Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Yfirþyrmandi illska hryðjuverkasamtaka Hamas kallaði ómælda þjáningu yfir saklaust fólk í Ísrael og á Gasa og hefur gert marga afhuga stuðningi við Palestínu.

Birgir Þórarinsson

Heimurinn fylgist með hörmungum sem dynja yfir Palestínumenn á Gasa. Hörmungum sem leiðtogar Hamas í Katar, sem þar lifa í vellystingum og öryggi, kölluðu yfir sitt eigið fólk með því að skipuleggja hrottalega hryðjuverkaárás á óbreytta borgara í Ísrael. Heimurinn fylgdist með því hvernig Hamas drap saklaust fólk í Ísrael, um 1.400 manns, fyrir það eitt að vera gyðingar. Saklausir borgarar voru skotnir á færi, brenndir lifandi og limlestir, konur, börn og aldraðir, engum var hlíft, konum nauðgað. Barnshafandi kona var afhöfðuð, barnið skorið úr móðurkviði og drepið. Svívirðileg óhæfuverk sem orð fá ekki lýst, en heimurinn á rétt á að vita um.

Sláturhús dauðans

Ungt fólk á tónlistarhátíð barðist fyrir lífi sínu og leitaði skjóls í gömlum loftvarnabyrgjum. Yfirfull byrgin af ungu og óttaslegnu fólki minntu á yfirfulla lestarvagna gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni á leið í útrýmingarbúðir. Hið örugga skjól loftvarnabyrgja breyttist í sláturhús dauðans þegar Hamas henti handsprengjum inn í byrgin.

Ekkert ríki lætur hryðjuverkaárás á sitt eigið fólk óátalið. Ísrael er þar á meðal. Það er réttur Ísraels að verja sig en hann er ekki takmarkalaus, ekki síst í ljósi mikils fjölda óbreyttra borgara á Gasa. Yfirþyrmandi illska hryðjuverkasamtakanna Hamas hefur kallað ómælda þjáningu yfir saklaust fólk í Ísrael og á Gasa og gert marga afhuga stuðningi við réttmætan málstað Palestínumanna.

Sádiarabísk fréttakona hirtir Hamas-leiðtoga

Sádiarabíska sjónvarpsstöðin Al-Arabiya birti 19. okt. sl. viðtal við leiðtoga Hamas, Khaled Mashal, sem býr í Katar. Fréttamaðurinn sem tók viðtalið er kona að nafni Rasha Nabil. Hún lagði hart að leiðtoganum. Hér á eftir fer stuttur kafli úr viðtalinu: „Hvernig er það, herra Mashal, að lifa í vellystingum í Katar á meðan almennir borgarar á Gasa þjást í miðjum hörmungum sem þú berð ábyrgð á? Ég er á miðjum vígvellinum! Ætlar þú ekki að biðjast afsökunar á að hafa drepið saklausa borgara í Ísrael? Við drepum ekki óbreytta borgara, við miðum á hermenn. Ísrael á að biðjast afsökunar! Gerðir þú þér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta myndi hafa fyrir þitt eigið fólk á Gasa? Þú spurðir það ekki álits, þau vöknuðu upp við þessar hörmungar. Þú spurðir engan álits. Við vissum hverjar afleiðingarnar yrðu. Lífi Palestínumanna verður að fórna til að vinna. Hvernig heldur þú að þið fáið stuðning á Vesturlöndum við málstað Palestínumanna eftir þessa hryðjuverkaárás? Ykkur er núna líkt við ISIS. Er þetta, sem við horfðum upp á í Ísrael, hin nýja aðferðafræði Hamas? Aðgerðirnar voru lögmæt andspyrna. Það varst þú sem skipulagðir þessar árásir og svo ætlast þú til að Arabaþjóðirnar komi ykkur núna til aðstoðar. Þú spurðir okkur aldrei álits. Þú ætlast til að Líbanon komi í lið með ykkur. Hefur fólkið í Líbanon ekki nóg með sína erfiðleika? Þú segir fólkinu á Gasa að vera kyrrt þegar loftárásir vofa yfir. Allah mun vernda það!“

Íbúar á Gasa andvígir stefnu Hamas gagnvart Ísrael

Hrósa ber sádiarabísku fréttakonunni fyrir að gefa leiðtoga Hamas ekkert eftir. Það er þyngra en tárum taki að hryðjuverkasamtök, sem lúta boðvaldi illmenna sem lifa lúxuslífi í Katar, skuli ríkja yfir tveimur milljónum manna á Gasa. Fólki sem þráir aðeins eitt, að fá að lifa mannsæmandi lífi í friði. Hryðjuverkaárásin á Ísrael er ekki í nafni Palestínumanna. Skoðanakönnun á vegum palestínsku hugveitunnar PSR sýndi fyrir hryðjuverkaárásina að meirihluti íbúanna á Gasa er andvígur stefnu Hamas gagnvart Ísrael eða 62%.

Fyrir nokkrum árum starfaði ég hjá Sameinuðu þjóðunum í Mið-Austurlöndum. Á Gasa tók ég eitt sinn eldri Palestínumann tali og spurði hann um ástandið á Gasa. Hann svaraði: Lífið var betra fyrir tíma Hamas.

Höfundur er þingmaður og situr í utanríkismálanefnd Alþingis.

Höf.: Birgir Þórarinsson