Framari Knattspyrnuþjálfarinn Rúnar Kristinsson stýrir karlaliði Fram næstu þrjú árin en liðið hafnaði í 10. sæti Bestu deildarinnar á tímabilinu.
Framari Knattspyrnuþjálfarinn Rúnar Kristinsson stýrir karlaliði Fram næstu þrjú árin en liðið hafnaði í 10. sæti Bestu deildarinnar á tímabilinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Ég er ánægður með að vera búinn að klára þetta,“ sagði Rúnar Kristinsson, nýráðinn þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi Framara í íþróttamiðstöðinni í Úlfarsárdal í gær

Fótbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Ég er ánægður með að vera búinn að klára þetta,“ sagði Rúnar Kristinsson, nýráðinn þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi Framara í íþróttamiðstöðinni í Úlfarsárdal í gær.

Rúnar, sem er 54 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við Fram en hann lét af störfum sem þjálfari KR eftir tímabilið.

Rúnar hafði stýrt KR-ingum samfleytt frá árinu 2017 og gerði hann liðið að Íslandsmeisturum árið 2019 en undir hans stjórn hafnaði KR í sjötta sæti Bestu deildarinnar.

Hann hefur einnig stýrt Lilleström í Noregi og Lokeren í Belgíu á þjálfaraferlinum og þá stýrði hann KR einnig frá 2010 til 2014 og gerði liðið þá tvívegis að Íslandsmeisturum og þrívegis að bikarmeisturum.

„Ég er búinn að vera í viðræðum við þá undanfarna daga og við höfum átt mjög hollt og gott samtal. Ég tek formlega til starfa um mánaðamótin og þá er fyrsta mál á dagskrá að byrja að heyra í leikmönnum, skoða hvernig framtíðin liggur og skipuleggja æfingar fyrir veturinn,“ sagði Rúnar sem lék 104 A-landsleiki fyrir Ísland á árunum 1987 til 2004 og er næstleikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi á eftir Birki Bjarnasyni.

Fékk nokkur símtöl

Fjölmörg félög settu sig í samband við Rúnar þegar ljóst var að hann yrði ekki áfram í herbúðum KR-inga á næstu leiktíð.

„Eftir að tímabilinu lauk fékk ég nokkuð mörg símtöl en ég vildi fá að anda aðeins og tók mér því smá frí frá öllu. Ég fór svo í tvö viðtöl, við Fram annars vegar og svo hjá öðru félagi sem er ekki í sömu deild og Fram. Ég ætla ekki að tjá mig um það hvaða lið það var en verkefnið var bæði skemmtilegt og krefjandi.

Það sem gerði hins vegar útslagið var það að ég vil þjálfa í efstu deild. Aðstaðan hérna er frábær, leikmannahópurinn er góður og félagið er í nýju hverfi sem er í mikilli uppbyggingu. Fólkinu hérna er að fjölga og hverfið er að styrkjast samhliða því. Það eru því mikil tækifæri hérna í framtíðinni að mínu mati.“

Raunhæf markmið mikilvæg

Framarar höfnuðu í 10. sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð eftir að hafa verið nýliðar í fyrra en Jón Sveinsson lét af störfum sem þjálfari liðsins í lok júlí og stýrði Ragnar Sigurðsson liðinu út keppnistímabilið.

„Jón gerði frábæra hluti með Fram, kom liðinu upp um deild eftir að það hafði verið lengi í 1. deildinni. Hann gerði mjög góða hluti í fyrra en það hallaði aðeins undan fæti hjá þeim í ár og þá tók Ragnar við. Þetta er hluti af því að koma liðum upp um deild og fyrstu tvö árin í efstu deild eru oft þau erfiðustu. Núna snýst þetta um það að gera liðið að stöðugu efstudeildarliði.

Vonandi getum við saman, ég, stjórnin og leikmenn, styrkt stöðu Fram á næsta tímabili og komið okkur ofar í töflunni. Draumurinn í dag er að koma liðinu í efri hlutann en það þarf mikið að ganga upp. Við þurfum að æfa vel, styrkja hópinn og leikmenn þurfa að hafa trú á því sem ég vil gera. Það er fullt af góðum liðum í þessari deild og baráttan er hörð en það er mjög mikilvægt að við setjum okkur raunhæf markmið til þess að byrja með.“

Aðstaðan til fyrirmyndar

Aðstaða Framara í Úlfarsárdalnum er fyrsta flokks, ólíkt því sem Rúnar þurfti að venjast hjá KR þar sem allir flokkar félagsins þurfa að deila saman einum gervigrasvelli.

„Aðstaðan hérna er svo sannarlega til staðar en ég hef fulla trú á því að aðstaðan í Vesturbænum muni batna með tíð og tíma. Það tekur íþróttafélögin oft langan tíma að byggja upp sína aðstöðu og í Reykjavík veltur þetta mikið á borgaryfirvöldum og við vitum hver staðan er á fjármálum borgarinnar þannig að þetta tekur allt saman sinn tíma.

Það er allt komið hérna, nýtt hverfi, nýr völlur, lyftingaaðstaðan til fyrirmyndar sem og búningsklefarnir. Aðstaðan fyrir starfsfólk er frábær og hér er vel hugsað um hlutina. Ég sé fram á mjög góða tíma hérna og gott starfsumhverfi og ég hlakka mikið til næstu ára.“

Þrífst sjálfur á árangri

En verður ekkert skrítið fyrir Rúnar að þjálfa hjá öðru liði en KR þar sem hann er uppalinn og hefur bæði þjálfað og leikið allan sinn feril hér á landi?

„Ég mun sinna minni vinni eins og best verður á kosið og ég mun gera mitt allra besta fyrir Fram. Það er mín vinna og ég mun sinna henni 100% og jafnvel meira ef þess gerist þörf. Ég er í þessu til þess að ná árangri, bæði fyrir mig og félagið, og ég þrífst sjálfur á því að ná árangri, þannig hef ég alltaf verið og það breytist seint.

Á sama tíma þurfa allir að vinna saman að settum markmiðum og róa í sömu átt. Ég þarf að standa mig vel, leikmennirnir þurfa að leggja á sig mikla vinnu og stjórnarmeðlimir líka. Ég sem þjálfari vil auðvitað vinna bikara en markmiðin verða að vera raunhæf. Það getur allt gerst í bikarnum en deildin er erfiðari.

Þar eru stór félög sem hafa fjármagn fram yfir mörg önnur félög og geta þar af leiðandi sótt bestu leikmennina og byggt þannig upp sín lið því það kostar pening að verða Íslandsmeistari. Ég vona hins vegar, með tíð og tíma, að Fram geti komist í þessa baráttu,“ bætti Rúnar Kristinsson við í samtali við Morgunblaðið.