Gasa Reykur liðast yfir Gasasvæðið eftir loftárásir Ísraelsmanna í gær.
Gasa Reykur liðast yfir Gasasvæðið eftir loftárásir Ísraelsmanna í gær. — AFP/Ronaldo Schemidt
Stjórnvöld í Ísrael voru í gær sögð hafa samþykkt að fresta fyrirhugaðri innrás sinni á Gasasvæðið um nokkra daga, svo að Bandaríkjaher geti…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Stjórnvöld í Ísrael voru í gær sögð hafa samþykkt að fresta fyrirhugaðri innrás sinni á Gasasvæðið um nokkra daga, svo að Bandaríkjaher geti lokið við að senda loftvarnarkerfi til herstöðva sinna á Mið-Austurlöndum og setja þau upp.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal hafði eftir heimildarmönnum sínum frá bæði Ísrael og Bandaríkjunum í gær að Bandaríkjastjórn hefði óskað eftir frestinum þar sem Bandaríkjaher þyrfti að efla varnir sínar í heimshlutanum fyrst.

Yfirstjórn hersins gerir ráð fyrir að innrás Ísraela muni kalla fram árásir hinna ýmsu hryðjuverkahópa á bandaríska hermenn, en eldflaugum og drónum hefur verið skotið að bækistöðvum Bandaríkjahers í Írak og Sýrlandi a.m.k. 13 sinnum í þessum mánuði. Bandaríkin halda einnig úti herliði í Kúveit, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, og vilja Bandaríkjamenn því tryggja að eldflaugavarnarkerfi séu fyrir hendi í herstöðvum sínum þar áður en innrás Ísraela hefst.

Þá munu stjórnvöld í Ísrael einnig vera að íhuga hvernig best sé að veita mannúðaraðstoð til óbreyttra borgara innan Gasa, auk þess sem viðræður eru enn í gangi um lausn þeirra gísla sem Hamas-samtökin tóku í árás sinni 7. október síðastliðinn.

Meina SÞ að koma til Ísraels

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagðist í gær vera hneykslaður á því að ummæli sín á fundi öryggisráðsins í fyrradag, þar sem hann sagði m.a. að hryðjuverk Hamas-samtakanna hefðu ekki átt sér stað í tómarúmi heldur vegna áratugalangrar hersetu Ísraelsmanna, hefðu verið túlkuð sem svo að hann væri að réttlæta hryðjuverkin.

Guterres sagði að dregin hefði verið upp röng mynd af því sem hann sagði, en Ísraelsmenn brugðust reiðir við og kölluðu eftir tafarlausri afsögn hans sem framkvæmdastjóra.

Stjórnvöld í Ísrael ákváðu í gær að meina Martin Griffiths, yfirmanni hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna, vegabréfsáritun vegna ummæla Guterres. Gilad Erdan, sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að öllum fulltrúum SÞ yrði nú neitað um áritun til Ísraels vegna ummælanna. „Það er kominn tími til að kenna þeim lexíu,“ sagði Erdan.

Erdogan hrósaði Hamas

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti tilkynnti í gær að hann væri hættur við fyrirhugaða heimsókn sína til Ísraels vegna „ómannúðlegs“ stríðs landsins við hryðjuverkasamtökin Hamas. Hrósaði hann jafnframt samtökunum og sagði þau ekki vera „hryðjuverkasamtök, heldur frelsissamtök“, þar sem „heilagir stríðsmenn“ væru að berjast til að verja land sitt og þjóð. Gagnrýndi Erdogan jafnframt stuðning vesturveldanna við Ísrael og sagði að „vestræn tár“ vegna Ísraels væru „myndbirting svika“.

Stjórnvöld í Ísrael fordæmdu ummæli Erdogans harðlega. Sagði ísraelska utanríkisráðuneytið að tilraun Erdogans til þess að verja hryðjuverkamenn myndi ekki breyta þeim hryllingi sem heimsbyggðin hefði orðið vitni að 7. október.