Laugardalsvöllur Akureyringurinn Sandra María Jessen, sóknarmaður Þórs/KA, á landsliðsæfingu í gær. Hún gæti skipt um félag á næstunni.
Laugardalsvöllur Akureyringurinn Sandra María Jessen, sóknarmaður Þórs/KA, á landsliðsæfingu í gær. Hún gæti skipt um félag á næstunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sandra María Jessen, landsliðskona í fótbolta, er opin fyrir því að skipta um félag fyrir næsta tímabil, en hún hefur síðustu tvö tímabil leikið með Þór/KA á heimaslóðum sínum á Akureyri. Sóknarkonan hefur aldrei leikið fyrir annað félag á Íslandi,…

Sandra María Jessen, landsliðskona í fótbolta, er opin fyrir því að skipta um félag fyrir næsta tímabil, en hún hefur síðustu tvö tímabil leikið með Þór/KA á heimaslóðum sínum á Akureyri.

Sóknarkonan hefur aldrei leikið fyrir annað félag á Íslandi, en lék með Leverkusen í Þýskalandi fyrst 2016 og svo aftur frá 2019 til 2021. Þess á milli lék hún með Slavia Prag í Tékklandi árið 2018.

„Ég held öllu opnu og ég skoða allt sem er í boði. Mér líður rosalega vel á Akureyri, bæði þegar kemur að fótboltanum og fjölskyldunni. Ég er með kærasta og barn sem eru líka inni í myndinni þegar ég ákveð hvar ég ætla að spila, sagði hún í samtali við Morgunblaðið.

Hún er opin fyrir tilboðum frá öðrum félögum á Íslandi, en útilokar ekki að leika erlendis á nýjan leik. Sandra hefur leikið afar vel síðan hún kom aftur heim og unnið sér inn sæti í landsliðinu á nýjan leik.

„Ef ég er alveg heiðarleg þá skoða ég öll tilboð og það sem kemur á borðið. Ég velti svo fyrir mér kostum og göllum hvers tilboðs. Það er mikið sem ég þarf að skoða áður en ég tek þessa ákvörðun. Auðvitað væri maður til í að geta verið eigingjarn og hugsa bara um sig sjálfan og fótboltaferilinn, en heildarmyndin er stærri hjá mér.“