Hlaðvarp Getur Rúv. ekkert látið óáreitt?
Hlaðvarp Getur Rúv. ekkert látið óáreitt? — Morgunblaðið/Eggert
Í fyrra lífi fékkst yðar einlægur við að skrifa fjölmiðlarýni í Viðskiptablaðið. Þar kom Ríkisútvarpið oft við sögu, sakir eðlis, útbreiðslu og óþrjótandi fjármuna, því sama hvernig það var rekið, hrun eða ekki hrun, alltaf borguðu skattborgarar meira

Andrés Magnússon

Í fyrra lífi fékkst yðar einlægur við að skrifa fjölmiðlarýni í Viðskiptablaðið. Þar kom Ríkisútvarpið oft við sögu, sakir eðlis, útbreiðslu og óþrjótandi fjármuna, því sama hvernig það var rekið, hrun eða ekki hrun, alltaf borguðu skattborgarar meira.

Þá eru umsvifin órædd. Til hvers Ríkisútvarpið sé, svona fyrir utan að vera þægileg innivinna. Það var eitt sinn aðeins útvarpsstöð, en fór svo líka í sjónvarpsrekstur, varði einokun sína með kjafti og klóm, fjölgaði rásum umræðulaust, hóf vefmiðlun í trássi við lög og svo framvegis.

Nýverið hóf það hlaðvarpsútgerð, gagngert til að kveða í kútinn græðlinginn í almenningsfjölmiðlun og einkamiðlun. En hver þarf tjáningarfrelsi sem hefur ríkisfjölmiðil?

Eins og Örn Arnarson, núverandi fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins, bendir á, þá er ekki að finna neinar sérstakar heimildir til þess í lögum, aðeins almenn ákvæði, sem þá leyfðu Rúv. allt eins að reka plötuútgáfu eða fríblað.

Vilhjálmur Árnason þingmaður í fjárlaganefnd bendir á stranga aðhaldskröfu á gervallt ríkiskerfið í fjárlagafrumvarpinu, á allt og alla… nema Ríkisútvarpið. Af hverju hefur það öðlast stöðu miðaldakirkjunnar, einhvern veginn ofar landslögum og landslýð, sem þó skal borga?