María Kolbrún Thoroddsen fæddist 26. júní 1939. Hún lést 12. október 2023. Útför hennar fór fram 25. október 2023.

Elsku amma mín, takk fyrir allt sem þú gafst mér.

Þú stórmerkilega kona hafðir svo stórfengleg áhrif á líf mitt og áttir mikinn þátt í því að gera mig að þeirri manneskju sem ég er.

Takk fyrir að gefa mér þetta menningarlega uppeldi, takk fyrir að kynna mér alla tónlistina sem ég hlusta enn á í dag. Takk fyrir að fara með mig á öll söfnin og kynna mig fyrir öllum listamönnunum. Takk fyrir að gefa mér tískuinnblástur út lífið og takk fyrir allt búðaröltið, kaffihúsaferðirnar og stundirnar inni í eldhúsi hjá þér þar sem við ræddum allt milli himins og jarðar, skoðuðum blöðin, hvað væri lekkert og smart í tískutímaritunum og lásum stjörnuspána.

Takk fyrir að leyfa mér alltaf að röfla um hin ýmsu málefni þótt þú hefðir engan áhuga á þeim eða værir allt annarrar skoðunar. Takk fyrir að styðja mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig.

Ég elska þig amma mín.

Eins og þú sagðir alltaf: Guð og góðu englarnir veri hjá þér.

Þín

Arna.

Fallega frænka mín María Kolbrún er látin. Á Fríkirkjuvegi 3 hjá ömmu og afa okkar beggja var ævintýraveröld okkar systkinabarna og leikfélaga úr nágrenninu. Við lékum okkur í fallega garðinum og nutum þess að vera í góðu skjóli stórfjölskyldunnar. Þau voru sex systkinin, börn hjónanna Maríu og Sigurðar, sem bjuggu öll um lengri eða skemmri tíma á æskuheimilinu í byrjun búskapar.

Eins og nærri má geta var líf og fjör í kringum stóran barnahóp og María amma var kjölfestan, besta amma og mikil ættmóðir, miðpunktur gleði og hamingju. Sigurður afi var um nírætt þegar ég man best eftir honum, en hann tók ætíð af alúð og hlýju á móti okkur börnunum inni á „kontór“.

Börn Jónasar móðurbróður og Bjargar eiginkonu hans voru fjögur. Við Egill bróðir lékum okkur mikið við Sigurð og Soffíu, María Kolbrún eða Gúgga eins og hún var kölluð var þá komin á unglingsaldur og Magnús var elstur.

María Kolbrún, glæsileg ung dama, vakti alltaf athygli í heimsóknum sínum á fjölskylduheimilið, birtist kát og hressileg, faðmaði og kyssti ömmu og afa af mikilli hlýju og heilsaði öllum glaðlega með sinni hljómfögru rödd. Ég man fyrst og fremst eftir Gúggu á þessum tíma sem unglingsstelpu, alltaf flottri og smekklega klæddri, með fallega klippt stutt hár. Mikil var hrifning mín af stóru frænku og mér þótti alla tíð innilega vænt um hana. Hún gaf sér tíma til að spjalla við mig, lét ekki sex ára aldursmun breyta því, og var mér hlýleg og einstaklega góð frænka.

En árið 1955 varð örlagaríkt í veröld okkar allra. Um haustið lést afi okkar 92 ára og skömmu síðar dundi reiðarslag yfir fjölskylduna þegar Siggi litli bróðir Gúggu lést í bílslysi tæplega átta ára. Þungbærar minningar leita enn og aftur á við þessi skrif, systkini og foreldrar Sigga urðu fyrir sárum missi.

Amma og afi lögðu dýrmætan grunn að vináttu og kærleika á milli okkar afkomenda sinna, systkinabarnanna tuttugu og fjögurra, en tvö úr þessum hópi náðu ekki fullorðinsaldri. Við vorum enn tuttugu og tvö fyrir tíu árum þegar við fögnuðum 130 ára afmæli Sigurðar afa. Á skemmtilegri mynd af hópnum er Gúgga með fallega brosið sitt og vakti eins og endranær ljúfar tilfinningar hjá mér. Nú hefur fækkað um fimm í þessum góða hópi.

Amma flutti síðar í sama hús og fjölskylda mín að Hjarðarhaga 17. Ég var oft uppi á efri hæðinni hjá ömmu og sá hve mjög gestakomur glöddu hana. „Elsku amma mín, hvernig líður þér?“ heyrðist stundum kallað í dyrunum, Gúgga var þá komin með hlýjan faðm, alltaf geislaði umhyggjan af henni gagnvart ömmu. Frískandi andrúmsloftið sem fylgdi Gúggu var ömmu alltaf mikil uppörvun og gleði.

