Póstþróunarstig Íslands er í 93. sæti meðal þeirra 172 ríkja sem skýrsla Alþjóðapóstsambandsins (Universal Postal Union, UPU) um stöðu póstinnviða nær til. Þar er þróunarstig póstinnviða á Íslandi sett í flokk fjögur af tíu mögulegum með 27,18 stig sem er lægra en í fyrra

Baksvið

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Póstþróunarstig Íslands er í 93. sæti meðal þeirra 172 ríkja sem skýrsla Alþjóðapóstsambandsins (Universal Postal Union, UPU) um stöðu póstinnviða nær til. Þar er þróunarstig póstinnviða á Íslandi sett í flokk fjögur af tíu mögulegum með 27,18 stig sem er lægra en í fyrra. Í þessum flokki eru þrjú önnur Evrópuríki – þau Albanía, Norður-Makedónía og Lúxemborg – og er Ísland neðst þessara ríkja. Aðeins eitt ríki er neðar en Ísland í fjórða flokki og er það Perú.

Aðeins fimm ríki ná að komast alla leið í flokk tíu og eru það Sviss, Austurríki, Þýskaland, Japan og Frakkland.

Í skýrslunni, sem kom út fyrr í þessum mánuði, er byggt á samþættri vísitölu póstþróunar sem ætlað er að gefa mynd af stöðu póstinnviða á heimsvísu, en UPU var stofnað 1874 í tengslum við gerð fyrsta alþjóðlega samningsins um póstsendingar milli ríkja og er í dag ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Skortur á áreiðanleika

Vísitalan byggist á fjórum þáttum. Fyrsti þátturinn er áreiðanleiki og byggist hann á mati á gæðum þjónustu út frá hraða og fyrirsjáanleika, en stuðst er við rakningu alþjóðlegra póstsendinga. „Tiltölulega hátt stig í þessum flokki táknar framúrskarandi þjónustuáreiðanleika sem ýtir undir traust neytenda. Að draga úr viðskiptakostnaði ýtir undir vöxt rafrænna viðskipta og skapar tækifæri fyrir stafræna hagkerfið,“ segir í skýrslunni.

Hæst hvað þetta varðar skorar Taíland, en það ríki er í sjöunda flokki fyrir þróunarstig póstþjónustu í heild. Í þessum þætti skorar Ísland 8,02 stig af 100 mögulegum og er í 123. sæti. Afríkuríkið Tógó nær hins vegar 12,31 stigi og eyríkið Túvalú nær 13,4.

Annar þáttur vísitölunnar er tenging við umheiminn og eru skoðuð rafræn skilaboð er tengjast alþjóðlegum póstsendingum til að mæla umfang og skilvirkni tengingar ríkis við alþjóðlegt póstkerfi. Há stig í þessum flokki eru sögð merki um öfluga alþjóðlega pósttengingu sem talin er styðja við þróun alþjóðlegra viðskipta lítilla og meðalstóra fyrirtækja.

Á þessu sviði lendir Ísland einnig í 123. sæti með sín 7,27 stig sem er minna en Úganda og Súdan fá. Tekið skal þó fram að í þessu samhengi sem og í fyrsta þætti kann að skipta máli fjöldi sendinga og þar með hafi smæð landsins mikið vægi. Hins vegar er vert að geta þess að Lúxemborg með sína 640 þúsund íbúa skorar meira en tvöfalt hærra en Ísland í báðum þessum þáttum og Malta með 520 þúsund enn hærra.

Verra en á síðasta ári

Staðan er allt önnur í þriðja þætti vísitölunnar en þar lendir Ísland í 21. sæti. Sá þáttur ber heitið mikilvægi (e. relevance) og byggist hann á kortlagningu eftirspurnar eftir ýmsum þjónustuflokkum, allt frá innlendum að alþjóðlegum sendingum og fjármálaþjónustu, auk þéttleika pósthúsa í landinu. „Greindir eru sterkir og veikir punktar í póstviðskiptamódeli lands og gefin stig í samræmi við það. Mikil eftirspurn eftir póstþjónustu, þar með talið afgreiðsluþjónustu, getur auðveldað viðskipti í fjölmörgum geirum og atvinnugreinum,“ segir í skýrslunni.

Að lokum er lagt mat á seiglu póstkerfa og með því er átt við getu til að aðlagast og takast á við efnahagslegar og tæknilegar truflanir. Í skýrslunni segir að 60 stig séu merki um hæfilega aðlögunarhæfni og fær póstkerfi Íslendinga 66,65 stig og lendir í 60. sæti.

„Árið 2022 varð alþjóðleg uppsveifla í getu póstþjónustu: Miðgildi póstþróunarstigs á heimsvísu hækkaði í 31,8, sem er umtalsverð framför frá 30 árið áður. Þessir bættu innviðir gera löndum um allan heim kleift að stuðla að framtíðarhagvexti innanlands og á heimsvísu,“ segir í skýrslu UPU.