Mikilvæg Landsliðskonan Elín Klara Þorkelsdóttir á stóran þátt í að Haukakonur séu komnar upp í toppsæti úrvalsdeildarinnar í handbolta.
Mikilvæg Landsliðskonan Elín Klara Þorkelsdóttir á stóran þátt í að Haukakonur séu komnar upp í toppsæti úrvalsdeildarinnar í handbolta. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukakonur eru komnar upp í toppsæti úrvalsdeildar kvenna í handbolta eftir sannfærandi 34:25-heimasigur á nýliðum ÍR í 7. umferðinni á laugardag. Það hefur verið gaman að fylgjast með Haukaliðinu síðustu mánuði eftir nokkur döpur ár í röð

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Haukakonur eru komnar upp í toppsæti úrvalsdeildar kvenna í handbolta eftir sannfærandi 34:25-heimasigur á nýliðum ÍR í 7. umferðinni á laugardag.

Það hefur verið gaman að fylgjast með Haukaliðinu síðustu mánuði eftir nokkur döpur ár í röð. Haukar eru stórveldi í íslenskum handbolta, en liðið hefur ekki orðið Íslandsmeistari kvenna frá árinu 2005 og ekki unnið stóran titil síðan liðið varð bikarmeistari 2007.

Haukar fóru síðast í úrslit Íslandsmótsins árið 2016 og því ansi kærkomið fyrir stuðningsmenn félagsins að sjá Hafnarfjarðarliðið í sjálfu toppsætinu.

Í sjö leikjum eru Haukar með sex sigra og eitt tap. Er liðið það eina sem hefur unnið Íslandsmeistara Vals til þessa og því mikill meðbyr með Haukaliðinu.

Elín Klara Þorkelsdóttir átti enn einn stórleikinn á laugardag og skoraði átta mörk. Hún er byrjuð að fá meiri hjálp frá liðsfélögum sínum en stóran hluta seinustu leiktíðar. Birta Lind Jóhannsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir og Sara Odden bættu við fjórum mörkum hver.

Matthildur Lilja Jónsdóttir skoraði fimm mörk fyrir ÍR, sem þarf ekki að skammast sín fyrir sína byrjun. ÍR fór óvænt upp um deild eftir sigur á Selfossi í umspili á síðustu leiktíð og hefur liðið þegar unnið þrjá leiki af sjö, sem fáir áttu von á.

Loksins vann Stjarnan

Stjarnan náði loksins í sinn fyrsta sigur er liðið lagði vængbrotið lið ÍBV á heimavelli, 26:22. Eva Björk Davíðsdóttir fór fyrir Stjörnuliðinu og skoraði tíu mörk. Amelía Einarsdóttir skoraði sjö fyrir ÍBV, sem lék m.a. án Birnu Berg Haraldsdóttur og Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur. Munar um minna.

Stjörnuliðið er allt of vel mannað til að vera í fallbaráttu og að ná í fyrsta sigurinn gæti gefið Stjörnunni aukið sjálfstraust. Eva Björk var besti maður vallarins á laugardaginn, en hin 17 ára gamla Embla Steindórsdóttir á mikið hrós skilið fyrir góða spilamennsku á leiktíðinni til þessa. Hún skoraði fimm mörk og er gríðarlega efnileg.

Ekki er langt síðan Helena Rut Örvarsdóttir var ein besta skytta deildarinnar. Detti hún í gang með þeim Emblu og Evu verða sigrarnir miklu fleiri hjá Stjörnunni.

ÍBV er vængbrotið og deildar- og bikarmeistararnir hafa tapað síðustu þremur leikjum. Það væru öll lið í vandræðum með eins sterka leikmenn fjarverandi og verður skemmtilegt að sjá hvernig Eyjaliðið gengur í gegnum mótvindinn.

Tveir í röð hjá KA/Þór

KA/Þór vann sinn annan sigur í röð er liðið lagði Fram á útivelli, 22:21. Akureyrarliðið vann ekki leik í fyrstu fimm umferðunum en hefur nú svarað með tveimur sterkum sigurleikjum í röð. Í staðinn fyrir að leggja árar í bát fékk handknattleiksdeild félagsins liðstyrk og eru norðankonur sterkari eftir að brasilísku systurnar Rafaele og Isabella Fraga lentu á Akureyri.

Rétt eins og ÍBV er Fram að glíma við meiðsli. Framliðið hefur leikið án landsliðskonunnar Þóreyjar Rósu Stefánsdóttur og það hefur reynst erfitt. Þórey er liðinu gríðarlega mikilvæg, innan- sem og utanvallar.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson