Nýbygging Nýja heimilinu hefur verið valinn staður ofarlega í bænum.
Nýbygging Nýja heimilinu hefur verið valinn staður ofarlega í bænum. — Tölvumynd/Arkís
Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) hefur óskað eftir tilboðum í byggingu 4.600 fermetra hjúkrunarheimilis á Húsavík. Fáist viðunandi tilboð í byggingarframkvæmdirnar horfir til þess að 60 rýma hjúkrunarheimili verði opnað þar í bænum haustið 2026

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) hefur óskað eftir tilboðum í byggingu 4.600 fermetra hjúkrunarheimilis á Húsavík. Fáist viðunandi tilboð í byggingarframkvæmdirnar horfir til þess að 60 rýma hjúkrunarheimili verði opnað þar í bænum haustið 2026.

Fram kemur á heimasíðu FSRE að byggingin sé boðin út fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins og sveitarfélaganna Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Tjörneshrepps.

Byggingin verður kjallari og tengigangur, þrjár hæðir auk þakhæðar sem rúmar tæknirými. Um er að ræða heildarframkvæmd, fullklárað hús og lóðarfrágang.

Vinna við verkefnið hófst hjá Framkvæmdasýslunni árið 2019. Í upphafi stóð til að byggja 23 rýma hjúkrunarheimili á Húsavík. Við frumathugun kom í ljós að hagkvæmara væri að bæta við rýmum og stendur nú til að byggingin rúmi 60 heimilismenn.

Á fyrri hluta árs 2020 fór fram samkeppni um hönnun heimilisins, sem hafði verið valinn staður í hlíðunum fyrir ofan Húsavík í nágrenni við dvalar- og hjúkrunarheimilið Hvamm, sem var opnað í maí 1981. Fyrstu verðlaun hlaut Arkís í samstarfi við Mannvit.

Hönnun heimilisins hófst fljótlega eftir lok samkeppninnar og lá hún fyrir árið 2021. Á haustdögum sama ár var jarðvinna boðin út og í kjölfarið var grafið fyrir byggingunni. Fram kemur á heimasíðu FSRE að í kjölfar þess hafi vaknað spurningar um kostnað og skiptingu hans milli aðila byggingarinnar, en hjúkrunarheimili eru yfirleitt í sameign ríkis og sveitarfélags. Leiða var leitað til að lækka kostnað við bygginguna í samstarfi við hönnuði hennar.

„Nú liggja fyrir endanlegar teikningar að hinu glæsilega hjúkrunarheimili og komið að því að fá tilboð frá byggingaraðilum. Verður spennandi að sjá hvaða fyrirtæki bjóðast til að byggja þessa mikilvægu byggingu,“ segir í tilkynningu á heimasíðu FSRE.