Sundahöfn Norwegian Getaway er eitt fjölmargra risaskipa sem komu til Reykjavíkur í sumar. Farþegaskipti slíkra skipa hér hafa stóraukist í sumar.
Sundahöfn Norwegian Getaway er eitt fjölmargra risaskipa sem komu til Reykjavíkur í sumar. Farþegaskipti slíkra skipa hér hafa stóraukist í sumar. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nýlokið er vertíð skemmtiferðaskipa/farþegaskipa þetta árið. Og enn var nýtt met slegið hjá Faxaflóahöfnum. Skipakomur til Reykjavíkur voru fleiri en nokkru sinni áður og farþegafjöldinn fór í fyrsta skipti yfir 300 þúsund.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nýlokið er vertíð skemmtiferðaskipa/farþegaskipa þetta árið. Og enn var nýtt met slegið hjá Faxaflóahöfnum. Skipakomur til Reykjavíkur voru fleiri en nokkru sinni áður og farþegafjöldinn fór í fyrsta skipti yfir 300 þúsund.

Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Jökuls Ólafssonar markaðsstjóra Faxaflóahafna komu 99 skip til Reykjavíkur/Akraness í sumar. Mörg þeirra komu oftar en einu sinni og því voru skipakomur alls 261. Heildarfjöldi farþega var 306.311 og þar af voru 148.615 skiptifarþegar, sem er stóra fréttin að mati Sigurðar.

Sumarið 2022 komu 80 farþegaskip til hafnar í Reykjavík og skipakomur voru alls 184. Í þessum skipum var rúm fyrir 196.911 farþega.

Það sem skýrir miklu aukningu í farþegaskiptum er að stærri skipaútgerðir eins og Norwegian Cruise Lines, Royal Caribbean og Holland America Line eru að nýta sér staðsetningu Íslands og geysiöflugar flugsamgöngur til Bandaríkjanna til að láta sína farþega annaðhvort hefja eða ljúka siglingu sinni hér í Reykjavík. Fram að heimsfaraldri voru það aðallega minni leiðangursskipin svokölluðu sem höfðu farþegaskipti í Reykjavík. Leiðangursskipin, þá sem núna, taki við nýjum gestum í Reykjavík og sigla svo um Ísland, Grænland, Svalbarða og Færeyja. Í einhverjum tilvikum lýkur ferðinni í Noregi eða annars staðar, en mjög oft snúa skipin aftur til Reykjavíkur og ferðinni lýkur þar.

„Stóru skipin sem hafa farþegaskipti í Reykjavík sigla annaðhvort frá Bandaríkjunum, Southampton eða Amsterdam til Reykjavíkur með viðkomu í Noregi, öðrum höfnum á Íslandi og svo sömu leið til baka. Það eru ýmsar leiðir í boði og það er í raun sérstaða hvers skipafélags hvaða leið og viðkomustaði þau bjóða upp á,“ segir Sigurður.

Skiptifarþegar koma eða fara með flugvélum í gegnum Keflavíkurflugvöll. Farþegarnir eru tékkaðir inn eða út í Sundahöfn eða á Miðbakka í Gömlu höfninni. „Það voru þá í raun 148.615 farþegar sem voru tékkaðir inn í skipin eða út úr þeim. Það er heildarfjöldi skiptifarþega, hinir voru venjulegir komufarþegar sem komu og fóru með sama skipi,“ segir Sigurður. Það megi bæta við að oft eru þetta „fly&cruise“-pakkar þar sem gisting á hóteli í Reykjavík er innifalin í pakkanum.

Flugfélögin njóta góðs af þessu fyrirkomulagi.Þessi mikli fjöldi skiptifarþega myndi fylla 850 farþegaflugvélar.

„Við sjáum að stóru skipaútgerðirnar huga í auknum mæli að farþegaskiptum í Reykjavík með stærri skipum en áður,“ segir Sigurður. Um sé að ræða skip sem taka 2.500 til 3.500 farþega í venjulegum farþegarýmum en ekki lúxusrýmum. Þá hefur risastórum skemmtiferðaskipum farið fjölgandi. Árið 2022 var heildartonnafjöldi farþegaskipa 8,4 milljónir, í sumar var hann 12,4 milljónir tonna og árið 2024 gæti hann orðið allt að 13 milljónir tonna.

Eins og gefur að skilja er mikil öryggisgæsla í skemmtiferðaskipum og engum hleypt um borð nema hafa farið í gegnum viðamikla öryggisskoðun. Það sama gildir um farangur farþeganna. Sigurður Jökull segir að hjá Faxaflóahöfnum hafi allt að 50 manns komið að afgreiðslu og umsýslu skemmtiferðaskipa. „Svo er það náttúrulega öryggisgæsla, skönnun farþega og farangurs, töskuburður, innritun farþega, landamæraeftirlit og rekstur upplýsingamiðstöðvar,“ segir Sigurður.

Skapar mörgum atvinnu

Við þessa tölu megi svo bæta umboðsmönnum skipanna og starfsmönnum þeirra svo og fólki sem sér þeim fyrir vistum og búnaði. Allt í allt séu um 100 manns sem komi hér að verki. Þá séu ótaldir leiðsögumenn og bílstjórar sem fari með farþega skemmtiferðaskipanna í skoðunarferðir. Rúturnar skipti tugum þegar stærstu skipin koma til hafnar. Þá fara margir í ferðir með leigubílum.

Á Skarfabakka í Sundahöfn var útbúin aðstaða til bráðabirgða í fyrra og aftur í sumar. En nú hillir undir byggingu til framtíðar og ekki veitir af. Fjöldi skiptifarþega nálgaðist 8.000 á annasömustu dögunum í sumar og því var handagangur í öskjunni líkt og í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli.

Faxaflóhafnir efndu til samkeppni vegna hönnunar og byggingar á fjölnota farþegamiðstöð á Skarfabakka í Sundahöfn. Teymið ÍAV, VSÓ og BROKKR STUDIO átti sigurtillöguna. Vonast er til að nýja farþegamiðstöðin verði tilbúin fyrir sumarið 2025.

Næsta sumar, 2024, gæti enn eitt metið fallið. Að sögn Sigurðar er nú þegar búið að bóka 263 skipakomur. Áætlað er að með þeim komi 308 þúsund farþegar, þar af 150 þúsund skiptifarþegar. Þessar tölur geta auðvitað breyst. En það styttist í að toppnum verði náð og jafnvægi komist á, enda eru takmörk fyrir því hve mörgum skipum hafnarmannvirkin geta tekið á móti. Fyrsta skipið er skráð í höfn 21. mars á næsta ári.

„Varðandi ánægju með þjónustu og aðstöðu þá fengu Faxaflóahafnir næsthæstu einkunn á heimsvísu hjá farþegum Royal Caribbean fyrir farþegaskipti á Skarfabakka. Þetta eru auðvitað mjög ánægjuleg tíðindi fyrir alla starfsmenn Faxaflóahafna,“ segir Sigurður Jökull að lokum.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson