Sundahöfn Metfjöldi farþegaskipa kom til Reykjavíkur á þessu sumri.
Sundahöfn Metfjöldi farþegaskipa kom til Reykjavíkur á þessu sumri. — Morgunblaðið/sisi
Nýlokið er vertíð skemmtiferðaskipa/farþegaskipa þetta árið. Og enn var nýtt met slegið hjá Faxaflóahöfnum. Skipakomur til Reykjavíkur voru fleiri en nokkru sinni áður eða 261 og farþegafjöldinn fór í fyrsta skipti yfir 300 þúsund

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nýlokið er vertíð skemmtiferðaskipa/farþegaskipa þetta árið. Og enn var nýtt met slegið hjá Faxaflóahöfnum. Skipakomur til Reykjavíkur voru fleiri en nokkru sinni áður eða 261 og farþegafjöldinn fór í fyrsta skipti yfir 300 þúsund.

Af þessum fjölda voru 148.615 skiptifarþegar. Þeir koma eða fara með flugvélum í gegnum Keflavíkurflugvöll. Farþegarnir eru tékkaðir inn í skipin eða út úr þeim í Sundahöfn eða á Miðbakka í Gömlu höfninni. Mikil öryggisgæsla er í skemmtiferðaskipum og engum hleypt um borð nema hafa farið í gegnum viðamikla öryggisskoðun. Á háannatíma fara þúsundir farþega dag hvern um hafnarsvæðið.

Það sem skýrir þessa miklu aukningu í farþegaskiptum er að stærri skipaútgerðir eins og Norwegian ­Cruise Lines, Royal Caribbean og Holland America Line eru að nýta sér staðsetningu Íslands og geysiöflugar flugsamgöngur til Bandaríkjanna til að láta sína farþega annaðhvort hefja eða ljúka siglingu sinni hér í Reykjavík,“ segir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Flugfélögin njóta síðan góðs af þessu fyrirkomulagi. Þessi mikli fjöldi skiptifarþega myndi fylla 850 farþegaflugvélar.

Næsta sumar, 2024, gæti enn eitt metið fallið. Að sögn Sigurðar er nú þegar búið að bóka 263 skipakomur. Áætlað er að með þeim komi 308 þúsund farþegar, þar af 150 þúsund skiptifarþegar. Fyrsta skipið er væntanlegt 21. mars.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson