Eldri börnin Heiða, Ísar og Eldjárn aðstoða við fornleifaskráningu í Hvalfirði.
Eldri börnin Heiða, Ísar og Eldjárn aðstoða við fornleifaskráningu í Hvalfirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Adolf Friðriksson fæddist 30. október 1963 á Akranesi og ólst þar upp. „Foreldrar mínir stofnuðu þar iðnfyrirtæki og mínar fyrstu minningar eru af verksmiðjugólfinu, í leik með stimpla og krít og reisa völundarhús úr pappakössum

Adolf Friðriksson fæddist 30. október 1963 á Akranesi og ólst þar upp. „Foreldrar mínir stofnuðu þar iðnfyrirtæki og mínar fyrstu minningar eru af verksmiðjugólfinu, í leik með stimpla og krít og reisa völundarhús úr pappakössum. Það hefur fylgt mér allar götur síðan að finnast eðlilegt að starfsvettvangur er eitthvað sem er hægt að búa til, hefja framleiðslu og skapa verðmæti, þó svo að nú sé hráefnið ekki spunninn þráður og varan ekki sokkar heldur hugvit og ný þekking.“

Adolf gekk í Barnaskóla Akraness og Fjölbrautaskólann á Akranesi, lauk stúdentsprófi 1983, B.A. í fornleifafræði við Institute of Archaeology, London 1988, M.Phil. í fornleifafræði við University College London 1991 og hlaut doktorsgráðu með láði við Sorbonne í París 2013

Adolf hefur stundað vísindastörf á Íslandi, í Frakklandi, Bretlandi, Noregi, Ítalíu og Karíbahafinu og tekið þátt í alþjóðastarfi á vegum UNESCO o.fl. Árið 1995 stofnaði hann ásamt samstarfsmönnum sínum sjálfseignarstofnunina Fornleifastofnun Íslands, sem er helsta rannsóknarfyrirtæki fornleifafræðinga hér á landi.

„Þegar ég kom heim úr námi var engin atvinna í mínu fagi, heldur aðeins örfá embætti með æviráðningu, sem kæfði endurnýjun. Pólitískar hræringar leiddu til nýrra tækifæra. OECD benti á að að breyta mætti embættum í verkefni á samkeppnismarkaði. Með nýrri löggjöf var stjórnsýsla og framkvæmd skilin að og umhverfismálin vaxandi málaflokkur: umhverfismat og skipulagsvinna kallaði á rannsóknaþjónustu. Frumkvöðlastarf fékk aukið vægi og ný þekkingarfyrirtæki hófu sig til flugs.

Allt frá fullveldistímanum hefur það verið pólitísk stefna á Íslandi að varðveita fornleifar og vernda rétt komandi kynslóða til menningararfs þjóðarinnar. Sú stefna verður ekki framkvæmd nema með þekkingu. Fram til 1990 var þó aðeins vitneskja um 1% minjastaða á landinu, og þ.a.l. ekki hægt að framfylgja löggjöf um verndun þeirra. Þarna var komið stórkostlegt viðfangsefni fyrir nýja kynslóð vísindafólks.“

Skipulagsskrá fyrir nýtt rannsóknarfyrirtæki, Fornleifastofnun, var samin á einu vorkvöldi í lítilli kytru í París, með stefnu um uppbyggingu vísindastarfs, útgáfu, starfsþjálfun og alþjóðlegt samstarf. „Síðan þurfti að hafa hraðar hendur til að fá stofnpappírana samþykkta af dómsmálaráðuneyti, sem tókst áður en óballanseruð öfl innan embættiskerfisins náðu vopnum sínum. Við höfum verið kærð oftar en olíufélögin en unnið kærumálin jafnóðum og ekki látið ágreining trufla vísindastörfin.

Fornleifastofnun nýtur þeirrar gæfu að hér starfar samhentur hópur af sjálfstæðum og vel þjálfuðum vísindamönnum sem hafa að auki tileinkað sér sérsvið, s.s. rannsóknir á forngripum, mannabeinum, fornvistfræði, en að auki hefur starfsfólkið ástríðu þekkingarleit. Fjölhæfnin er lykilatriði og reynslan á vettvangi ómetanleg.

Við lögðum áherslu á að veita góða rannsóknaþjónustu hérlendis og verða trúverðug í samstarfi við erlenda aðila; þjónustuverkefni og erlendir rannsóknarstyrkir eru þær stoðir sem bera starfsemina. Við stofnuðum alþjóðlegt vísindarit, og alþjóðlegan vettvangsskóla, og tókum þátt í stofnun áhugamannafélaga í héraði.

