Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Óstjórnin og útþenslan í rekstri borgarsjóðs hefur verið með ólíkindum síðustu árin.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Mikil óreiða ríkir í fjármálastjórn borgarinnar. Borgarsjóður er í raun gjaldþrota og aldrei fyrr í sögu borgarstjórnar hefur fjárhagsstaða borgarinnar verið eins alvarleg og hún er nú. Meirihlutinn reynir með alls kyns blekkingum að sýna aðra stöðu en raunverulega er. Skuldir hrannast upp og engar aðgerðir virðast í gangi til að sporna gegn þeirri óheillaþróun sem nú á sér stað í fjármálum borgarsjóðs. Núverandi meirihluti hefur enga stjórn á þeim nema síður sé og hefur svo verið um langan tíma. Auðvitað sjá flestir – nema meirihluti borgarstjórnar og helstu fylgjendur hans – að í algjört óefni er komið í fjármálum borgarsjóðs.

Óstjórnin föst í sessi

Óstjórnin og útþenslan í rekstri borgarsjóðs hefur verið með ólíkindum síðustu árin. Það kemur að skuldadögum fyrr en síðar og þá mun núverandi borgarstjóri skella skuldinni á verðandi borgarstjóra, oddvita Framsóknarflokksins, sem á næstu mánuðum tekur við versta búi borgarsjóðs fyrr og síðar. Nýr borgarstjóri mun sitja uppi með fráfarandi borgarstjóra í baksætinu. Það er ekki gæfulegt og eykur líkurnar á að ekið verði út í skurð sem ekki verður hægt að komast upp úr. Hvaða hagræðingaraðgerðir sem máli skipta eru í gangi hjá meirihlutanum til að sporna við þessari þróun?

Samgöngukerfið í uppnámi

Haldið er áfram að fjalla um lagningu borgarlínu, sem er mörgum árum á eftir áætlun, en vígja átti fyrsta áfanga í ár. Það tefst um fimm ár samkvæmt nýj-ustu fréttum.

Aðgerðir meirihlutans til að bæta samgöngukerfi borgarinnar hafa nánast engar verið síðasta áratug, en áfram er bifreiðaeigendum í Reykjavík gert sífellt erfiðara fyrir að ferðast um borgina. Svo er það samgöngusáttmálinn sem ekki er hægt að efna og nú er rætt um að uppfæra. Sá sáttmáli er í raun máttfarið plagg í dag.

Áhugavert verður að fylgjast með þeim breytingum sem fylgja komu nýs borgarstjóra. Hann lofar breytingum. Áttar sig greinilega á því að í óefni stefnir. Ljóst er að meirihlutanum mun reynast afar erfitt að efna samstarfssáttmála sinn frá síðasta ári þar sem ekki vantar mörg og metnaðarfull fyrirheit, flest í raun innistæðulaus.

Sem betur fer felst mikill mannauður og hæfni í fjölmennum hópi starfsmanna borgarinnar sem íbúar treysta til góðra verka. Það skiptir miklu máli.

Höfundur er fv. borgarstjóri.