Agnar Már Másson
Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Anton Guðjónsson
Landris er hafið nærri Svartsengi og er miðja þess nálægt Bláa lóninu, eða um 1,5 kílómetra norðvestan við Þorbjörn. Jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands telja landrisið benda til aukins þrýstings á svæðinu, líklega vegna kvikuinnskots.
„Margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir á Reykjanesskaga, túlkun á aflögunar- og skjálftagögnum bendir til þess að kvikusöfnun á dýpi sé á nokkrum afmörkuðum svæðum sem hafa víðtæk áhrif á skaganum öllum,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Um 8.000 skjálftar hafa mælst frá því að skjálftahrina hófst norðan við Grindavík 25. október. Nokkuð fór að draga úr virkninni yfir helgina. Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, segir að hrinan væri líklega að „deyja út“. Það útiloki þó ekki að ný hrina fari af stað haldi þenslan áfram.
Benedikt segir að skjálftahrinan hafi sennilega greitt veg fyrir kvikuinnskotið sem leitt hefur til landrissins norðan Þorbjarnar.
Enginn órói hefur mælst á svæðinu enn sem komið er og eru engin merki um að kvikan leiti upp á yfirborðið. Benedikt telur því ekki miklar líkur á eldgosi á næstu sólarhringum. Aðstæður gætu þó breyst á skömmum tíma.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að ekki komi á óvart ef grípa þyrfti til rýminga í Bláa lóninu, Svartsengi og Grindavík, eða á þeim stöðum sem eru nálægt miðju landrissins.
„Við erum komin með landris þarna og það er tiltölulega hratt, þrír sentimetrar á 24 tímum,“ segir Þorvaldur. Land hefur risið á svæðinu fimm sinnum síðan árið 2020 en hraðinn er nú töluvert meiri en í fyrri skiptin. Þorvaldur tekur fram að á þessum stað hafi gosið á síðasta eldgosatímabili, í svokölluðum Reykjaneseldum.
„Ef það gýs á þeim stað þar sem landrisið er núna kæmi ekki á óvart að það þyrfti að rýma svæðið. Við þurfum að vera tilbúin. Ef það kæmi til goss á þessu svæði væri viðbragðstíminn ekki mikill,“ sagði Þorvaldur.
Fylgjast grannt með
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku sem rekur orkuver á Illahrauni við Svartsengi, segir að starfsmenn orkuversins haldi ró sinni. Þau fylgist grannt með því sem er að gerast og hegði sér í samræmi við tilmæli almannavarna.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa lónsins, segir að vel sé fylgst með stöðunni varðandi landrisið. Fyrirtækið sé í góðu samtali við almannavarnir og sérfræðinga frá Veðurstofunni.
Eldvirkni á Reykjanesi
Jarðvísindamenn segja nýtt gostímabil vera hafið á Reykjanesskaganum
Upphaf þess var skjálftahrina og landris við Þorbjörn í janúar 2020.
Í mars 2021 hófst eldgos við Fagradalsfjall eftir þriggja vikna jarðskjálftahrinu.
Var það fyrsta eldgosið á skaganum frá árinu 1240.
Eldgos urðu við Fagradalsfjall í ágúst 2022 og við Litla-Hrút í júlí 2023.