Eldskírn Halldór stýrir sínum fyrsta leik sem þjálfari Breiðabliks eftir að hafa tekið við stöðunni af forvera sínum, Óskari Hrafni Þorvaldssyni.
Eldskírn Halldór stýrir sínum fyrsta leik sem þjálfari Breiðabliks eftir að hafa tekið við stöðunni af forvera sínum, Óskari Hrafni Þorvaldssyni. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta leggst mjög vel í okkur. Þetta er auðvitað risaverkefni á móti virkilega góðu liði, stórliði í Evrópu,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið

Sambandsdeildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Þetta leggst mjög vel í okkur. Þetta er auðvitað risaverkefni á móti virkilega góðu liði, stórliði í Evrópu,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Í dag heimsækir Breiðablik Gent til samnefndrar borgar í Belgíu í 3. umferð B-riðils Sambandsdeildar Evrópu, í fyrsta leik Halldórs við stjórnvölinn eftir að hann tók við starfinu af Óskari Hrafni Þorvaldssyni fyrr í mánuðinum.

„Það er góður andi í hópnum og mikill einhugur um það að eiga góða frammistöðu og reyna allt sem við getum til þess að ná góðum úrslitum, bara eins og við höfum reynt í þessum leikjum hingað til,“ hélt Halldór áfram.

Breiðablik hefur tapað báðum leikjum sínum í Sambandsdeildinni til þessa með einu marki; 3:2 á móti Maccabi Tel Aviv ytra og 0:1 á móti Zorya Luhansk á Laugardalsvelli. Keppni í Bestu deildinni lauk fyrir 18 dögum og hafa Blikar því ekki spilað keppnisleik í að verða þrjár vikur.

Mikilvægur leikur að fá

Því lék blaðamanni forvitni á að vita hvernig undirbúningur fyrir leik dagsins hefði gengið.

„Bara nokkuð vel. Við tókum smá pásu, einhverja örfáa daga, eftir að deildin kláraðist. Við höfum náð einum leik, æfingaleik á móti Rangers B, sem var á sunnudaginn,“ sagði hann.

Þeim leik lauk með 3:2-sigri Breiðabliks. „Það var held ég mjög mikilvægt fyrir okkur að fá þann leik, bara upp á að koma mönnum aðeins upp á tærnar og halda leikforminu. Það var góður og stór hluti af þessum undirbúningi,“ bætti Halldór við.

Duttu út gegn meisturunum

Spurður hvað bæri að varast hjá Gent sagði hann:

„Þetta er risalið. Þeir fóru langt í þessari keppni í fyrra. Þeir fóru í átta liða úrslit og duttu út á móti West Ham, sem vann svo keppnina. Þeir eru bara hættulegir á flestum sviðum á vellinum. Við erum auðvitað búnir að skoða þá og sjá bæði styrkleika og veikleika.

Við þurfum að varast það að þeir sækja á mörgum mönnum. Þeir spila með þriggja miðvarða kerfi þar sem þeir setja vængbakverðina sína mjög hátt upp. Þeir eru með tvo framherja og ofhlaða svæðin ofarlega á vellinum.

Þeir eru bæði með góða framherja og flinka og fljóta menn þannig að við þurfum að gera ráðstafanir varðandi það hvernig við ætlum aðeins að hægja á þeim.“

Liggjum ekki bara í vörn

Ljóst er að verkefni dagsins er ærið en það breytir því ekki að Blikar hyggjast freista þess að fá eitthvað út úr leiknum. Hvernig ráðgerir liðið að fara að því?

„Við þurfum að reyna að halda í okkar gildi eins og við getum. Við þurfum að reyna að finna augnablik í leiknum þar sem við getum pressað þá, en svo þurfum við líka að geta farið aðeins til baka, setið örlítið dýpra til þess að verja markið okkar.

Það er bara eðlilegt í svona leik. Menn þurfa einhvern veginn að finna jafnvægi þarna á milli. Svo sóknarlega, af því að þeir fara mjög hátt og pressa mjög hátt á mörgum mönnum, þá skapast svæði á vellinum sem hægt er að spila í.

Við þurfum að þora að halda í boltann þegar við erum með hann svo við liggjum ekki í vörn allan leikinn. Það er gríðarlega mikilvægt,“ útskýrði Halldór.

Flestir í fínu standi

Eitthvað er um meiðsli hjá Breiðabliki en þó sagði hann stöðuna á leikmannahópnum nokkuð góða.

„Staðan er ágæt. Kristófer Ingi [Kristinsson] og Eyþór [Aron] Wöhler eru báðir búnir að vera meiddir og eru rétt að byrja að hreyfa sig.

Kristinn Steindórsson fór meiddur út af í fyrri hálfleik á móti Rangers og er spurningarmerki. Patrik [Johannesen] er auðvitað frá ennþá en aðrir eru bara í fínu standi,“ sagði Halldór að lokum.