Fórn „Ein lykilspurning verksins er hverju persónurnar fórna til að græða,“ segir Una Þorleifsdóttir sem leikstýrir Múttu Courage og börnunum.
Fórn „Ein lykilspurning verksins er hverju persónurnar fórna til að græða,“ segir Una Þorleifsdóttir sem leikstýrir Múttu Courage og börnunum. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er auðvitað margslungið ádeiluverk sem gerist á 12 árum og flakkar á milli fjölmargra landa í Evrópu,“ segir Una Þorleifsdóttir sem leikstýrir Múttu Courage og börnunum eftir Bertolt Brecht og Margarete Steffin sem frumsýnt er á…

VIÐTAL

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta er auðvitað margslungið ádeiluverk sem gerist á 12 árum og flakkar á milli fjölmargra landa í Evrópu,“ segir Una Þorleifsdóttir sem leikstýrir Múttu Courage og börnunum eftir Bertolt Brecht og Margarete Steffin sem frumsýnt er á Stóra sviði Þjóðleikhússins í kvöld í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar. Verkið fjallar um Múttu Courage sem ferðast um í stríðshrjáðri Evrópu með söluvagn sinn. Hún hefur lifibrauð sitt af því að selja hernum varning og einsetur sér að komast af ásamt stálpuðum börnum sínum þremur. Með titilhlutverkið fer Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, en börn hennar leika Hildur Vala Baldursdóttir, Almar Blær Sigurjónsson og Oddur Júlíusson. Í öðrum hlutverkum eru Atli Rafn Sigurðarson, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Guðrún S. Gísladóttir, Hilmar Guðjónsson, Sigurður Sigurjónsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Dramatúrg er Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir, leikmynd hannar Ilmur Stefánsdóttir, búninga Filippía I. Elísdóttir og lýsingu Björn Bergsteinn Guðmundsson, en Valgeir Sigurðsson og Helgi Hrafn Jónsson semja nýja tónlist fyrir uppfærsluna.

Leikhús á að vera skemmtilegt

„Mér fannst áhugaverðast að nálgast verkið á brechtískan hátt og nýta okkur þær aðferðir sem hann er þekktastur fyrir til frásagnar,“ segir Una og bendir á að Brecht hafi fundist mjög mikilvægt að það væri gaman í leikhúsi. „Til að ná því markmiði notaði hann uppbrot á borð við tónlist, sem brýtur upp hina dramatísku frásögn, sögumann og lét leikarana stíga út úr hlutverkum sínum. Mig langaði að nálgast efniviðinn gegnum aðferðir Brechts, en samtímis út frá samtímanum enda var hann að ráðast á leikhús sem var ráðandi á þeim tíma sem hann var uppi sem er allt öðruvísi en leikhúsið sem við erum með í dag,“ segir Una og vísar þar til þess að Brecht hafi verið að skrifa á móti melódramatísku eða yfirtilfinningasömu leikhúsi.

„Þar sem enginn er í rökhugsuninni heldur aðeins í hjartanu og samþykkir þar af leiðandi ríkjandi kerfi og hugmyndir án þess að beita gagnrýninni hugsun. Brecht leit hins vegar á leikhúsið sem samfélagslegt og pólitísk afl. Persónulega finnst mér áhugaverðara þegar tekst að tengja saman hug og hjarta, þar sem fólki er leyft að fara inn í tilfinningar áður en klippt er á hlutina og farið með áhorfendur í aðra átt,“ segir Una og bendir á að almennt séum við hrifin af natúralískum eða raunsæjum leik, sem rekja megi til Staníslavskíjs, þar sem unnið er út frá tilfinningum og sálfræði. „En Brecht hafði engan áhuga á því og taldi að það væri hlutverk leikara að sýna okkur hluti án þess að lifa þá á sviðinu,“ segir Una og tekur fram að uppfærsla hennar á Múttu Courage og börnunum sé „ekki samfelld samsömunarupplifun“. Enda sé markmiðið ekki að „áhorfendur samsami sig ógagnrýnið með persónum verksins“. Rifjar hún upp að Brecht hafi eftir frumuppfærslu verksins verið óánægður með viðtökurnar þar sem honum hafi fundist áhorfendur og gagnrýnendur alltof tilfinningasamir. „En það er snúið að stjórna tilfinningalegum viðbrögðum áhorfenda.“

Verk sem speglar heiminn

Mútta Courage og börnin er fyrsta leikrit Brechts sem Una tekst á við. „Ég hef almennt ekki mikinn áhuga á klassík, þótt það séu til mörg klassísk verk sem mér finnst góð. Mér finnst meira spennandi að fást við verk sem eru sprottin úr samtímanum til að eiga samtal um hluti sem skipta máli hér og nú,“ segir Una og tekur fram að innihaldsins vegna verði Mútta Courage og börnin samtímaverk í hennar huga. „Þetta er verk sem speglar heiminn sem við búum í í dag og textinn er sem endurómur þeirrar umræðu og orðræðu sem við heyrum allt í kringum okkur,“ segir Una og tekur fram að hún sé með listrænu teymi sínu ekki að elta períóðuna, en Brecht lætur verkið gerast á 12 ára tímabili í miðju 30 ára stríðinu sem stóð frá 1618 til 1648.

„Sjónræn umgjörð og búningar uppfærslunnar endurspegla allt sem við tengjum við stríð, allt frá 30 ára stríðinu til samtímans,“ segir Una og nefnir í því samhengi að persónur verksins notist jöfnum höndum við byssustingi, byssur og skóflur. „Enda höfum við komist að því að skóflur eru alveg jafn hættulegar og byssur, því hvað kemur yfirleitt á eftir byssu? Það er skófla. Hugmyndin með leikmyndina er að búa til leikvöll þar sem sagan getur birst og orðið til.

Í verkinu leggur Brecht upp með það að stríð sé bara bissniss þar sem stríðsbröltið eykur hagvöxt. Í verkinu er hann að skoða hverjir það eru sem græða og hverjir það eru sem tapa, því það eru alltaf einhverjir sem tapa,“ segir Una og bendir á að svar Brechts sé að það er alltaf almenningur sem tapar. Rifjar hún upp að Brecht hafi skrifað verkið 1939 sem viðbragð við uppgangi nasismans í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina. „Brecht er í verki sínu að afhjúpa kerfi stríðsins og sýna okkur það fyrir það sem það er. Almennt eru stríð góð fyrir framfarir í tæknimálum, vísindum og læknisfræði. Þannig eru alltaf einhverjir sem græða á stríðum. En á kostnað hvers? Og hvað verður með dyggðirnar, góðmennskuna og hugrekkið? Og hvað er hugrekki í stríði? Og hvað er heiðarleiki? Er það til?“ spyr Una og tekur fram að hjá Brecht séu svörin aldrei einföld, enda tali persónur oft í þversögn við sjálfar sig. „Ein lykilspurning verksins er hverju persónurnar fórna til að græða. Aðalpersóna verksins fórnar til dæmis miklu fyrir peninga.“

Aðspurð um samstarfið í leikhópnum segir Una það hafa verið bæði „frjótt, skapandi og skemmtilegt. Eðli leikhússins er samtal og samvinna. Þótt ég sjái hluti fyrir mér og hafi einhverjar hugmyndir þá eru það ekkert endilega alltaf bestu hugmyndirnar,“ segir Una og tekur fram að á endanum sé það leikarinn sem standi á sviðinu og hann þurfi að hafa trú á því sem hann er að gera og vera samþykkur þeirri túlkunarleið sem farin er til að geta staðið með henni. „Ég hef mikla trú á því að fólki líði vel í vinnunni og að það sé gaman. Ég held að sköpunargleðinni líði best þegar hún er óhult og í öruggu rými. Að mínu mati er nauðsynlegt að brenna fyrir því sem maður er að gera, en á sama tíma verður líka að vera gaman í vinnunni. Það verður að vera rými til þess að allir geti tjáð sig. Í æfingaferlinu höfum við því prófað ólíka hluti og leitað að leiðum.“

Athygli vekur að ný tónlist hefur verið samin fyrir sýninguna. Hún var nýverið gefin út þar sem Helgi Hrafn syngur öll 13 lög sýningarinnar, sem leikararnir syngja á sýningum. „Ef maður ætlar að taka verkið inn í samtímasamtal verður maður líka að vera nútímalegur og besta leiðin til þess er að nota tónlistina. Hljóðheimurinn sem mætir áhorfendum er þannig dagurinn í dag,“ segir Una og tekur fram að með sama hætti hafi sér fundist mikilvægt að fá nýja þýðingu á verkinu. „Fólk getur oft sett tungumálið fyrir sig og fundist það skapa fjarlægð við efniviðinn. Mér finnst mikilvægt að áhorfendur upplifi að samtölin séu ekki of hátíðleg og fjarlæg og því var mikilvægt að nútímavæða tungutakið og gera það aðgengilegt.“