Sigríður Kr. Þorgrímsdóttir
Sigríður Kr. Þorgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við viljum geta valið við hvað við störfum og hafa aðgengi að fjölbreyttri þjónustu og afþreyingu.

Sigríður Kr. Þorgrímsdóttir og Hanna Dóra Björnsdóttir

Við nútímafólk viljum valkosti. Við viljum ráða hvar við búum, hvaða nám við sækjum og í hvaða skóla. Við viljum geta valið við hvað við störfum og hafa aðgengi að fjölbreyttri þjónustu og afþreyingu. Já og við viljum hafa raunverulegt frelsi til að geta búið hvar sem er á landinu. Hljómar það ekki vel?

En getur verið að sumt fólk eigi færri kosti, getur verið að einhverjir hrekist að heiman vegna ytri aðstæðna sem þeir ráða litlu um? Hvernig líður heimamönnum í þorpi þar sem atvinnulíf er fábreytt, samgöngur erfiðar, þjónustu áfátt og þó nokkur af húsum í þorpinu eru orðin frístundahús og leigumarkaður enginn? Liggur svarið kannski í því að íbúum sumra byggðarlaga fer fækkandi og meðalaldur þeirra sem eftir sitja hækkandi? Eða er of þetta einhliða mynd?

Mögulega er hægt að skoða búsetumynstrið með öðrum gleraugum, eins og gert er í rannsókninni Byggðafesta og búferlaflutningar á Íslandi sem út kom nýverið. Í henni er að finna áhugaverðar niðurstöður um byggðamynstur og búferlaflutninga allt frá lokum nítjándu aldar fram á okkar daga. Til dæmis um ástæður þess að fólk flytur búferlum en líka hvers vegna það fer ekki. Rannsóknin verður kynnt á byggðaráðstefnu sem hefur yfirskriftina „Búsetufrelsi?“ og verður haldin í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ fimmtudaginn 2. nóvember nk. Í kynningu rannsóknarinnar verður að auki greint frá viðhorfum innflytjenda til búsetu, fjallað um búferlaflutninga og slúður!

Yfirskrift ráðstefnunnar kann að vekja furðu, en hugtakið „búsetufrelsi“ hefur undanfarið heyrst úr herbúðum stjórnmálanna og því tilvalið að grípa það sem leiðarstef fyrir umræðu ráðstefnunnar. Hugtakið verður þar til umfjöllunar og væntum við þess að forvitnir áheyrendur fái skýringar á því. Varpað verður ljósi á ólíkar áskoranir byggðarlaga, hvort fólk megi búa hvar sem er, hvort störf án staðsetningar tryggi búsetufrelsi – eða jafnvel alls ekki. Fjallað verður um fjarnám og jafnrétti til náms og í framhaldi af erindi þar um ræða fulltrúar allra háskóla landsins um málefnið í pallborði. Loks verða til umræðu tengsl búsetufrelsis og hins afskekkta með norrænar rannsóknir í huga og um félagssálfræði jákvæðs byggðabrags. Hvernig samfélag er aðlaðandi?

Þessi upptalning gefur vísbendingu um umræðuefnin á afar spennandi ráðstefnu um byggðamál á vegum Byggðastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykjanesbæjar. Við hvetjum sem flesta til að skrá sig og mæta á staðinn eða vera með í streymi. Byggðamál snerta okkur öll!

Höfundar eru starfsmenn Byggðastofnunar.