Stjörnur Beckham-hjónin eru í góðu lagi.
Stjörnur Beckham-hjónin eru í góðu lagi. — Getty/Megan Briggs
Ef einhver hefði sagt að sú sem þetta skrifar ætti eftir að sitja límd yfir fjögurra þátta Netflix-þáttum um David Beckham hefði hún hnussað fyrirlitlega. Sumt veit maður alveg fyrir víst, eins og til dæmis það að maður hefur hvorki áhuga á fótbolta …

Kolbrún Bergþórsdóttir

Ef einhver hefði sagt að sú sem þetta skrifar ætti eftir að sitja límd yfir fjögurra þátta Netflix-þáttum um David Beckham hefði hún hnussað fyrirlitlega. Sumt veit maður alveg fyrir víst, eins og til dæmis það að maður hefur hvorki áhuga á fótbolta né Beckham og því útilokað að maður eyði tíma sínum í áhorf á líf þessa dekurdrengs.

Svo kemur í ljós að maður veit sannarlega ekki allt um sjálfan sig.

Þættirnir um Beckham eru dáleiðandi. Það er einhver sérlega fallegur tónn í þeim og þeir virka mjög ekta. David Beckham virðist raunverulega vera óspilltur, hjartahlýr og einlægur. Eiginkona hans Victoria er sannur töffari, klár og ráðagóð og eiginmaður hennar dýrkar konu sína, eins og eiginmenn eiga að gera.

David Beckham fyrirgefur þeim sem hafa gert á hlut hans. Það gerir eiginkona hans ekki. Einn af hápunktum þáttanna er þegar hún segir með áherslu: „Mig langar ennþá til að drepa þá“ og á við áhorfendur sem lögðu mann hennar í einelti á erfiðu tímabili á ferli hans og púuðu á hann í hvert sinn sem hann snerti boltann á vellinum.

Frægð og peningar spilla kannski flestum en sem betur fer ekki öllum. Beckham-hjónin eru sannarlega í góðu lagi!

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir