Ríkisútvarpið Skatturinn útvarpsgjald hækkar um 3,5% á næsta ári.
Ríkisútvarpið Skatturinn útvarpsgjald hækkar um 3,5% á næsta ári. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tekjustofnar RÚV eru skilgreindir í lögum um Ríkisútvarpið, þar á meðal er árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Tekjustofnar RÚV eru skilgreindir í lögum um Ríkisútvarpið, þar á meðal er árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi. Fjármálaráðuneytið skilgreinir forsendur útreikninga, þ.e. fjölda einstaklinga og lögaðila sem fá álagt útvarpsgjald og innheimtuhlutfall gjaldsins. Þegar fyrirkomulag var sett á á sínum tíma var það m.a. hugsað til að tryggja RÚV öruggan tekjustofn sem og að tryggja sjálfstæði RÚV gagnvart fjárveitingavaldinu í samræmi við hlutverk þess og skyldur. Þetta fyrirkomulag er ekki gallalaust og mikilvægt að ræða á vettvangi Alþingis,“ segir í skriflegu svari Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Spurt var um hví ekki væri gerð sama hagræðingarkrafa til Ríkisútvarpsins og til annarra stofnana hins opinbera, eins og Vilhjálmur Árnason alþingismaður benti á í frétt í Morgunblaðinu sl. mánudag.

Spurð af hverju RÚV fengi þjónustusamning sinn við ríkið jafnan verðbættan, enda þótt tekjur stofnunarinnar yxu samhliða fjölgun skattgreiðenda, svaraði Lilja því til að gert væri ráð fyrir 3,5% uppfærslu á krónutölugjöldum í gjaldskrám ríkisins á sama tíma og verðbólguspá væri 7,4%.

„Útvarpsgjaldið, sem stendur undir þjónustusamningi stofnunarinnar, mun einnig hækka um 3,5% á næsta ári en vissulega getur breyting á fjölda greiðenda haft áhrif þar til hækkunar á móti. RÚV fer ekki varhluta af hækkun verðlags og launa og þarf einnig að huga að aðhaldi og forgangsröðun líkt og aðrar stofnanir. Í því samhengi má geta þess að stofnunin tók á sig umtalsverða lækkun á tekjum á covid-árunum 2020/2021 sem hafði í för með sér umtalsverða hagræðingu í rekstri hjá stofnuninni,“ segir hún.

Hvað varðar hugmynd Vilhjálms um að breyta lögum um útvarpsgjald á þann veg að Rikisútvarpið fái það ekki allt og hvort megi nota það til að styrkja aðra fjölmiðla til að ná svipuðum markmiðum og RÚV væri ætlað svaraði Lilja þannig:

„Nú stendur yfir vinna starfshóps um málefni Ríkisútvarpsins sem hefur það hlutverk að skoða mögulegar leiðir og tillögur til að breyta eðli og umfangi auglýsingadeildar RÚV til að minnka umsvif ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði. Niðurstaða þeirrar vinnu mun liggja fyrir síðar á árinu.“

Hún segist jafnframt hafa áhyggjur af stöðu einkarekinna fjölmiðla hér á landi í ljósi hinna miklu umbreytinga sem hafa átt sér stað á rekstrarumhverfi þeirra vegna örra tæknibreytinga sem átt hafa sér stað.

„Það hefur í raun átt sér stað markaðsbrestur á fjölmiðlamarkaði vegna þessa en kaup á auglýsingum hafa í stórauknum mæli runnið til erlendra tæknifyrirtækja eins og við þekkjum. Ég er ekki sannfærð um að brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði myndi leysa þann vanda, heldur þvert á móti auka á hann eins og dæmin sanna frá öðrum löndum,“ segir hún.

Hvort til greina komi að taka þær 700 milljónir sem fara í að styrkja einkarekna fjölmiðla af Ríkisútvarpinu, í stað þess að taka þær af skattfé, svarar Lilja á þann veg að margháttaðar aðgerðir þurfi til þess að efla rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi.

„Ýmis önnur samanburðarríki okkar hafa um áratugaskeið stutt við einkarekna fjölmiðla. Síðar í haust mun ég kynna fjölmiðlastefnu og aðgerðir henni tengdar til þess að bæta fjölmiðlaumhverfið hér á landi, en það er gríðarlega mikilvægt að okkur takist vel upp á þeirri vegferð enda eru frjálsir fjölmiðlar einar af undirstöðum lýðræðisins,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.