„Þetta eru það margir skjálftar og viðvarandi að það er ekkert skrýtið að lýst hafi verið yfir óvissustigi almannavarna,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um skjálftahrinuna í gær

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Þetta eru það margir skjálftar og viðvarandi að það er ekkert skrýtið að lýst hafi verið yfir óvissustigi almannavarna,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um skjálftahrinuna í gær. Sterkasti skjálftinn mældist í gærmorgun af stærðinni 4,5 og fannst hann vel á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en um þúsund skjálftar mældust við Þorbjörn og Fagradalsfjall frá miðnætti fram á gærdaginn.

„En þetta virðast vera sniðgengisskjálftar mestmegnis, sem gæti bent til þess að skjálftarnir séu tengdir hreyfingum á plötunum frekar en kvikuhreyfingum. En það getur líka vel verið að landrisið sem er núna viðvarandi undir Fagradalsfjalli valdi svona mikilli spennu við Þorbjörn og svo gefi það sig og þá fáum við skjálftahrinu.“

Þorvaldur segir að vissulega sé kvika að malla þarna undir jarðskorpunni en að spurningin sé hvort skjálftarnir við Þorbjörn beintengist kvikuhreyfingum. „Við höfum ekki verið að sjá gliðnun í jarðskorpunni, sem væri frekar merki um að kvika væri að færa sig í átt að yfirborðinu. Þetta eru frekar láréttar hreyfingar og eins er landris ekki mikið við Þorbjörn, sem betur fer. Við myndum ekki vilja sjá gos í túnfæti Grindavíkur og við Bláa lónið.“

Þorvaldur bætir við að skjálftarnir séu að mælast á u.þ.b. 5 km dýpi og hafi ekki verið að grynnka, sem myndi gerast ef kvika væri að færast nær yfirborðinu. „Ég tel enn að næsta gos á svæðinu verði á þessu sama svæði og það hefur verið, við Meradali, Fagradalsfjall eða nálægt Keili og það gæti komið á næsta ári.“ Hann bætir við að hugsanlega gerist það hraðar en áður vegna fyrri eldgosa á svæðinu.