Gull Á sýningunni eru verk gerð með gullspreyi á svartan flöt og mynda orðið gull á allnokkrum tungumálum.
Gull Á sýningunni eru verk gerð með gullspreyi á svartan flöt og mynda orðið gull á allnokkrum tungumálum. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rendur og stjörnur er yfirskrift sýningar Hlyns Hallssonar í Listamenn Gallerí á Skúlagötu. Verkin eru ný, spreyjaðir textar og önnur verk. Þetta er 73. einkasýning Hlyns sem hefur verið starfandi myndlistarmaður í rúmlega 30 ár

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Rendur og stjörnur er yfirskrift sýningar Hlyns Hallssonar í Listamenn Gallerí á Skúlagötu. Verkin eru ný, spreyjaðir textar og önnur verk. Þetta er 73. einkasýning Hlyns sem hefur verið starfandi myndlistarmaður í rúmlega 30 ár.

„Ég sýni textaverk og stjörnur og línur. Verkin eru ný og nýleg, öll nema þrjú frá þessu ári. Sýningin heitir Rendur og stjörnur, sem er viðsnúningur á Stars and Stripes, og vísar í hið mikla vald Bandaríkjanna sem er yfir og allt í kring, eins og við upplifum nú,“ segir Hlynur. „Ég sýni meðal annars verk sem eru spreyjaðar stjörnur og spreyjaðar línur. Verkin virðast nokkuð blóðug og ógnvekjandi af því að rautt spreyið lekur niður. Það eru stjörnur og rendur í þjóðfánum og alls konar stjörnur eru til, eins og kvikmyndastjörnur, stjörnur í gagnrýni eða hótel með fimm stjörnur og svo framvegis.“

Sería á sýningunni nefnist „Gull“, og verkin eru gerð með gullspreyi á svartan flöt og mynda orðið gull á allnokkrum tungumálum. „Ég hef oft unnið á þennan hátt, reyndar oft á þremur tungumálum: íslensku, þýsku og ensku. Nú nota ég mun fleiri tungumál, til dæmis arabísku, hebresku og kínversku. Þegar maður er kominn með orðið gull á svo mörgum tungumálum þá er um leið verið að vísa í alþjóðapólitíkina þar sem bandalög eru mynduð og í dag snúast þau meira um olíu, svartagull, en raunverulegt gull. Á stríðstímum er svo ekki hægt að treysta á prentaða seðla eða tölur í bókhaldi og þá er það gullið sem gildir.“

Er hann að tengja gull við græðgi? „Græðgi er ein túlkun. Gull er eitt af einkennum hins gamla kapítalisma og svartagull ógnar umhverfinu og loftslaginu.“

Hlynur leggur áherslu á að öllum sé frjálst að túlka verkin eftir eigin höfði. „Maður hefur brennt sig á því að aðrir hafa lesið allt annað út úr verkunum en þá merkingu sem maður var að reyna að koma til skila. Það er í góðu lagi. Þegar maður er búinn að láta verk frá sér þá taka aðrir við og túlka þau á sinn hátt. Síðan er hægt að ræða túlkanir fram og aftur. Ég held að eitt af því áhugaverða í listinni sé að hver og einn kemur að listaverki með sinn bakgrunn, sínar upplýsingar og upplifanir og þær geta verið öðruvísi í dag en þær voru í gær.“

Hlynur hefur frá árinu 2014 verið safnstjóri Listasafnsins á Akureyri. Hann er spurður hvort það starf hafi ekki á vissan hátt staðið í vegi fyrir því að hann gæti einbeitt sér að eigin myndlist. „Þegar ég tók við starfi safnstjóra þá vissi ég að ég myndi ekki gera myndlist á fullu en ef maður hefur sköpunarþörf þá finnur maður alltaf tíma. Tímabili mínu sem safnstjóri lýkur næsta sumar. Þá þarf ég að koma mér aftur í gírinn til að takast á við harkið. Þessi sýning er smá upphitun fyrir það. Það brennur á mér að sinna myndlistinni aftur.“

Sýning Hlyns í Listamenn Gallerí stendur til laugardagsins 4. nóvember. Þess má geta að sjá má tvö verka Hlyns, „Ríkisstjórnir í mörgum löndum“ og „Sjónvarpsávarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, 6.10.2008“, á sýningunni Kviksjá í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.