Orka Diljá er mikill orkubolti og segir hún það skemmtilegasta sem hún geri að vera uppi á sviði.
Orka Diljá er mikill orkubolti og segir hún það skemmtilegasta sem hún geri að vera uppi á sviði. — Ljósmynd/Helgi Ómarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngkonunni Diljá Pétursdóttur tókst að slaka vel á í sumar eftir viðburðaríka vormánuði en hún eyddi hluta júlímánaðar í Portúgal þar sem hún drakk nóg af sangríu. Eins og flestir Íslendingar vita tók hún þátt fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Liverpool í maí

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Söngkonunni Diljá Pétursdóttur tókst að slaka vel á í sumar eftir viðburðaríka vormánuði en hún eyddi hluta júlímánaðar í Portúgal þar sem hún drakk nóg af sangríu. Eins og flestir Íslendingar vita tók hún þátt fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Liverpool í maí. Hún segist bíða enn eftir spennufallinu vegna ævintýrsins og útilokar ekki að taka aftur þátt í keppninni síðar.

„Ég veit ekki hvort ég myndi fara aftur en ég vil ekki útiloka neitt. Það yrði ekki strax, nema ég myndi ná að töfra fram besta lag í heimi.“

Nú er raunveruleikinn tekinn við og nóg um að vera hjá Diljá. Á morgun mun hún gefa út lagið Say My Name sem hún segir vera orkumikið.

„Þegar við gerðum lagið Power þá var kominn stíll sem ég fann mig vel í. Þetta er kannski ekki ólíkur stíll en auðvitað betur þróað. Say My Name kom rosalega hratt. Við fundum strax að þetta var rétt. Hljómurinn sem við vildum kom strax svo þetta lag kom þægilega til okkar. Við Pálmi Ragnar Ásgeirsson sömdum þetta saman. Þetta er reyndar þriðja lagið sem ég skrifa sem heitir Say My Name,“ segir Diljá hlæjandi og veltir fyrir sér hvort það sé uppáhaldssetning hennar. Nýja lagið segir hún vera mjög persónulegt. „Þetta er rómantískur texti. Ég er búin að vera með rómantískan haus upp á síðkastið og textinn kom auðveldlega til mín.“

Í tíu mínútna áfalli

Diljá er ein söngkvennanna sem taka þátt í heiðurstónleikum Tinu Turner sem haldnir verða í Eldborg 11. nóvember næstkomandi. Þar kemur hún fram ásamt Jóhönnu Guðrúnu, Andreu Gylfadóttur, Elísabetu Ormslev, Stefaníu Svavarsdóttur og Siggu Beinteins. Hún segir þetta vera draum söngvarans og hún sé gríðarlega þakklát fyrir að hafa verið boðið að vera með.

„Ég er svo stolt af því að vera í þessu. Ég held að ég hafi farið í svona tíu mínútna áfall eftir að ég frétti hverjar yrðu með mér í þessu,“ segir Diljá en Jóhanna Guðrún var mikið átrúnaðargoð hennar þegar hún var lítil stelpa.

„Jóhanna kenndi mér að syngja þegar ég var krakki. Hún er æskustjarnan mín.“ Diljá mun meðal annars syngja dúett með Jóhönnu á tónleikunum sem hún segir vera stóra stund fyrir sig.

„Mig langar að gera sem mest af þessu, það er algjörlega stefnan,“ segir Diljá og bætir við að í framtíðinni langi hana í leikaranám og að taka þátt í fleiri sýningum.

„Ég finn líka að ég er góð í þessu og er með mjög mikið sjálfstraust uppi á sviði. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri.“

Fimm lög í lífi Diljár

Diljá deildi fimm lögum með blaðamanni sem hafa haft áhrif á hana á lífsleiðinni.