Lítil þjónustuverkefni fyrir sveitarfélög eða framkvæmdaaðila eru ekki síðri en stórar rannsóknir og geta stundum af sér óvæntar niðurstöður. Síminn hringir, og fyrr en varir er maður kominn upp í sveit, með nýtt verkefni á ókunnugum stað og í leit að áður óþekktum minjum. Við höfum lagt áherslu á að skila árangri rannsóknanna sem fyrst í hendur almennings, og lætur nærri að skýrslur eða önnur ritverk hafi verið gefin út í hverri viku frá aldamótum. Vísindin eru ævintýraland þar sem allir eiga sinn þegnrétt.

Doktorsritgerð Adolfs, Staðfræði kumla, er rannsókn á menningarlandslagi víkingaaldar, þar sem samhengi fornminja og umhverfis er notað til að opna leið inn í hugmyndaheim fornmanna. „Í stuttu máli má segja að við fundum lykilinn, en það eru heiðnar grafir og staðsetning þeirra í landslaginu. Ísland er aldingarður fornleifafræðinga því hér er hægt að rekja spor fyrstu kynslóða landsnámsmanna. Þau sýna að hinsti hvílustaðurinn var vandlega valinn, gjarnan þar sem reiðleiðir og landamerki skerast. Staðarvalið er sprottið úr táknrænum heimi víkinga um líf og dauða. Kuml eru illgreinanleg í íslensku landslagi og finnast vegna uppblásturs eða vegagerðar, en á síðustu árum hefur okkur tekist að finna tugi grafreita og það þéttir og bætir myndina sem við höfum af fornöldinni.“

Adolf hefur búið og starfað í París og Reykjavík sitt á hvað í aldarfjórðung. „Það hefur mótandi áhrif og kallar á sjálfsskoðun og allra handa samanburð, um barnauppeldi, matarræði, skóla eða vinnu, sem aftur skerpir tilfinninguna fyrir hvað virkar eða hverju megi breyta og jafnvel bræða saman: Hangikjöt er t.d. skrambi gott með gufusoðnum kastaníunetum. Fyrir mann með athyglisbrest er skapandi óreiða reyndar heppilegasta fyrirkomulagið. Börnin mín hafa kynnst landi föður síns í gegnum fornleifaleiðangra, í bland við hóflega innrætingu: Í fótbolta halda þau auðvitað með Skaganum og Íslandi, en eiga svo þessa gutlara í franska landsliðinu og Paris SG í bakhöndinni.“

Framundan eru miklar breytingar á stjórnkerfi umhverfismála. „Þetta eru spennandi tímar. Loftslagsbreytingar eru ný ógn gegn minjum; þær hraða minjaeyðingu og afleiðingarnar óafturkræfar. Minjar eru handritasafn, nær ókannað, og að brenna líkt og í Kaupmannahöfn forðum. Helsta ógnin er þó alltaf óvissan. Þekkingarleitin er víglínan. Með þekkingu verða aðgerðir markvissari. Núna vitum við t.d. heilmikið um staðsetningu og ástand yfir 100.000 minja um allt land. Við sjáum mynstur í samspili minja og náttúru.

Næsta skrefið er að nýta þessa vitneskju til að fóðra Algrím sjálfan og láta gervigreind standa vaktina með okkur, til að skilja og meta hvern skika landsins þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar eða landbrot veldur usla. Ætli það sé ekki mátulegt viðfangsefni fram að tíræðu.“

Fjölskylda

Börn Adolfs með fv. eiginkonu, Severine Daucourt, f. 11.3. 1970, ljóðskáldi, eru 1) Heiða Jeanne Romy, f. 28.6. 1998, nemi, býr í París; 2) Ísar David Valentin, f. 6.3. 2000, býr í Barcelona, og 3) Eldjárn Germain Linus, f. 23.12. 2003, nemi, býr í París. Sonur Adolfs og Solange Bied-Charreton er 4) Jarl Friðrik Charles Marie, f. 15.12. 2017, býr í París.

Systkini Adolfs eru Friðrik Friðriksson, f. 26.12. 1952, rafvirki í Reykjavík; Elsa Friðriksdóttir, f. 4.1. 1957, verslunarmaður á Hvammstanga; Jórunn Friðriksdóttir, f. 27.12. 1958; ritari á Akranesi, og Valdimar Leó Friðriksson, f. 20.7. 1960, framkvæmdastjóri í Mosfellsbæ.

Foreldrar Adolfs voru Friðrik Adolfsson, f. 23.11. 1924 á Akureyri, d. 5.8. 2001, útvarpsvirki og iðnrekandi, bjó á Akureyri og síðar á Akranesi, og Jenny Lind Valdemarsdóttir, f. 9.8. 1932 á Bíldudal, d. 5.1. 2023, framkvæmdastjóri, bjó á Akureyri og síðar á Akranesi og í Reykjavík. Þau giftust 1953 og skildu 1987.