Reykholt Miðlægur staður í hinni víðfeðmu Bláskógabyggð.
Reykholt Miðlægur staður í hinni víðfeðmu Bláskógabyggð. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Umferðaröryggi á fjölförnum svæðum á Suðurlandi verður ekki leyst með jarðgöngum. Leggja verður áherslu á aðra þætti svo sem reglulegt viðhald og uppbyggingu á vegakerfinu, fækkun einbreiðra brúa og öruggar leiðir fyrir alla ferðamáta

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Umferðaröryggi á fjölförnum svæðum á Suðurlandi verður ekki leyst með jarðgöngum. Leggja verður áherslu á aðra þætti svo sem reglulegt viðhald og uppbyggingu á vegakerfinu, fækkun einbreiðra brúa og öruggar leiðir fyrir alla ferðamáta. Þetta segir í umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038. Af hálfu sveitarfélagsins er sérstakur þungi settur á kröfur um að viðhaldi stofnvega á Gullna hringnum svonefnda verði vel sinnt, en á þeirri leið innan marka Bláskógabyggðar eru til að mynda Þingvellir, Geysir og Gullfoss.

Við forgangsröðun í samgöngumálum þarf sérstaklega að huga að umferðarálagi og áskorunum sem af því leiðir. Þar koma inn í myndina þarfir íbúa, svo sem vegna atvinnusóknar og skólaaksturs. Einnig að fjöldi sumarhúsa er á svæðinu.

Í nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að Biskupstungnabraut verði færð suður fyrir Geysi og að ný brú verði byggð yfir Tungufljót á árunum 2029-2033. Þessar framkvæmdir vill sveitarstjórn Bláskógabyggð framar í forgangsröð. Bendir þar á að einbreið brúin yfir Tungufljót nærri Geysi sé hin fjölfarnasta slíkra á landinu.

Þegar svo er komið að Gullfossi, lítið eitt austar, tekur Kjalvegur við. Áætlanir gera ráð fyrir frekari uppbyggingu þar á næstu árum, á leið sem tengir saman Biskupstungur og Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu. Að gera eigi bragarbætur á þeim vegi er ánægjulegt, segir í bókun Bláskógabyggðar. sbs@mbl.is