Héraðsdómur Mörður Áslaugarson, framkvæmdastjóri vefhýsingarfyrirtækisins 1984 ehf., við málflutning í Héraðsdómi Reykjavíkur nýverið.
Héraðsdómur Mörður Áslaugarson, framkvæmdastjóri vefhýsingarfyrirtækisins 1984 ehf., við málflutning í Héraðsdómi Reykjavíkur nýverið. — Morgunblaðið/Arnþór
„Forsendur lögbannskröfunnar eru hatursorðræða en þegar við fáum ásakanir af þessu tagi um okkar viðskiptavini, þá tökum við það gríðarlega alvarlega

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Forsendur lögbannskröfunnar eru hatursorðræða en þegar við fáum ásakanir af þessu tagi um okkar viðskiptavini, þá tökum við það gríðarlega alvarlega. Við hýsum ekki hatursorðræðu, nýnasista, ISIS eða hvatningu til ofbeldis og á hverjum degi tökum við hiklaust niður vefi af því tagi,“ segir Mörður Áslaugarson, framkvæmdastjóri vefhýsingarfyrirtækisins 1984.

Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er nú rekið mál þar sem lögbanns er krafist á vefsíðu The Mapping Project sem hýst er hjá fyrirtækinu. Það eru bandarísku samtökin Anti-Defamation League, ADL, sem gera kröfu um lögbann á vefsíðuna og eru forsendurnar þær að þar sé fluttur boðskapur mað það að markmiði að spilla fyrir þeim eða að taka úr umferð þá sem beita sér í stuðningi við Ísrael. Á téðri vefsíðu sé til að mynda að finna gagnvirkt kort af Massachusetts-svæðinu í Bandaríkjunum þar sem finna megi upplýsingar um staðsetnignu fjölda einstaklinga, fyrirtækja og stofnana sem sögð eru styðja nýlendustefnu og síonisma.

Styðja tjáningarfrelsi

Þessu hafnar Mörður en segir að fyrirtækið gefi sig út fyrir að styðja við tjáningarfrelsi og erlendis sé fyrirtækið þekkt fyrir það. Hann nefnir að fyrirtækið hýsi síður m.a. blaðamanna sem starfa við erfiðar aðstæður, t.a.m. frá Íran, Írak, Rússlandi og Mjanmar. „Þetta fólk væri í lífshættu ef við hér hjá 1984 gerðum mistök,“ segir Mörður.

„Við tókum þessar ásakanir mjög alvarlega og skoðuðum vefinn og leituðum að því sem þetta fólk var sakað um, hvort þar væri að finna hatursorðræðu, hvatningu til ofbeldis eða einhvers þess háttar, en fundum ekkert slíkt,“ segir Mörður og bætir því við að fyrirtækið hafi gert meira í því efni. Segir hann að leitað hafi verið til gyðinga sem búsettir eru á Massachusetts-svæðinu í Bandaríkjunum þar sem umrætt kort sýnir vensl aðila sem ADL sakar um að styðja við nýlendustefnu og þeir fengnir til að fara yfir vefsíðuna með það í huga að finna eitthvað sem kæmi illa við þá og fólk af þeirra uppruna, ógn eða hótanir eða því um líkt. Segir Mörður að svör þeira hafi verið eindregin; ekkert af því tagi væri þarna að finna. Þá hafi hagsmunagæslumaður ADL verið spurður að því beint hvar hatursorðræðu væri að finna, en sá hafi ekki getað svarað því.

„Fyrir því er einföld ástæða, hana er ekki að finna á þessum vef,“ segir Mörður.

Vel fjármögnuð samtök

Ferill málsins hér á landi er sá að sýslumaður hafnaði kröfu ADL um lögbann á vefsíðuna, en í framhaldi af þeirri niðurstöðu var málinu skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur, en þaðan er að vænta niðurstöðu innan fárra vikna. Þá segir Mörður að ADL hafi einnig lagt fram kæru til íslenskra lögregluyfirvalda sem og lögreglu í Bandaríkjunum og á hvorugum staðnum hafi málið fengið framgang.

„ADL eru bandarísk samtök og hafa þar mikil og góð tengsl. Þau eru gríðarlega vel fjármögnuð og hafa úr milljörðum að spila á hverju ári. Lén The Mapping Project, mapliberation.org, er skráð hjá stærsta skráningaraðila léna í Bandaríkjunum sem heitir GoDaddy. ADL-samtökin leituðu til GoDaddy og sögðu það sama og þau hafa haldið fram hjá yfirvöldum hér, að þar væri um að ræða hatursorðræðu og hvatningu til ofbeldis. GoDaddy skoðaði vefinn eins og við höfum gert og var niðurstaða þeirra sú að þarna væri ekkert ólöglegt á ferð og harðneituðu að afskrá lénið. Þar sem þeim tekst ekki að neyða stóra volduga aðila til að taka niður þetta lén, þá ráðast þau á garðinn þar sem hann er lægstur. Við stöndum frammi fyrir miklu og harkalegu valdi, það er upplifun okkar. Þau hafa endalaust af peningum. Það höfum við ekki,“ segir Mörður Áslaugarson og spáir því jafnframt að ADL-samtökin verði gerð afturreka með mál sitt hér á landi.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson