Bjarni Hólm Jónsson fæddist á Hóli í Sæmundarhlíð 10. júní 1937. Hann lést á Hjúkrunardeild HSN á Sauðárkróki 16. október 2023.

Foreldrar hans voru Jón Sveinsson, f. 14. maí 1887, d. 17. mars 1971, og Petrea Óskarsdóttir, f. 30. júní 1904, d. 27. desember 1998.

Systkini Bjarna eru: Sigurður, f. 1916, d. 1994, Hallfríður Bára, f. 1922, d. 2019, Sveinn, f. 1926, d. 2016, Grétar Ingimar, f. 1928, d. 2021, Óskar, f. 1930, Sigríður, f. 1931, d. 2019, Magnús, f. 1938, og Margrét, f. 1945, d. 1982.

Þann 12. október 2013 giftist Bjarni Guðrúnu Steingrímsdóttur frá Snæringsstöðum í Svínadal, f. 16. ágúst 1943, d. 27. febrúar 2022.

Börn Guðrúnar eru:

Steingrímur Albert Grétarsson. f. 1971, eiginkona hans er Joanna Hägerström, börn þeirra eru Grétar Bragi, Samuel, í sambúð með Ceciliu Markfjärd, Felicia, í sambúð með Samuel Walls, og Tilda.

Guðlaug Grétarsdóttir, f. 1973, eiginmaður hennar er Hjalti Viðar Reynisson, dætur þeirra eru: Lilja Dögg og Guðrún Rós, eiginmaður hennar er Elmar J. Grétarsson og börn þeirra eru Gabríel Viðar, Rafael Reynir og Aisha María.

Auður Sandra Grétarsdóttir, f. 1977, eiginmaður hennar er Óli Hjörvar Kristmundsson og þeirra börn eru Tinna Rögn og Daníel Týr, sambýliskona hans er Katrín Ósk Axelsdóttir.

Bjarni átti einstakt samband við Óskar Má Atlason frænda sinn, á milli þeirra myndaðist samband sem helst mætti líkja við gott feðgasamband. Eiginkona Óskars Más er Hafdís Arnardóttir og þeirra börn eru Kristófer Bjarki, Hákon Helgi, Arndís Katla og Þórdís Hekla.

Bjarni byrjaði snemma að vinna að búskapnum á Hóli og bjó lengst af félagsbúi með Grétari bróður sínum, síðar bættist Árni sonur Grétars við í reksturinn. Bjarni, Árni og Grétar voru samheldnir og unnu vel saman, alla tíð var kært á milli Bjarna og fjölskyldu Grétars.

Bjarni gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Staðarhrepp og sat hann m.a. í hreppsnefnd Staðarhrepps frá 1974 allt þar til Staðarhreppur sameinaðist í Sveitarfélagið Skagafjörð árið 1998.

Í janúar 1999 flytur Bjarni á Sauðárkrók og hefur sambúð með Guðrúnu. Hann hélt þó áfram að stunda fjárbúskap á Hóli. Hlíðin hans kallaði þó alltaf á hann og mikil var gleðin þegar sumarbústaðurinn Skógarhlíð var byggður og átti hann þar góðar stundir. Áhugasvið Bjarna snerist fyrst og síðast um bústörf og landbúnað, hann hafði gaman af hestum, fylgdist vel með þjóðmálum og pólitík og var samvinnumaður fram í fingurgóma. Bjarni hafði einnig unun af góðum söng og var duglegur að sækja söngskemmtanir þegar þess var kostur.

Útförin fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 26. október 2023, klukkan 14.

Streymt verður frá athöfninni á facebooksíðu Sauðárkrókskirkju:

https://mbl.is/go/tuey4

Elsku Bjarni minn, mig langar að minnast þín með nokkrum orðum og þakka þér fyrir samfylgdina síðustu ár.

Það var árið 1997 að mamma kynnti mig fyrir þér heima á Blönduósi, við vorum bæði jafn stressuð yfir því að hittast loksins en mamma samt mest stressuð yfir því hvernig örverpið sitt tæki þér, en pabbi hafði látist fimm árum áður. Með okkur tókust strax mjög góð kynni, ég sá að þarna var alveg yndislegur maður með risastórt hjarta sem mamma hefði verið svo lánsöm að kynnast. Við grínuðumst nú oft yfir því að fyrst hafi ég gengið út árið 1995 og hitt hann Óla minn, Guðlaug systir árið 1996 og mamma hafi verið síðust af okkur mæðgum að ganga út. Þið fluttuð svo saman á Krókinn árið 1999 og fóruð að búa saman, mikið sem það var nú gott að koma til ykkar og vera hjá ykkur en þá vorum við Óli flutt suður en kíktum oft norður til ykkar. Það var svo dásamlegt að sjá hvað þú blómstraðir í afahlutverkinu og tókst börnunum okkar einstaklega vel, þeim Daníel Tý og Tinnu Rögn. Milli ykkar var einstakt samband og þú vildir alltaf fá að fylgjast vel með þeim og vita hvað þau væru að gera. Þau nutu þess mjög mikið að fá að koma til ykkar á Krókinn en þá voru sko engar reglur og allt leyfilegt, þau fengu að koma með þér í sveitina, upplifa sauðburðinn, drekka kaffi, vera frammi í Hilux og þá voru bílbeltin ekkert svo nauðsynleg svona í sveitinni og svo var það að fara í Skaffó með þér og þá var ekkert vel séð af þeim ef við foreldrarnir ætluðum með líka. Við vorum svo heppin að ferðast með ykkur víðsvegar um landið og þá var mikið pælt í túnunum sem við keyrðum fram hjá, var byrjað að heyja, hvernig var sprettan og hvernig sauðféð liti út, nokkuð sem ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei pælt í og skildi fyrst ekkert um hvað þú varst að tala en þarna sá ég hvað þú varst mikill bóndi og átti þetta alltaf hug þinn og hjarta. Ykkur mömmu fannst mjög gaman að ferðast saman og gerðuð þið þónokkuð af því bæði hér innanlands og erlendis. Það var mikið hlegið að því þegar þið mamma fóruð út til Svíþjóðar til Steina bróður og fjölskyldu en þá talaðir þú við alla og varst sannfærður um að ef þú talaðir íslenskuna nógu skýrt og hægt þá mundu allir skilja þig.

Það var þér og okkur öllum mikið áfall þegar mamma veiktist, þú hugsaðir einstaklega vel um hana og gerðir allt sem þú gast til að hún gæti verið sem lengst heima í veikindum sínum. Krafturinn og dugnaðurinn í þér var alveg ótrúlegur en mamma lést 27. febrúar 2021. Á milli ykkar mömmu var einstakt samband, þið voruð bæði ómöguleg þegar þið voruð ekki saman þó svo þið gætuð nú alveg tuðað smá hvort í öðru, en það var oft á tíðum ansi broslegt að heyra í ykkur. Ég tók það loforð af þér þegar við hittumst í síðasta skiptið að minningarnar um ykkur muni lifa áfram með okkur um ókomna framtíð og ég stend við það. Ég veit að þið mamma eruð sameinuð á ný og haldið áfram að fylgjast með okkur eins og þið gerðuð alltaf.

Takk fyrir öll árin og allt sem þú gerðir fyrir okkur.

Auður Sandra
og fjölskylda.