Álft Ófriður vofir yfir álftum verði þingsályktunartillagan samþykkt.
Álft Ófriður vofir yfir álftum verði þingsályktunartillagan samþykkt. — Morgunblaðið/Eggert
Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að veiðar verði leyfðar á álft, en einnig á grágæs, heiðagæs og helsingja, utan hefðbundins veiðitíma. Heimildin verði bundin við landsvæði þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs þessara fugla á tún og kornakra

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að veiðar verði leyfðar á álft, en einnig á grágæs, heiðagæs og helsingja, utan hefðbundins veiðitíma. Heimildin verði bundin við landsvæði þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs þessara fugla á tún og kornakra.

Fimm alþingismenn leggja tillöguna fram og er fyrsti flutningsmaður Þórarinn Ingi Pétursson.

Álft er alfriðuð á Íslandi og hefur svo verið frá árinu 1913, en heimilt er að veiða grágæs og heiðagæs á tímabilinu 20. ágúst til 15. mars, en helsingja 1. september til 15. mars, utan Skaftafellssýslna þar sem veiði er leyfð frá 10. september.

Mælir tillagan fyrir um að veiðar á gæsunum verði leyfðar frá 15. mars til 15. júní, en á álft frá 1. maí til 1. október. Jafnframt er kveðið á um að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra láti gera stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi í samvinnu við Umhverfisstofnun og hagsmunaaðila og geri jafmframt tillögu um heimild til skilyrtra veiða og greini Alþingi frá þeim eigi síðar en 1. desember 2024.

Í greinargerð segir að fuglarnir valdi miklu tjóni á túnum og kornökrum. Því sé þörf á að finna leiðir fyrir bændur til þess að stemma stigu við ágangi álfta og gæsa. Fyrir liggi samantekt umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og Bændasamtakanna um ágang af völdum gæsa og álfta á ræktarlönd og hægt sé að byggja á henni við mat á þörfinni. Jafnframt þurfi að tryggja vernd stofnanna og meta árangur aðgerðanna.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson