Grafarvogur Hjúkrunarheimili og íbúðir í lífsgæðakjarna eru á sama stað og reynslan af því þykir vera góð. Forsvarsfólk Eirar vill meira af slíku.
Grafarvogur Hjúkrunarheimili og íbúðir í lífsgæðakjarna eru á sama stað og reynslan af því þykir vera góð. Forsvarsfólk Eirar vill meira af slíku. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frá aldamótum til líðandi stundar hefur fólki á Íslandi áttræðu eða eldra fjölgað um 75%, sem fjölgun hjúkrunarrýma fyrir þennan aldurshóp er í engri fylgni við. „Nú eru á Íslandi 13.700 einstaklingar áttræðir eða eldri, en voru 7.700 árið 2001

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Frá aldamótum til líðandi stundar hefur fólki á Íslandi áttræðu eða eldra fjölgað um 75%, sem fjölgun hjúkrunarrýma fyrir þennan aldurshóp er í engri fylgni við. „Nú eru á Íslandi 13.700 einstaklingar áttræðir eða eldri, en voru 7.700 árið 2001. Fjölgunin er 5.700 manns á 20 árum. Hjúkrunarrými fyrir eldra fólk og aðra sem þjónustu þurfa voru 2.200 árið 2001 en rýmin eru nú 2.800. Ættu þó, ef fylgt hefðu aldurssamsetningu þjóðarinnar hlutfallslega, nú að vera 3.800. Um 1.000 fleiri en er nú,“ segir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Eirar – öryggisíbúða, en þær eru reknar til hliðar við starfsemi Eirar – hjúkrunarheimilis í Grafarvogi í Reykjavík.

Afleiðing barnasprengju

Misræmi framboðs og eftirspurnar fylgja eðlilega afleiðingar. Biðlistar eftir langtímabúsetu á hjúkrunarheimilum lengjast. Nú eru þar allt að 500 manns. Árgangar eftirstríðsáranna á Íslandi eru stórir og í því sambandi hefur stundum verið talað um barnasprengjuna miklu. Sömuleiðis er lífaldur fólks sem fætt er 1940-1950 að lengjast sem skapar aukinn þunga á velferðarkerfið.

„Áskoranir ellinnar eru ýmsar. Þar má nefna að öryggistilfinning fólks verður önnur en var. Breytingar verða á minni, færni og snerpu. Þessu fylgja upplifanir vegna missis lífsförunautar og samferðafólks. Sjúkdómar láta á sér kræla og svo framvegis. En kostirnir við ellina eru líka margir. Þekking og lífsreynsla nálgast hámarkið, minningar hlaðast upp, efnahagur styrkist og meiri tími til þess að njóta lífsgæða verður til,“ segir Sigurður og heldur áfram:

„Mitt mat er að fólk sé almennt ekki nógu vel undirbúið fyrir ellina. Þess vegna koma þessar áskoranir fólki á óvart og reynist ellin sumum erfiðari en vera þyrfti. Við þurfum að minnsta kosti nýja nálgun í umræðunni um þetta æviskeið og allt sem því fylgir.“

Lífsgæðakjarnar hafa leyst vanda

Takmörkuðum fjölda hjúkrunarrýma segir Sigurður Garðarsson að hafi tekist að mæta með frumkvæði félagasamtaka eins og Eirar – sjálfseignarstofnunar. Margir hafi leyst sjálfir úr sinni stöðu með því að taka á leigu öryggisíbúðir í svonefndum lífsgæðakjörnum sem Eir á og rekur á tveimur stöðum í Grafarvogi. Þá er einn slíkur í Mosfellsbæ.

„Einkum félög með samfélagsleg markmið, eins og til dæmis Eir, hafa lagt sig fram við að anna eftirspurn með því að þróa og byggja upp lífsgæðakjarna í kringum hjúkrunarheimilin. Aðrir aðilar hafa lítið haft sig í frammi í þessari þróun og uppbyggingu,“ segir Sigurður. Hann telur erfitt að meta virði þess samfélagslega framlags sem þessi félagasamtök veita. Ein leið til slíks sé að meta til fjár að hjúkrunarrýmin séu þúsundinu færri en vera ætti miðað við fólksfjölda og aldurssamsetningu fyrir áratug. Á núvirði og miðað við daggjöld sem greidd eru til hjúkrunarheimila nú megi áætla að ríkinu sparist af því um 15-18 milljarðar króna á ári í beinum útgjöldum sem verða til vegna þessa framlags þriðja geirans, sem svo er kallaður.

Fjármagn fylgir ekki fyrirheitum

Spár gera ráð fyrir að á næstu tuttugu árum muni Íslendingum, áttræðum og þaðan af eldri, fjölga um 17.000. Árið 2043 verði ríflega 30 þúsund manns í þessum hópi. Þessu segir Sigurður Garðarsson að verði að svara með þróun og nýsköpun, frumkvæði og samstarfi á milli opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila. Virkja þurfi fleiri en hið opinbera til að mæta þessu stóra verkefni.

„Ríkisvæðing öldrunarþjónustunnar hefur ekki skilað þeim árangri sem vænta mætti. Framboð á úrræðum fyrir okkar elstu kynslóðir þarf að mæta eftirspurn eftir þjónustu, húsnæði og öðru,“ segir Sigurður. „Vandann má rekja aftur til þess tíma þegar ný lög um málefni aldraðra voru sett sem fólu í sér að ríkið tók yfir þennan málaflokk. Fjárheimildir og regluverk ríkisins halda aftur af framþróun. Ríkið ver of miklum tíma í stefnumörkun og að setja fram markmið um úrbætur sem hægt og illa gengur að standa við. Þar kemur til meðal annars að fjármagn fylgir ekki fyrirheitum. Takmarkaðar aðgerðir hafa leitt af sér langa biðlista eftir úrræðum og þjónustu fyrir fólk sem fyrir vikið verður hliðarsett í samfélaginu. Nýja nálgun þarf til að leysa þetta.“

Ríkið dragi úr afskiptum

„Mín tillaga er að ríkið dragi úr beinum afskiptum af því að veita okkar elstu kynslóðum þjónustu. Taki þess í stað að sér að greiða leið annarra að því að mæta eftirspurn. Eins og til dæmis með því að veita beina styrki, eða hagkvæmari fjármögnun til þeirra sem vilja byggja upp og eftir atvikum starfrækja hjúkrunar- og dvalarheimili, íbúðir, dagdvalir, endurhæfingu, heimaþjónustu og félags- og þjónustumiðstöðvar. Fjöldi félagasamtaka og einkaaðila hefur áhuga, getu og þekkingu til að mæta þörfum og löngunum okkar bestu borgara,“ segir Sigurður Garðarsson.