Félagar Bjarni Þór Þórólfsson, Steinþór Guðbjartsson og tveir fv. stjórnarformenn Þjóðræknisfélagsins, Gísli Sigurðsson og Hjálmar W. Hannesson.
Félagar Bjarni Þór Þórólfsson, Steinþór Guðbjartsson og tveir fv. stjórnarformenn Þjóðræknisfélagsins, Gísli Sigurðsson og Hjálmar W. Hannesson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, var gerður að nýjum heiðursfélaga Þjóðræknisfélags Íslands (ÞFÍ) á Þjóðræknisþingi félagsins um liðna helgi. Viðstödd þingið voru m.a. Áslaug Arna Sigur­björnsdóttir ráðherra, Jeannette Menzies,…

Steinþór Guðbjartsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, var gerður að nýjum heiðursfélaga Þjóðræknisfélags Íslands (ÞFÍ) á Þjóðræknisþingi félagsins um liðna helgi. Viðstödd þingið voru m.a. Áslaug Arna Sigur­björnsdóttir ráðherra, Jeannette Menzies, sendiherra Kanada, og Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, sem allar fluttu ávörp.

Heiðursfélagar geta þeir einir orðið sem unnið hafa ötullega að því að styrkja samband og samstarf afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi við Ísland, sem er eitt helsta markmið Þjóðræknisfélagsins, eins og Hulda Karen Daníelsdóttir, fv. formaður ÞFÍ, nefndi í sinni ræðu er hún afhenti Steinþóri heiðursskjal.

Steinþór hóf nám við Manitóba­háskóla í Winnipeg í Kanada árið 1973 og útskrifaðist þaðan sem íþróttafræðingur. „Þar kynntist hann fyrst Vestur-Íslendingum og hefur haldið sambandi við þá allar götur síðan af mikilli tryggð, í rúmlega 50 ár,“ sagði Hulda.

Á námsárunum skrifaði Steinþór greinar og viðtöl í Lögberg-­Heimskringlu og varð ritstjóri blaðsins seinna er hann tók sér leyfi frá störfum á Morgunblaðinu 2004-2005. Var hann þá útnefndur Blaðamaður ársins í Kanada hjá Samtökum blaðamanna og rithöfunda sem fjalla um þjóðarbrot þar í landi. Allt frá 1986 hefur Steinþór starfað á Morgunblaðinu og m.a. skrifað fjölda greina og viðtala í blaðið um vesturíslensk málefni.

Steinþór átti sæti í stjórn ÞFÍ 2001-2004 og situr í heiðursráði. Árið 2010 fékk hann viðurkenningu frá félaginu fyrir kynningu og fræðslu um líf og störf Vestur-­Íslendinga.