Háskólapróf Lagt verður til að breyta lágmarkseiningafjöldanum að baki diplómagráðum. Örnám verði auk þess kynnt á háskólastigi.
Háskólapróf Lagt verður til að breyta lágmarkseiningafjöldanum að baki diplómagráðum. Örnám verði auk þess kynnt á háskólastigi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til stendur að endurskoða gildandi viðmið um prófgráður og æðri menntun til að samræma betur íslenskar háskólagráður og evrópsk hæfniviðmið. Í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið lögð fram drög að frumvarpi um lagabreytingar sem þetta varða

Sviðsljós

Ragnhildur Helgadóttir

ragnhildurh@mbl.is

Til stendur að endurskoða gildandi viðmið um prófgráður og æðri menntun til að samræma betur íslenskar háskólagráður og evrópsk hæfniviðmið. Í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið lögð fram drög að frumvarpi um lagabreytingar sem þetta varða.

Með frumvarpinu er áætlað að færa í lög heimild háskóla til að bjóða upp á svokallað örnám til námseininga. Til stendur að hækka lágmarksfjölda eininga að baki diplóma- og viðbótarprófum úr 30 einingum upp í 60.

Möguleikar verða einnig opnaðir á veitingu svokallaðs M.Phil.-prófs á doktorsstigi. Heimilt verður þá í undantekningartilfellum að veita meistarapróf á doktorsstigi hafi nemandi lokið að minnsta kosti helmingi af skipulagðri námsleið til doktorsprófs.

Með frumvarpinu verða reglur um prófgráður og námsframboð háskóla færðar nær þeim sameiginlegu evrópsku gæðaviðmiðum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða. Byggja þau á Bologna-samstarfinu sem myndar Evrópska háskólasvæðið.

Bologna-samstarfið vinnur að því að samræma prófgráður á háskólastigi. Þannig geta nemendur treyst því að nám þeirra gildi alls staðar. Nú er viðmiðið innan hins samevrópska ramma að háskólagráður séu að lágmarki 90 einingar. Þó eru dæmi þess að ríki víki aðeins frá þessum sameiginlegu viðmiðum.

Æskilegar og tímabærar breytingar

Jón Atli Benediktsson rektor HÍ minnist á í skriflegu svari til Morgunblaðsins að nokkur munur sé á reglum um einingafjölda að baki styttri námsleiðum við íslenska háskóla og þeim reglum sem almennt gilda í nágrannalöndunum. „Fyrirhugaðar breytingar á lögum um háskóla og viðmiðum um æðri menntun og prófgráður miða að því að minnka þennan mun og það er vel.“

Jón Atli segir að breytingarnar séu æskilegar og jafnvel tímabærar. „Breytingarnar leggjast almennt nokkuð vel í okkur. Við fögnum viðleitni íslenskra stjórnvalda til að tryggja að háskólanám sem stundað er hér á landi sé alþjóðlega viðurkennt. Æskilegt er að opinber viðmið um æðri menntun og prófgráður hér á landi séu ávallt í sem bestu samræmi við hæfniramma Evrópska háskólasvæðisins,“ segir hann.

Jón Atli tekur þó fram að skýra þurfi betur hvað felist í örnámi. Nú sé unnið að leiðbeiningum um þessa tegund náms á vettvangi Evrópska háskólasvæðisins. Hann segir að vel megi vera að í því felist tækifæri fyrir íslenska háskóla til að þróa sveigjanlegt nám sem sniðið er að fjölbreyttum þörfum vinnumarkaðar og samfélags.

Spurður hvort hann telji breytingarnar vera jákvæða þróun segir Jón Atli: „Ísland er fullgildur þátttakandi í samstarfinu innan Evrópska háskólasvæðisins og við eigum auðvitað að leitast við að uppfylla þá staðla sem mótaðir eru á þeim vettvangi. Þær breytingar sem stjórnvöld hafa nú boðað á lögum um háskóla og viðmiðum um æðri menntun og prófgráður eru því að mörgu leyti jákvætt skref.“

Drög að frumvarpi

Örnám kynnt á háskólastigi

Örnám (e. micro-credentials) er styttra nám sem á að stuðla að sí- og endurmenntun á háskólastigi. Ólíkt diplómanámi mun það ekki hafa neinn lágmarkseiningafjölda. Slíkt nám á að vera leið til að koma til móts við þörf á styttra námsframboði.

Örnám er samkvæmt greinargerð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins sveigjanlegt tæki til að þróa nám svo hægt sé að aðlaga það fjölbreyttum hópi nemenda og námi. Unnið er að viðurkenningarferli örnáms í aðildarríkjum ESB og Evrópska háskólasvæðisins.

Forsenda námsins er að það sé vel tengt gæðaramma háskólanna og til stendur að skírteinisviðauki fylgi því.