Framtíðarhorfur Snorre Greil segir nýja stafræna lausn styðja Landhelgisgæslu Íslands við að sinna lögbundnum verkefnum sínum.
Framtíðarhorfur Snorre Greil segir nýja stafræna lausn styðja Landhelgisgæslu Íslands við að sinna lögbundnum verkefnum sínum. — Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Nýlega fóru fram prófanir á nýju kerfi til að auka öryggi sjófarenda um borð í varðskipinu Þór. Um er að ræða nýsköpunarverkefni sem gengur undir heitinu AI-ARC og hefur Landhelgisgæslan tekið þátt í verkefninu undanfarin tvö ár ásamt yfir 20 samstarfsaðilum í tólf Evrópuríkjum

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Nýlega fóru fram prófanir á nýju kerfi til að auka öryggi sjófarenda um borð í varðskipinu Þór. Um er að ræða nýsköpunarverkefni sem gengur undir heitinu AI-ARC og hefur Landhelgisgæslan tekið þátt í verkefninu undanfarin tvö ár ásamt yfir 20 samstarfsaðilum í tólf Evrópuríkjum.

Fulltrúar samstarfsaðilanna voru hér á landi í síðustu viku í tilefni af prófunum á kerfinu sem ætlað er að bæta upplýsingaflæði. „Prófanirnar gengu vonum framar og lausnin lofar svo sannarlega góðu,“ segir Snorre Greil, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni og sérfræðingur á aðgerðasviði.

„AI-ARC-lausnin samanstendur af ýmsum stafrænum þjónustum og er frekar talað um umhverfi en kerfi, en lausnin miðar að því að auka sjálfvirkni við eftirlit, löggæslu, leit og björgun á norðurslóðum þar sem gervigreind er nýtt. Tilgangur verkefnisins er að útbúa nýstárlegt, öflugt, skilvirkt og notendavænt upplýsingaumhverfi þangað sem unnt er að deila gögnum og upplýsingum um skipaumferð og annað sem sjónum tengist,“ útskýrir Snorre. Hann segir þær stafrænu þjónustur sem mynda umrætt upplýsingaumhverfi síðan sjá um að greina gögnin. „Sem dæmi, þá geta þær greint ísjaka út frá gervitunglamyndum og ef skip nálgast er hlutaðeigandi aðilum, sem jafnframt eru notendur umhverfisins, gert viðvart. Í ár hefur það gerst tvívegis að skip hafi siglt á ísjaka, suður af Grænlandi og í Grænlandssundi. Þjónustunni er ætlað að draga úr líkum á óhöppum sem þessum og auka öryggi sjófarenda.“

Snorre segir lausnina einnig auðvelda öll samskipti milli björgunarmiðstöðvar og sjófarenda. „Sem dæmi væri unnt að deila leitarsvæðum og leitarferlum myndrænt milli björgunarmiðstöðvar og eininga, t.d. fiskiskipa eða flutningaskipa, sem kæmu til aðstoðar við leit og björgun.“

Gervigreind og greining

Spurður hvaðan upplýsingarnar koma sem AI-ARC styðst við segir Snorre að þar sé m.a. stuðst við upplýsingar úr sjálfvirku auðkenniskerfi skipa, en það segir til um skipstegund, staðsetningu, hraða og stefnu, auk upplýsinga um hvort skip sé á siglingu, við akkeri, eða ekki undir stjórn. Við bætast upplýsingar úr grevihnattamyndum eins og skip og hafís. „Einnig voru sett inn dæmi um mismunandi svæði sem kemur að gagni að vita um á sjó svo sem íslenska leitar- og björgunarsvæðið, æfingarskotsvæði fyrir herskip, fiskveiðilokanir og fiskeldissvæði. Til að mynda gætu skip sett inn veðurathuganir, upplýsingar um hafís og bætt við myndum til að lýsa aðstæðum eða ástandi.“

Með því að nýta gervigreind og greiningu stórgagna og vélnáms verður hægt að greina hegðun skipa. „Til að mynda er þjónusta sem getur spáð um siglingaleið skips miðað við söguleg gögn um þetta einstaka skip eða skipstegund. Önnur þjónusta varar við frávikum, til dæmis ef skip fer út fyrir áætlaða siglingaleið. Sýnt var fram á þessa virkni í aðskildum siglingaleiðum fyrir Reykjanesið en á þessum stað strandaði flutningaskipið Wilson Muga árið 2006. Svo má nefna þjónustur sem láta vita ef skip stoppar óvænt, ef það sendir frá sér að það sé ekki við stjórn eða í neyð, eða ef skip hverfa úr tilkynningaskyldukerfi.“

Eftirlit á sjó gagnast samfélaginu sem heild, að sögn Snorre sem bendir á að lögbundin verkefni Gæslunnar séu m.a. að sinna öryggis- og löggæslu á hafinu, mengunareftirliti, fiskveiðieftirliti, leit og björgun og eftirliti með lögsögumörkum á hafinu. „Stafrænu þjónusturnar munu án efa styðja Landhelgisgæsluna við að sinna lögbundnum skyldum sínum í framtíðinni.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson