Fagnaðarfundir Endurfundir Guðmundar og Jónasar eftir aldarfjórðung. Á tröppum Læknishússins á Sauðárkróki 1913 komu saman þau Jón Thoroddsen, Jónas Kristjánsson, Hansína Benediktsdóttir, Jónína Helgadóttir, Ásta Jónasdóttir, Guðmundur Kristjánsson og Jónína Christie.
Fagnaðarfundir Endurfundir Guðmundar og Jónasar eftir aldarfjórðung. Á tröppum Læknishússins á Sauðárkróki 1913 komu saman þau Jón Thoroddsen, Jónas Kristjánsson, Hansína Benediktsdóttir, Jónína Helgadóttir, Ásta Jónasdóttir, Guðmundur Kristjánsson og Jónína Christie. — Ljósmynd/Þjóðminjasafn Íslands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rennblautur, blankur og fjúkandi reiður Jónas fylgdist grannt með straumum og stefnum í læknisfræðinni, las öll helstu læknatímarit heims og fór reglulega í endurmenntunarferðir til útlanda. Árið 1913, þegar hann var nýkominn til Sauðárkróks, fór hann í átta mánaða námsferð um Evrópu og Bandaríkin

Rennblautur, blankur og fjúkandi reiður

Jónas fylgdist grannt með straumum og stefnum í læknisfræðinni, las öll helstu læknatímarit heims og fór reglulega í endurmenntunarferðir til útlanda. Árið 1913, þegar hann var nýkominn til Sauðárkróks, fór hann í átta mánaða námsferð um Evrópu og Bandaríkin. Dagbækur Jónasar hafa glatast en til er lítið dagbókarbrot úr þessari ferð. Mest fer fyrir lýsingum á læknisaðgerðum sem hann fylgdist með en einnig segir hann frá peningavandræðum þegar hann er nýkominn til New York. Hann hafði keypt „tékkaávísun“ fyrir 119 dollara í banka í Berlín og ætlaði að skipta henni í National Bank of Commerce í New York. Tvo daga í röð stóð hann í stappi í bankanum og var ítrekað krafinn um frekari gögn. Úrhellisrigning var þessa daga og Jónas rennblautur, blankur og fjúkandi reiður. Þrjóskan bar þó árangur að lokum. „Gekk þetta þref á annan klukkutíma. Jeg hótaði þeim að jeg færi ekki úr bankanum nema jeg væri tekinn með valdi fyrri en jeg fengi ávísunina útborgaða. Átti enda ekki eptir af peningum í buddunni nema 7 cent og hafði ekki haft ráð á að borða morgunmat. Loks létust þeir tilleiðast og fékk ég ávísunina útborgaða. Þegar jeg hafði fengið peningana í hendur ljet jeg skammirnar dynja yfir þá svo mikið sem kunnátta í málinu leyfði.“

Í þessari ferð var Jónas lengst af í starfsþjálfun við skurðlækningar hjá hinum heimsfrægu Mayo-bræðrum, William James Mayo og Charles Horace Mayo í Minnesota í Bandaríkjunum. Þeir stofnuðu Mayospítalann í Rochester í Minnesota ásamt föður sínum William Worrall Mayo. Jónas var stórhrifinn af spítalanum og smábænum Rochester. „Þessi bær er líklega allra fegursti og þrifalegasti bær sem ég hef séð, göturnar breiðar, grasfletir, steypt gangstétt og 1–2 trjáraðir framan við húsaröðina, og íbúðarhúsin flest byggð í „Villastíl“. Annað er merkilegt við þennan bæ. Flest húsin eru annað hvort gistihús eða sjúkrahús.“

Rochester var og er ein helsta miðstöð lækninga í heiminum. Árið 1921 komu þangað 70 þúsund manns til að leita sér lækninga og öld síðar starfa þar 60 þúsund manns, þar af 4.500 læknar. „Þetta er bær þeirra bræðranna The Mayos eða Mayobrothers eins og þeir eru vanalega kallaðir hér. Bæjarbúar lifa mestmegnis á starfi þessara bræðra. Þeir eru heimsfrægir læknar og hér í Ameríku eru þeir líka þjóðkunnir ágætismenn og mannvinir. Saga þessa bæjar er saga Mayobrothers og er hún óslitin sigurbraut, sem sýnir hvað gáfur, góður vilji og viljafesta fá áorkað.“

Þegar Jónas var hjá Mayo-bræðrum árið 1913 voru skurðlækningar sérgrein bræðranna og stofnunar þeirra.

