Borðaklipping Frá vinstri: Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólasveit, og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðar með skærin.
Borðaklipping Frá vinstri: Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólasveit, og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðar með skærin. — Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tímamót urðu í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum í gær þegar ný brú yfir Þorskafjörð í Reykhólasveit var opnuð formlega. Nýja brúin er 260 metra löng; tvíbreið í sex höfum og að henni liggja 2,7 km langar fyllingar á firðinum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Tímamót urðu í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum í gær þegar ný brú yfir Þorskafjörð í Reykhólasveit var opnuð formlega. Nýja brúin er 260 metra löng; tvíbreið í sex höfum og að henni liggja 2,7 km langar fyllingar á firðinum. Þetta er framkvæmd sem Suðurverk hf. hafði með höndum, en Eykt sá um brúarsmíð sem undirverktaki.

Þverun og vegir

Samhangandi því að brú sé fullgerð styttist í að vegur við vestanverðan Þorskafjörð, um skóglendi og hlíðar og fyrir Hallsteinsnes, sé tilbúinn. Slíkt verður áður en árið er úti, en þessi leið er 10,6 km og liggur um Teigsskóg og inn í Djúpafjörð austanverðan. Djúpifjörður og Gufufjörður verða þveraðir og á því að ljúka eftir 3-4 ár. Tilboð í þann verkþátt voru opnuð nýlega og Borgarverk, sem sinnt hefur vegaframkvæmdum í Teigsskógi, bauð þar lægst; ¾ af áætluðum kostnaði sem var liðlega 1,1 milljarður kr.

Nokkur ár munu líða áður uns þverun fjarða lýkur og því var lagður vegur úr Teigsskógi alveg inn í botn Gufufjarðar. Þetta er sveitavegur sem til bráðabirgða er aðalleiðin Vestfjarðavegur nr. 60. Með þessari tengingu losna vegfarendur áður en vetur gengur í garð við að aka um Hjallaháls; 336 metra háan fjallveg sem oft hefur verið farartálmi.

Þegar fyllingar og brýr yfir firðina tvo, sem að framan er lýst, eru tilbúnar fer umferð af veginum yfir Ódrjúgsháls. Beggja vegna hans er vegurinn í háum brekkum og að vestan, Djúpafjarðarmegin, það er að austan, er leiðin í sneiðingum um hátt klif. Allt þetta hefur gert vegina yfir hálsana tvo viðsjárverða og skapað kröfu meðal Vestfirðinga um vegabætur. Segja má að nú séu þær að hálfu í höfn.

Þýðing fyrir Vestfirði alla

Nýr vegur með brúm, fyllingum og fram hjá hálsum mun fullgerður stytta leiðina um Vestfjarðaveg um 22 kílómetra. Um slíkt munar mjög muna fyrir mannlíf og atvinnustarfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum, en ekki síður Ísafjarðarsvæðið. Slíkt helst í hendur við að ljúka gerð nýs vegar yfir Dynjandisheiði, það er milli Vatnsfjarðar og Arnarfjarðar.

„Þorskafjarðarbrúin með því öllu sem henni fylgir breytir miklu hér. Þetta er mikill hátíðisdagur,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólasveitar í samtali við Morgunblaðið. „Senn verður hægt að fara um stærstan hluta sveitarinnar hér á láglendisvegi sem auðvelda mun margt, til dæmis skólaakstur og atvinnusókn íbúa í sveitarfélaginu. Í stóra samhenginu hefur þessi framkvæmd mikla þýðingu fyrir Vestfirði alla.“

Þorskafjarðarbrú ásamt þeim framkvæmdum sem henni tengjast mun verða til mikilla bóta fyrir Vestfirðinga sem og aðra landsmenn. Öryggi vegfarenda verður meira og ferðatími styttist, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í ávarpi sínu við opnun brúarinnar.

Eitt skref að framtíðarsýn

„Með styttri ferðatíma munu framkvæmdirnar að vonum styðja við fyrirhugaða framþróun í atvinnulífi, svo sem fiskflutninga, ferðaþjónustu og fleira. Ásamt því bind ég vonir við að þær muni auðvelda ferðalög um Vestfirði og tengja landshlutann betur við landið allt,“ sagði ráðherrann. Í ræðu sinni lagði hann mikla áherslu á lífsgæði fólgin í því að fólk geti búið sér heimili þar sem það kýs og notið öruggra innviða hvar á landinu sem er.

„Mikillar uppbyggingar í samgönguinnviðum er þörf um land allt og verður ráðist í viðamiklar framkvæmdir á grundvelli samgönguáætlunar á komandi árum. Við höfum metnað til þess að Ísland verði í fremstu röð hvað varðar trausta örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Opnun Þorskafjarðarbrúar er eitt skref af mörgum sem fyrirhuguð eru, í átt að þeirri framtíðarsýn.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson