Á Skarðsheiði Vilhjálmur Þór á SOTA-tindi TF/SN-004 í ágúst 2017.
Á Skarðsheiði Vilhjálmur Þór á SOTA-tindi TF/SN-004 í ágúst 2017. — Ljósmyndir/Guðmundur Ágústsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Radíótæknifræðingurinn og rafmagnsverkfræðingurinn Vilhjálmur Þór Kjartansson, öðru nafni Villi radíó, sem verður áttræður í desember, hefur gengið á fjöll í áratugi, en í sérstökum tilgangi frá 1. september 2016

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Radíótæknifræðingurinn og rafmagnsverkfræðingurinn Vilhjálmur Þór Kjartansson, öðru nafni Villi radíó, sem verður áttræður í desember, hefur gengið á fjöll í áratugi, en í sérstökum tilgangi frá 1. september 2016. Þá öðlaðist Ísland aðild að Summits on the Air (SOTA) með 910 samþykkta tinda hérlendis og síðan hefur Villi gengið á 100 þeirra fyrstur manna og þar af alla 43 sem tilheyra Suðvesturlandi auk tveggja tinda á Sikiley á Ítalíu. Í þessum ferðum var hann í 1.450 radíósamböndum, langflest á 20 metra stuttbylgju við Evrópu, en einnig meðal annars við Norður-Ameríku og Japan. „Mér rann blóðið til skyldunnar, þegar SOTA hófst á Íslandi,“ segir Villi, sem hafði áður verið á mörgum þeirra fjalla sem SOTA viðurkennir.

„SOTA er samtök radíóamatöra sem vilja sameina fjallgöngur og beranleg fjarskipti,“ útskýrir Villi. „Amatörar eru fólk sem hefur lokið prófi fjarskiptayfirvalda til að öðlast sendiréttindi sín á milli á sameiginlegum tíðnum á heimsvísu.“ Hann leggur áherslu á að amatörradíó sé fyrir alla. „Við höldum námskeið sem fólk, með hvaða bakgrunn sem er, sækir með góðum árangri.“

Með sérsmíðaðan sendi

Fyrir um 60 árum smíðaði Villi fyrst sendi til að hafa með í bakpokanum í gönguferðum, meðal annars á jökla, í starfi Hjálparsveitar skáta í Reykjavík. „Ég hef aldrei verið sambandslaus á fjöllum síðan.“ Sem radíóamatör með kallmerkið TF3DX segist hann alltaf hafa haft unun af radíósamböndum úti á mörkinni. Iðulega hafi hann skriðið í svefnpokann í litlu tjaldi með morslykilinn og spjallað við félaga úti um allan heim. Bylgjulengdir radíóamatöra leyfi beint samband milli stöðva með endurkasti af jónhvolfinu en amatörar noti vissulega líka tal- og stafrænar sendingar. „Ég kýs helst gamalreynda skilvirkni morsins.“

Villi segir að aðild Íslands að SOTA hafi komið á réttum tíma fyrir sig. „Þá hafði ég ekki farið á fjall í þrjú ár út af sliti í hnjám en hugurinn dró mig áfram. Ég þorði ekki að byrja á hærra fjalli en Helgafelli sunnan Hafnarfjarðar og svaf af nóttina í tjaldi uppi á fjallinu. Ferðin gekk vonum framar og smátt og smátt gekk ég úr mér verkina, sem áður gerðu mér lífið leitt. Hnén halda vissulega áfram að slitna en ég finn í mesta lagi fyrir eymslum. Lækningamáttur hreyfingar er hreint út sagt ótrúlegur.“

Nú í ágústlok, sjö árum og 12 kílóum síðar, varð Syðstasúla, hæsti tindur Botnssúlna nærri Þingvöllum, 102. SOTA-tindur Villa að meðtöldum Ítalíutindunum og má sjá myndir og hreyfimynd frá ferðinni á netinu (https://sotl.as/summits/TF/SV-002). Hann segir að hann leggi helst upp sem næst númeruðum vegi en létti stundum undir með göngunni á reiðhjóli eða gönguskíðum.

Guðrún Hannesdóttir, eiginkona Villa og radíóamatör TF3GD, fór með honum á 38 tindanna, en annars fór hann einkum einn eða með Guðmundi Ágústssyni, gömlum félaga úr hjálparsveitinni. „Ég sný við ef ég met framhaldið óráðlegt fyrir einn mann.“