„Læknar sækja hingað í stórhópum víða að, og er hér jafnan fjöldi af læknum, frá Ameríku, Evrópu og Asíu. Mayostofnunin gerir margt til þess, að læknar hafi sem mest gagn af dvölinni við stofnunina. Það er greiður aðgangur að skurðarstofum, spítölum, klinik og stóru bókauðugu bókasafni. Þar má sjá öll merkustu læknisfræðileg tímarit heimsins, nema Læknablaðið. Fyrirlestrar eru haldnir vanalega 2 á dag fyrir aðkomulækna, um reynslu og rannsóknir Mayostofnunarinnar á ýmsum sviðum læknisfræðinnar. Hér fer líka fram feikna mikið rannsóknarstarf á krabbameini, struma, diabetes mellit. o. fl. og má héðan mikils vænta í þessu efni, því að hér er unnið sleitulaust og ekkert fé sparað til þess að árangurinn geti orðið sem bestur. Skurðlækningar fara fram á 4 spítölum, svo hér er hægt að sjá meira af þeim á einum degi en nokkurs staðar annars staðar sem ég þekki til, jafnframt skýra læknarnir frá því verki sem þeir eru að vinna, og alt þar að lútandi, aðferð og árangri.“

Hitti bróður sinn eftir aldarfjórðung

Á meðan Jónas dvaldi hjá þeim Mayo-bræðrum vatt sér að honum maður með kunnuglegt andlit. Var það Guðmundur bróðir hans en þeir höfðu þá ekki sést í 24 ár. Líklega hefur þess verið getið í einhverjum blöðum að Jónas væri í Rochester og Guðmundur rekið augun í það. Urðu með þeim fagnaðarfundir og töluðu þeir saman alla nóttina. Þegar Guðmundur fluttist vestur um haf var honum upphaflega komið fyrir hjá enskum bónda nokkuð fjarri Winnipeg. Vistin var erfið fyrir óharðnaðan unglinginn og fyrstu jólin var öllum boðið til borðs, nema Guðmundi. Hann sofnaði svangur þessa jólanótt á hesthúsloftinu. „Hann féll þar í þungan grát yfir sínum einstæðingsskap og óskaði þess að hann mætti deyja,“ segir Jónas í óbirtum endurminningum sínum. „Svo sofnaði hann út frá grátinum og dreymir þá móður okkar. Hún kemur og leiðir tvö lítil börn, annað stærra, hitt minna. Hann sprettur upp til að fagna henni og hún faðmar hann að sér og segir að þetta batni bráðum.“ Guðmundur vildi ólmur fara með móður sinni sálugu en hún sagði honum að koma síðar, huggaði hann og kyssti. Næstu árin voru Guðmundi erfið en landið tók smám saman að rísa. „Hann mátti nú kallast ríkur maður, var kvæntur fallegri konu og var búsettur í Winnipeg.“

Jónas fór heim til Guðmundar um vorið og dvaldi hjá þeim hjónum í nokkrar vikur. Jónas vildi endilega fá þau heim til Íslands og á endanum sigldu þau öll saman um sumarið til Evrópu og svo frá Kaupmannahöfn með Botníu til Íslands. Heimkomu þeirra er getið í Reykjavíkurblöðum en Guðmundur er þar undir sínu nýja nafni, G.F. Christie. Meðal annarra farþega sem komu með Botníu eru tilteknir mektarmenn, svo sem Andreas Heusler prófessor, Eggert Claessen yfirdómslögmaður, Jón Þorláksson landsverkfræðingur, nokkrir helstu kaupmenn landsins og stúdentarnir Héðinn Valdimarsson og Ólafur Thors. Bræðurnir ferðuðust síðan saman um landið. „Við áttum saman nokkrar yndislegar vikur, bræðurnir. Við fórum saman vestur í Vatnsdal og yfir Svínadalsfjallið á æskustöðvar okkar og gömlu hjásetustaðina. Guðmundur hefði feginn viljað setjast hér að en kona hans sem hafði farið vestur á barnsaldri mátti ekki til þess hugsa. Og þegar leið á sumarið hurfu þau aftur vestur.“

Steingrímur Matthíasson læknir og vinur Jónasar var rúmum áratug síðar í endurmenntunarferð hjá Mayo-bræðrum í Rochester. Steingrímur tiltók að þeir bræður hefðu verið mikil kvennagull á yngri árum og að nú bæru þeir af „öðrum mönnum að göfugmennsku og góðum, duglegum vilja“. Jónas hafði beðið Steingrím fyrir góðar kveðjur til Charles Horace Mayo. „Þegar fyrirlestrinum var lokið, gekk ég því til annars bræðranna, en ég vissi þá ekki, hvor þeirra það var. Ég sagði honum nafn mitt, og erindi mitt til Rochester og svo það, að ég ætti að skila kveðju til hans frá Jónasi lækni Kristjánssyni á Íslandi, „eða eruð þér ekki Charles Mayo?“ sagði ég. „Nei, ég er Willie,“ sagði hann, en það gerir ekkert til, ég man líka eftir doktor Kristjánssyni“.“ Kristján, sonur Jónasar, lærði læknisfræði í Bandaríkjunum og starfaði hjá Mayo-stofnuninni á stríðsárunum en fluttist til Íslands eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk.