— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, sagði í setningarræðu sinni við upphaf þings SGS í gær, að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum myndi „ráða úrslitum um hvort hér verði hægt að ganga frá kjarasamningum án átaka eða ekki“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, sagði í setningarræðu sinni við upphaf þings SGS í gær, að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum myndi „ráða úrslitum um hvort hér verði hægt að ganga frá kjarasamningum án átaka eða ekki“.

Minnti hann á að í kjarasamningunum 2019 hefði aðgerðapakki stjórnvalda verið metinn á 80 milljarða. Stjórnvöld verði að koma myndarlega að borðinu í komandi kjarasamningum. „Í komandi kjarasamningum verðum við að vera með skýlausa kröfu á stjórnvöld um að létta enn frekar á skattbyrði lágtekjufólks og koma þarf mun betur til móts við tekjulágar fjölskyldur í formi hærri barnabóta, húsaleigubóta og vaxtabóta. Það þarf einnig að tryggja að persónuafslátturinn fylgi ætíð hækkun launavísitölunnar,“ sagði hann. Í máli hans kom einnig fram að verkalýðsfélögin þyrftu að halda áfram að leggja ofuráherslu á að samið yrði með krónutöluhækkunum í komandi kjarasamningum líkt og síðast var gert.

Finnbjörn Hermannsson forseti ASÍ og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, fluttu ávörp við þingsetninguna í gær. Fór Guðmundur Ingi m.a. yfir þá vinnu sem í gangi er í húsnæðismálum, starfsendurhæfingu og lífeyriskerfinu. „Án þess að blanda mér inn í kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði þá vil ég deila með ykkur þeirri pólitísku sýn minni að hækka þurfi sérstaklega laun þeirra launalægstu og leiðrétta laun kvennastétta,“ sagði ráðherrann.