Fiskveiðar Sólberg er eitt þeirra íslensku skipa sem veitt hafa þorsk í Barentshafi, en ekki er lengur hægt að sækja þorsk í rússneska lögsögu.
Fiskveiðar Sólberg er eitt þeirra íslensku skipa sem veitt hafa þorsk í Barentshafi, en ekki er lengur hægt að sækja þorsk í rússneska lögsögu. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Gera má ráð fyrir að íslenskar útgerðir verði fyrir þó nokkrum áhrifum af 20% samdrætti í veiðiheimildum í Barentshafsþorski í samræmi við samninga Norðmanna og Rússa þess efnis. „Miðað við þennan samdrátt í heimildum er, held ég, ljóst að…

Gera má ráð fyrir að íslenskar útgerðir verði fyrir þó nokkrum áhrifum af 20% samdrætti í veiðiheimildum í Barentshafsþorski í samræmi við samninga Norðmanna og Rússa þess efnis.

„Miðað við þennan samdrátt í heimildum er, held ég, ljóst að útgerðir verða að sameina heimildir á þau skip sem fara. Útgerðirnar eru vanar að vinna saman við veiði þessara heimilda, það hefur reyndar oftast miðað að því að ekkert falli niður,“ sagði Ólafur Helgi Marteinsson, framkvæmdastjóri útgerðar og aðstoðarforstjóri Ísfélagsins, í frétt 200 mílna á mbl.is í gær.

Tilkynnt var nýverið að Noregur og Rússland hefðu gert samkomulag um að ekki yrði veitt meira en 453.427 tonn af þorski í Barentshafi árið 2024 í samræmi við ráðgjöf vísindamanna fyrir norðurslóðaþorsk (n. nordøst-arktisk torsk). Gert er ráð fyrir í Smugusamningunum að ákveðinn hluti af veiðiheimildum Norðmanna og Rússa falli í hlut Íslendinga, en ekki hefur verið hægt að sækja þorsk í rússneska lögsögu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Á síðasta fiskveiðiári veiddu íslensk skip 4.329 tonn af þorski í norskri lögsögu. Ólafur Helgi segir að gróflega reiknað, með fyrirvara um breytingar við úthlutun, megi ætla að skerðing aflaheimilda í Barentshafi þýði að íslenskum skipum verði aðeins heimilt að veiða 3.452 tonn af þorski í norskri lögsögu.

Heimildirnar í rússneskri lögsögu eru af svipaðri stærð en þær falla að óbreyttu niður. „Það hefur verið ósk útgerðanna, sem hagsmuna eiga að gæta, að stjórnvöld heimili okkur að veiða þær heimildir í Smugunni eða að stjórnvöld ræði við Norðmenn um að við fáum að veiða kvótann í norskri landhelgi. Þessar heimildir eru partur af Smugusamningnum og Ísland á rétt á að veiða þetta,“ segir Ólafur Helgi. gso@mbl.is