Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
Bókaútgáfan Salka stendur fyrir fjölbreyttri útgáfu að vanda þar sem breytingaskeiðið, úlfar, tarot og stríð koma meðal annars við sögu.
Meðal bóka sem væntanlegar eru fyrir jólin má nefna Úlfur og Ylfa: Ævintýradagurinn eftir Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur. Bókin er sú fyrsta um Úlf og Ylfu en bókaflokknum er ætlað að fagna fjölbreytileikanum með því að sýna hann í allri sinni dýrð í skemmtilegum sögum fyrir hressa krakka. Árangursríki stjórnandinn eftir Peter F. Drucker í þýðingu Kára Finnssonar fjallar um það hvernig stjórnendum er fyrst og fremst ætlað að koma „réttu hlutunum í verk“ og ná árangri í starfi.
Hin íslenska litabók eftir listakonuna Sísí Ingólfsdóttur býður upp á ferðalag um Ísland en í bókinni má finna 54 myndir sem sýna íslenska náttúru, þjóðlíf, menningu og ýmis sérkenni íslensku þjóðarinnar. Þá er bókinni Hugrekki til að hafa áhrif eftir Höllu Tómasdóttur ætlað að veita lesandanum innblástur til að bæta sig og sitt samfélag en í henni má finna fjölda góðra ráða, hvetjandi sögur, hugleiðingar og gagnlegar spurningar sem efla leiðtogann innra með okkur.
Sérfræðingurinn Alison Davies gæðir söguna að baki hverju spili lífi í bókinni Lesið í tarot en bókin, sem er í þýðingu Hafsteins Thorarensen, hentar byrjendum jafnt sem lengra komnum.
Breytingaskeiðið: jákvæður leiðarvísir að nýju upphafi, eftir Davinu McCall og Naomi Potter, var valin bók ársins 2023 í Bretlandi. „Breytingaskeiðið kannar og útskýrir vísindin, afsannar skaðlegar mýtur sem hafa haldið aftur af okkur of lengi og brýtur þagnarmúrinn sem staðið hefur í kringum breytingaskeiðið, aðdraganda þess og afleiðingar. Í bókinni má lesa persónulegar frásagnir fjölda kvenna því að þótt við upplifum allar breytingaskeiðið á mismunandi hátt erum við allar tengdar. Við erum samfélag.“
Sólveig Pálsdóttir hefur sent frá sér sína áttundu bók, Miðilinn, sem er æsispennandi saga um Guðgeir Fransson og hans rannsóknarteymi sem eiga fullt í fangi með að leysa dularfullt mál. Þá fjalla Stríðsbjarmar, eftir sagnfræðinginn Val Gunnarsson, um stríðið í Úkraínu en Valur stundaði nám þar í landi og hélt aftur þangað nokkrum mánuðum eftir að stríðið hófst til að leita svara við ýmsum spurningum. Um er að ræða sögu þjóðar í stríði og eru flestar hliðar málsins fangaðar á aðgengilegan hátt.
Afrekskonurnar Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir sameina svo krafta sína í bókinni Hver er leiðin? sem segir frá Freyju sem dreymir um að vinna til verðlauna og þarf að læra að treysta á sjálfa sig þegar hún mætir ýmsum áskorunum. Þá eru það hannyrðirnar, en bókin Hekla eftir Elsu Harðardóttur er stútfull af ævintýralegum og fallegum uppskriftum að hekluðum leikföngum fyrir yngstu kynslóðina.