Við Hörpu Oddur ásamt móður sinni og systkinum eftir flutning á óperunni Brothers í júní 2018. Faðir Odds tók myndina.
Við Hörpu Oddur ásamt móður sinni og systkinum eftir flutning á óperunni Brothers í júní 2018. Faðir Odds tók myndina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Oddur Arnþór Jónsson fæddist 26. október 1983 í Garðabæ og ólst þar upp. Hann gekk í Garðaskóla, varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands, lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík, lauk B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík…

Oddur Arnþór Jónsson fæddist 26. október 1983 í Garðabæ og ólst þar upp.

Hann gekk í Garðaskóla, varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands, lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík, lauk B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og meistaragráðu í óperusöng við Mozarteum-háskólann í Salzburg. Hann hlaut Lilli Lehmann-viðurkenninguna fyrir framúrskarandi meistarapróf frá Mozarteum Stiftung.

„Ég byrjaði í barnakór hjá Guðfinnu Dóru í Flataskóla. Ég söng síðan ekkert fyrr en í Verzlunarskólanum þegar Hreiðar Ingi Þorsteinsson tónskáld endurvakti skólakórinn og besta vin minn langaði svo mikið í kórinn og hann dró mig með sér í hann. Hreiðar Ingi benti mér svo á fyrsta söngkennarann minn, Ólöfu Kolbrúnu, og ég byrjaði að læra hjá henni í Söngskólanum þegar ég var 19 ára.

Ég átti mér ekkert endilega draum um að verða söngvari, var í Söngskólanum og HR á sama tíma en hætti í viðskiptafræðinni þegar ég komst í Mozarteum-háskólann úti. En ég átti bara rosalega lítið eftir af viðskiptafræðinni, mig minnir tvo áfanga og ritgerðina, svo að ég ákvað að klára það líka þegar ég áttaði mig á að einingarnar væru að fara að fyrnast.“

Oddur hefur búið úti í Salzburg frá því að hann hóf námið þar. „Ég fékk strax mikið að gera í söngnum og hef ekkert litið til baka með það.“

Við Íslensku óperuna hefur Oddur sungið titilhlutverkin í Don Giovanni og í Rakaranum frá Sevilla, Rodrigo í Don Carlo, föðurinn í Hans og Grétu, Ned Keene í Peter Grimes, greifann í Brúðkaupi Fígarós og Douphol barón í La traviata. Meðal annarra óperuhlutverka sem hann hefur sungið eru Wolfram í Tannhäuser og Kurwenal í Tristan og Ísold, og Schaunard í La bohème.

Síðastliðið ár hefur hann sungið barítónhlutverkið í Carmina Burana eftir Carl Orff með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Gunnsteini Ólafssyni, í Mozart Requiem með Mótettukórnum og Bjarna Frímanni Bjarnasyni, Lieder eines fahrenden Gesellen eftir Gustav Mahler í Fílharmóníunni í Berlín, aðalhlutverkið í Brothers eftir Daníel Bjarnason á Copenhagen Opera Festival og Silvio í Pagliacci í Óperuhúsinu í Ulm, Þýskalandi.

Sem ljóðasöngvari hefur hann flutt Das Lied von der Erde eftir Mahler, Vetrarferðina og Schwanengesang á Schubert-hátíðinni í Vilabertran á Spáni og haldið ljóðatónleika á Britten-Pears-hátíðinni og á Oxford Lieder Festival á Englandi. Hann hefur sungið bassahlutverkin í Jólaóratóríunni, H-moll-messunni, Jóhannesar- og Mattheusarpassíunni eftir Bach, Messíasi og Sólómon eftir Händel, Requiem og Krýningarmessunni eftir Mozart og Requiem eftir Faurè og Mysterium eftir Hafliða Hallgrímsson, m.a.

Oddur hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Michaels í Brothers, margverðlaunaðri óperu Daníels Bjarnasonar, á Listahátíð 2018. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir Rodrigo í Don Carlo, sem var frumraun hans í Íslensku óperunni. Hann fékk Schubert-verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríuflytjandinn í Francesc Viñas-keppninnni í Barcelona. Hann sigraði í Brahms-keppninni í Pörtschach í Austurríki og varð þriðji í Schubert-keppninni í Dortmund í Þýskalandi. Hann varð þriðji í Musica Sacra-óratóríukeppninni í Róm og söng í úrslitum Belvedere-keppninnar 2014.

Næstu verkefni Odds hérna heima eru 30 ára afmælistónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Hofi um helgina þar sem fluttur verður Óðurinn til gleðinnar eftir Beethoven og svo Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í janúar.

„Ég er svo heppinn að starfa við helsta áhugamálið mitt og dagarnir fara oftast í að hlusta og stúdera tónlist. Þegar ég er heima hjá mér eyði ég miklum tíma í eldhúsinu og að fylgja börnunum mínum í þeirra áhugamálum. Ég fylgist líka mjög vel með flestu sem gerist hjá Stjörnunni í íþróttum. Systursonur minn, Benedikt Marínó, spilar í meistaraflokki í handbolta og ég fer líka á fótboltaleikina þegar ég er heima á sumrin.“

Fjölskylda

Synir Odds með fyrrverandi eiginkonu sinni, Juliu Pujol, f. 7.9. 1973, píanóleikara, eru Jón Óliver, f. 14.9. 2012, og Finyan Már, f. 3.1. 2015. Þau eru öll búsett í Salzburg.

Alsystkini Odds eru tvíburarnir Herdís Jónsdóttir og Páll Ásgrímur Jónsson, f. 5.3. 1981, búsett í Garðabæ. Systkini Odds sammæðra eru Bjarki Þór Guðmundsson, f. 23.6. 1966, búsettur í Hafnarfirði; Oddný Sif Guðmundsdóttir, f. 31.5. 1970, búsett á Djúpavogi, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 5.5. 1973, búsett á Akureyri.

Foreldrar Odds eru Jón Gunnar Pálsson, f. 3.8. 1949 á Siglufirði, fv. kerfisforritari á Reiknistofu bankanna, og Sigþóra Oddsdóttir, f. 30.7. 1946 í Kjós, garðyrkjufræðingur og starfaði á Gróðrarstöðinni Mörk. Þau búa í Garðabæ.