Höfundur Skáldsaga Raveys er „vel mótuð og lesandinn gleypir hana í sig“.
Höfundur Skáldsaga Raveys er „vel mótuð og lesandinn gleypir hana í sig“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Nokkuð óvenjulegur lögmaður ★★★½· Eftir Yves Ravey. Jórunn Tómasdóttir þýddi. Ugla, 2023. Kilja, 122 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Lögmenn sem eru ekki allir þar sem eru séðir, slóttugir, útsjónarsamir, jafnvel ófyrirleitnir, eru algengir í persónugalleríum sakamálasagna af öllu tagi. Og þegar vísað er til lögmanns í heiti skáldverks þar sem fjallað er um glæpi, þá gerir lesandinn ráð fyrir því að sá muni koma að lausn gátunnar með óvæntum og snjöllum hætti. En þótt Montussaint í nóvellunni Nokkuð óvenjulegur lögmaður reyni vissulega að hafa áhrif á það hvernig aðrar persónur sögunnar upplifa atburði, þá kemur hann við sögu með öðrum hætti en búast hefði mátt við, og aðrir kunna að vera séðari en hann. Og þar, og í því sem gefið er í skyn en ekki sagt, liggja ekki síst tíðindin í þessari stuttu en vel mótuðu sögu um glæp.

Höfundurinn Yves Ravey (f. 1953) er allþekktur höfundur skáldsagna og leikrita í Fraklandi en hann hefur skrifað á annan tug skáldsagna. Nokkuð óvenjulegur lögmaður er sú fyrsta sem kemur út á íslensku og er lipurlega þýdd af Jórunni Tómasdóttur, í knöppum en vel flæðandi stíl.

Sagan fjallar um ekkju, frú Rebernak, sem býr í smábæ ásamt tveimur börnum á menntaskólaaldri, dótturinni Clémence og syni sem hefur lítið hlutverk en er engu að síður sögumaðurinn; hann virðist vera að rifja atburðina upp löngu eftir að þeir gerðust, og það skilar áhugaverðu sjónarhorni á frásögnina. Sagan hefst á því að kvöld eitt er bankað á dyr frú Rebernak og barna hennar og er þar kominn frændinn Freddy. Sá hafði áður starfað hjá manni hennar en verið dæmdur í fimmtán ára fangeldi fyrir að nauðga stúlku sem var í skóla með börnum frú Rebernak. Frúin vill ekkert af frænda sínum vita og bannar honum að koma nálægt heimilinu, því hún óttast að hann kunni að skaða Clémence dóttur sína. Freddy kýs samt að vera í bænum og þótt yfirvöld reyni að útskýra fyrir frúnni að hann hafi tekið út sína refsingu, þá hefur hún varann á sér gagnvart frændanum og reynir eins og hún getur að fylgjast með ferðum hans. Clémence hefur verið að slá sér upp með syni Montussaints lögmanns, sem er flagaralegur náungi, sýnilega ágætlega efnaður, og hafði verið vinur eiginmanns frúarinnar. Hún leitar til lögmannsins með aðstoð sinna mála og vegna vináttu barnanna hafa þau nokkur samskipti – en í sögunni verða síðan óvæntar vendingar og lögmaðurinn reynist, eins og áður hefur verið sagt, ekki allur þar sem hann er séður.

Nokkuð óvenjulegur lögmaður er stutt saga, vel mótuð og lesandinn gleypir hana í sig. Hún fjallar um andstyggilegan glæp og byggist í senn á og vísar til formúla slíkra sagna, en höfundinum auðnast líka að koma með nokkuð óvænta snúninga í frásögnina, þar sem hinn grunaði er ekki endilega sá seki og refsingin kemur mögulega á óvart.