig ætti að nálgast slík deiluefni, líkt og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði.

Í kjölfar þessara viðræðna var svo haldinn sameiginlegur vinnufundur þingflokka stjórnarinnar, sá fyrsti á þessu kjörtímabili. Stjórnarliðar áttu þar góða stund, skildust með virktum og höfðu á orði að þetta ættu þeir að gera oftar. Það sakar sjálfsagt ekki.

Enn eru þó óútkljáð erfið mál á borð við útlendingamálin, orkumál og matvælaráðherra, sem ekki leysast af sjálfu sér, þola ekki bið og eru einstaklega eldfim.

Þrátt fyrir að oddvitar ríkisstjórnarinnar hafi þannig náð saman um bæði meginmarkmið ríkisstjórnarinnar og bætt vinnubrögð, þá greindu þeir ekki frá því hvaða nýjar og betri leiðir ætti að fara en áður til þess að ná þeim.

Það er enginn ágreiningur um það í íslensku þjóðfélagi að verðbólgan sé brýnasta viðfangsefnið, en við blasir að núverandi aðgerðir gegn henni hafa ekki dugað til.

Seðlabankinn hefur gert sitt, en hverju vill ríkisstjórnin til kosta? Og svo á eftir að koma í ljós hvað aðilar vinnumarkaðarins vilja gera, því það mun mest velta á þeim hvernig fer. Því það verður ekki auðvelt eða útlátalaust að kveða hana niður, annars væri löngu búið að því.

Þetta á við á fleiri sviðum, því augljóst er að ríkisstjórnin þarf að einbeita sér betur að brýnustu verkefnum og hún þarf að skýra það fyrir almenningi hvernig hún hyggst gera það með snarpri verkefnaáætlun.

Eins og sakir standa er þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eina vísbendingin um hvað hún vill gera, en skráin er bólgin af alls kyns verkefnum öðrum, sem fæst eru brýn og um sum hver ágreiningur.

Ríkisstjórnin má ekki sóa takmörkuðum tíma sínum í þinginu í slíkt. Um leið gengi hún á pólitískt kapítal sitt, sem ekki er óþrjótandi, en aðallega er þó hætta á að við það taki stjórnarþingmenn upp fyrri deilur.

Því ríður á að oddvitar stjórnarinnar komi sér saman um forgangsmálin, feli ráðherrum sínum að grisja þingmálaskrá sína og hemja metnaðinn, svo það sé alveg ljóst – bæði þingi og þjóð – hvert stjórnin stefni og hvaða sameiginlegu leiðir hún velji til þess.