Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Konur þurfa ekki að sanna neitt. Þær eru mættar til leiks fyrir löngu og búnar tikka í öll boxin; berjast fyrir kosningarétti, ná sér í réttu menntunina og háskólagráðurnar, taka slaginn fyrir launajafnrétti og eðlilegum framgangi í vinnunni; sækja…

Konur þurfa ekki að sanna neitt. Þær eru mættar til leiks fyrir löngu og búnar tikka í öll boxin; berjast fyrir kosningarétti, ná sér í réttu menntunina og háskólagráðurnar, taka slaginn fyrir launajafnrétti og eðlilegum framgangi í vinnunni; sækja um toppstöðurnar og hafa fyrir því að kæra þegar vanhæfir karlar voru teknir fram fyrir þær. Á Íslandi bera konur uppi velferðarþjónustuna og menntakerfið. Án framlags þeirra á vinnumarkaði mundi samfélagið hrynja á innan við viku. Samt búa konur enn við kerfislægt misrétti, fá lægra kaup þannig að ævitekjur þeirra eru að meðaltali 20% lægri en ævitekjur karla.

Konurnar hafa líka opnað öll óþægilegu málin sem lágu öldum saman í þagnargildi: sifjaspell, nauðganir og heimilisofbeldi. Konur hafa alla tíð verið í forystu í barnavernd. Þær gengu í lið með baráttu hinsegin fólks fyrir réttindum sínum áður en karlar treystu sér almennt til þess.

Konur eru almennt sýnilegar í hinu opinbera rými en fá enn ekki það pláss sem þær eiga sama rétt á og karlar, meðal annars í fjölmiðlum og viðskiptalífinu. Enn má finna vel fyrir feðraveldinu á ólíklegustu stöðum. Það virðist til dæmis vera í fullu fjöri innan íþróttahreyfingarinnar.

Nýjustu tölur um hlutdeild karla í heimilisstörfum sýna óboðlega stöðu alveg sérstaklega í gagnkynhneigðum samböndum. Konur standa allar vaktir alltaf. Þær bera hugrænu byrðina af heimilisskipulaginu, minnislistunum og yfirsýn yfir flóknar stundaskrár barnanna. Körlunum finnst þeir sinna þessu giska vel en niðurstöður rannsókna sýna annan veruleika: 60% kvenna sjá um eldamennskuna og skúra gólfin. 75% kvenna sjá um þvottinn og tiltektina á heimilinu.

Fræðikonurnar Annadís Greta Rúdólfsdóttir og Auður Magndís Auðardóttir hafa rannsakað líðan mæðra í samfélaginu. Niðurstöður þeirra eru sláandi. Konur finna til samviskubits og skammar yfir því að sinna börnum og ástvinum ekki nógu vel. Þær hafa líka áhyggjur fyrir hönd maka sinna! Annadís og Auður hafa nefnt þetta fyrirbæri mammviskubit og mömmuskömm. Samt eru mæður alltaf að og rannsóknir eins og sú sem vitnað var til hér að ofan sýna að álagið á þeim er yfirgengilegt.

Konur eru sem sagt með hausinn fullan af skipulagi og minnislistum. Karlarnir, sem telja sig í góðum málum, eru að mestu leyti úti á túni en ekki inni að skúra gólfin. Svo virðist sem ýmsir telji konur betri uppalendur, þeim sé eðlislægt að þrífa betur, kaupa jólagjafir og barnaföt, skipuleggja sumarfrí. Karlar geta þetta allt. Þeir þurfa bara að gera það. Og konur verða að henda nagandi mammvisktubitinu á haugana.

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands.

Höf.: Þórunn Sveinbjarnardóttir