Heræfing „Síberíu-herfylkið“ sést hér við æfingar í nágrenni Kænugarðs, en það er skipað Rússum sem vilja berjast gegn innrás samlanda sinna.
Heræfing „Síberíu-herfylkið“ sést hér við æfingar í nágrenni Kænugarðs, en það er skipað Rússum sem vilja berjast gegn innrás samlanda sinna. — AFP/Genya Savilov
Rússnesk drónaárás olli skemmdum á byggingum við Khmelnitskí-kjarnorkuverið í vesturhluta Úkraínu í gærmorgun. Sendu Rússar ellefu dróna að nágrenni versins, og sagðist flugher Úkraínu hafa náð að skjóta þá alla niður, en brak úr drónunum náði samt sem áður að valda skaða

Rússnesk drónaárás olli skemmdum á byggingum við Khmelnitskí-kjarnorkuverið í vesturhluta Úkraínu í gærmorgun. Sendu Rússar ellefu dróna að nágrenni versins, og sagðist flugher Úkraínu hafa náð að skjóta þá alla niður, en brak úr drónunum náði samt sem áður að valda skaða.

Orkumálaráðuneyti Úkraínu sagði að rúður hefðu brotnað í skrifstofu- og rannsóknarbyggingum við verið, auk þess sem raflínur skemmdust og ollu rafmagnsleysi í tveimur nærliggjandi bæjum.

Rússar gerðu einnig drónaárás á höfuðborgina Kænugarð og beittu þeir þar nýrri tegund sjálfseyðingardróna, Italmas, sem sögð er léttari og langdrægari en Shahed-drónarnir írönsku sem Rússar hafa helst treyst á til þessa. Þá er erfiðara fyrir loftvarnarkerfi að finna og eyða Italmas-drónunum.

Harðir bardagar við fljótið

Breska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að átökin á austurbakka Dníprófljótsins í Kerson-héraði hefðu harðnað síðustu vikuna, en Úkraínumenn reyna nú að tryggja sér þar fótfestu. Kerson-hérað liggur að Krímskaga, en eitt helsta markmið Úkraínumanna er að ná völdum á honum aftur.

Sagði ráðuneytið að lyktir þeirrar orrustu sem nú stæði yfir um bakka Dníprófljótsins myndu líklega ráðast af því hvor aðilinn gæti betur beitt stórskotaliði sínu á nákvæman hátt. Sagði ráðuneytið að margt benti til þess að Rússar héldu úti miklu stórskotaliði í nágrenninu, en Rússar hafa sent hluta af því liði sem varði austurbakkann til að verjast sókn Úkraínumanna í Saporísja-héraði.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lýsti því yfir í gær að Úkraínuher myndi áfram þrýsta á Rússa og yfirráð þeirra á Krímskaga. Selenskí ávarpaði þá ráðstefnu um málefni Krím, og sagði að „tálsýnin“ um yfirráð Rússa yfir skaganum væri nú horfin, og benti m.a. á að Svartahafsfloti Rússa væri nú að draga sig frá Krím, sem væri sögulegt afrek fyrir Úkraínumenn.

Sagði Selenskí að Úkraínumenn hefðu ekki enn fullt „skotvald“ (e. fire control) yfir Krímskaga og hafsvæðinu í kringum hann, en að það myndi gerast fyrr eða síðar. „Þetta er tímaspursmál,“ sagði Selenskí.