Veiztu að í augum þér á ég

ást mína og hamingjusól,

allt það ljós, sem mig leiðir

að ljósgjafans veldisstól,

þar á ég ástanna blómið,

sem aldregi visnaði og kól.

(Jónas Thoroddsen)

Ég kveð elsku Gúggu frænku með orðum föður hennar og votta yndislegri Björgu dóttur hennar, elsku Soffíu frænku og öðrum aðstandendum dýpstu samúð mína og fjölskyldu minnar.

Far þú í friði, elsku frænka.

Þín (Maja).

María Louisa Einarsdóttir.

Móðursystir mín, María Kolbrún Thoroddsen eða Gúgga eins og hún var kölluð af sínum nánustu, er nú látin eftir löng veikindi. Svo stóran sess skipaði hún í mínu lífi að þegar ég, tæplega fjögurra ára, fékk þær fréttir að Gúgga væri orðin amma varð ég nokkuð hugsi en spurði svo eilítið döpur hvort Gúgga væri þá hætt að vera frænka mín. Það var auðvitað öðru nær því hún var alltaf til staðar og sýndi mér mikla hlýju og væntumþykju alla tíð.

Þegar ég var barn bjuggu Gúgga, Örn maður hennar og amma mín Lillý öll undir sama þaki í Fossvoginum. Heimsókn til ömmu var því einnig heimsókn til Gúggu og um tíma bjuggu fjórar kynslóðir í húsinu því Bagga dóttir Gúggu og María dótturdóttir bjuggu þar einnig um tíma. Heimsókn í Grundarlandið var alltaf tilhlökkunarefni og þaðan á ég dýrmætar bernskuminningar um aðfangadagskvöld, sumardaga í fallega garðinum og ótal aðrar samverustundir sem ljúft er að minnast.

Hjá ömmu Lillý og Gúggu mátti leika sér með hælaskó, töskur og skartgripi og af nógu var að taka enda voru þær einstakar smekkkonur og fagurkerar. Allt svo lekkert og fallegt hvert sem litið var. Eyrnalokkakrukkan hennar Gúggu var í sérstöku uppáhaldi hjá mér og það var mikið sport að hvolfa úr krukkunni og skoða litríka eyrnalokka af öllum stærðum og gerðum.

Heimili Gúggu var afar smekklegt og hún naut þess að hafa fallegt í kringum sig. Hún hafði yndi af listaverkum og hafði næmt auga fyrir því að blanda saman ættargripum við framandi hluti frá ferðalögum erlendis svo úr varð einstakt heimili. Henni þótti einnig gaman að gleðja aðra með fallegum hlutum og ég var á fermingaraldri þegar hún byrjaði að gefa mér ýmislegt „upp á punt“ eða eitthvað „í búið“ og sumt af því prýðir nú heimili mitt.

Gúgga naut þess að hafa fólkið sitt hjá sér. Hún var góður gestgjafi, bar fram góðar veitingar og lagði fallega á borð, hvort sem það var hversdags eða spari. „Allt svo myndarlegt“ hefði hún sjálf sagt um aðra góða gestgjafa. Ef einhver átti ekki heimangengt í boð til Gúggu sá hún til þess að viðkomandi fengi sendingu með afgöngum.

Að skreppa í örstutta heimsókn til Gúggu átti hins vegar ekki sérstaklega upp á pallborðið hjá henni. Henni þótti sitt fólk slíkir aufúsugestir að það dugði ekkert minna en löng heimsókn og alltaf fannst henni gestirnir nýkomnir þegar hugað var að heimför eftir margar klukkustundir í góðu yfirlæti. Enda var alltaf gott og gaman að vera í kringum Gúggu og tíminn fljótur að líða. Hún var skemmtileg, hafði góða nærveru, var næm á tilfinningar og líðan fólks og alltaf tilbúin að hlusta og gefa góð ráð.

Gúgga átti lengi við vanheilsu að stríða. Hún sýndi styrk og dugnað og kvartaði aldrei. En síðustu ár voru henni erfið og hún átti erfitt með að sætta sig við að flytja af fallegu heimili sínu í Kríunesinu yfir á hjúkrunarheimili. Slíkt átti ekki vel við Gúggu sem vildi hafa hlutina eftir sínu höfði og vera við stjórnvölinn í eigin lífi.

Ég kveð Gúggu með kærri þökk fyrir allt sem hún gaf mér og allt sem hún var mér. Megi hún hvíla í friði.

Björg Kristjana
Sigurðardóttir.