Viðskiptaráðherrar G7-ríkjanna funduðu í Osaka um helgina og sendu frá sér yfirlýsingu á sunnudag þar sem kínversk stjórnvöld eru hvött til að afnema, án tafar, hömlur á innflutningi japanskra matvæla.
Kína ákvað fyrir tveimur mánuðum að stöðva allan innflutning japanskra sjávarafurða, í kjölfar þess að Japan losaði út í Kyrrahafið hreinsað úrgangsvatn frá Fukushima-kjarnorkuverinu.
Fullyrtu japönsk stjórnvöld að fyllsta öryggis hefði verið gætt við losunina og geislavirkni úrgangsvatnsins væri innan viðmiðunarmarka. Hafði vatnið verið síað af nánast öllum geislavirkum frumefnum og hvorki lífríki né mannfólki hætta búin. Fyrr í þessum mánuði tilkynntu stjórnvöld í Rússlandi að þau myndu grípa til sams konar innflutningsbanns.
Í yfirlýsingu ráðherranna sögðust þeir harma að efnahagsleg tengsl þjóða væru gerð að vopni og ítrekuðu vilja sinn til að efla frjáls viðskipti á milli þjóða, sem færu fram með sanngjörnum hætti og væru öllum til hagsbóta. ai@mbl.is